1. gr.
Félagið heitir Flötur, samtök stærðfræðikennara.
2. gr.
Markmið félagsins er:
a. að efla stærðfræðinám og -kennslu í íslenskum skólum,
b. að stuðla að aukinni menntun stærðfræðikennara,
c. að vera vettvangur umræðna um markmið og áherslur í stærðfræðinámi og -kennslu í samræmi við þróun þjóðfélags, tækni og greinarinnar,
d. að veita kennurum stuðning við að takast á við ný og breytt viðfangsefni og vinnubrögð.
3. gr.
Félagið hyggst ná markmiðum sínum:
a. með samstarfi við menntastofnanir kennara og aðra þá sem halda uppi fræðslustarfi fyrir kennara,
b. með því að efna til fræðslufunda, námskeiða og ráðstefna eitt sér eða í samvinnu við aðra,
c. með því að efla samstarf stærðfræðikennara á Íslandi á öllum skólastigum,
d. með því að leita tengsla við stærðfræðikennara og samtök þeirra erlendis,
e. með útgáfustarfsemi svo sem útgáfu tímaritsins Flatarmál.
4. gr.
Félagssvæðið er landið allt. Innan félagsins geta starfað hópar um tiltekin viðfangsefni eða svæðisbundnir hópar. Einnig getur stjórnin sett nefndir og starfshópa til ýmissa starfa eftir þörfum.
5. gr.
Allir kennarar sem hafa áhuga á stærðfræðinámi og -kennslu geta orðið félagsmenn. Einnig er stjórninni heimilt að taka aðra þá inn í félagið sem samkvæmt stöðu sinni eða menntun hafa áhuga á viðfangsefnum félagsins.
6. gr.
Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Kjörinn skal einn varamaður í stjórn. Stjórnarmenn skulu kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn, nema formaður sem skal kosinn til tveggja ára. Að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Á aðalfundi skulu einnig kosnir tveir endurskoðendur. Sé þess óskað skulu kosningar vera leynilegar.
7. gr.
Aðalfund skal halda að hausti og eigi síðar en 10. nóvember ár hvert. Á dagskrá skal meðal annars vera:
a. skýrsla stjórnar og starfshópa,
b. lagabreytingar,
c. reikningar,
d. ákvarða upphæð félagsgjalda,
e. kosning stjórnar og endurskoðenda,
f. önnur mál.
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála.
8. gr.
Aðalfundur skal boðaður skriflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Lögum verður aðeins breytt á aðalfundi. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
9. gr.
Aðra fundi skal stjórnin halda eftir þörfum og ef tíundi hluti félagsmanna fer fram á það.
10. gr.
Tekjur félagsins eru árgjöld félagsmanna, styrkir og frjáls framlög. Árgjald skal ákveðið á aðalfundi. Reikningsárið skal miðast við aðalafund.
Lög samþykkt á aðalfundi 16. nóvember 2019