Nú í nóvember mun Legokeppni grunnskólanna First Lego League (FLL) fara fram en hún er alþjóðleg Legókeppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna á aldrinum 10-16 ára í 110 löndum víða um heim.
Háskóli Íslands hefur haldið keppnina hér á landi frá árinu 2005.
Sigurvegari keppnarinnar á Íslandi í þriðja sinn
Hér í Flatarmáli hefur áður verið fjallað um þessa keppni og þá í tengslum við góðan árangur nemenda í Vopnafjarðarskóla en þeirra lið, sem þau kalla Dodici-, vann keppnina bæði árið 2021 og 2022. Það lið sem vinnur hverju sinni fer síðan erlendis og tekur þátt í alþjóðlegri keppni þar sem innan við 1% liða fær keppnisrétt.
Þegar keppnin fór fram árið 2024 þá gerði Dodici- sér lítið fyrir og bar enn og aftur sigur úr býtum. Það þýddi að nú fór liðið til Texas til að taka þátt í alþjóðlegu keppninni. Í liði Dodici- voru sjö nemendur úr 8. – 10. bekk Vopnafjarðarskóla. Greinarhöfundur hafði samband við Sólrúnu Dögg Baldursdóttur kennara þeirra í þeim tilgangi að forvitnast um ferðalagið. Hér er það sem hún hafði að segja:
Ferðin gekk mjög vel og við áttum skemmtilega daga í Houston. Á heildina litið gekk bara vel í keppninni, krakkarnir stóðu sig vel í hálftíma langri kynningu þar sem þau kynntu liðið, nýsköpunarverkefnið og töluðu um hönnun og forritun vélmennisins.

Aftari röð: Viktor, Kristófer, Baldur, Vignir, Freyr, Alexandra og Guðjón.
Fremri röð: Elín Dögg Methúsalemsdóttir (móðir), Sólrún Dögg Baldursdóttir (kennari), Sandra Konráðsdóttir (móðir), Berglind Ósk Wiium (kennari), Dorota Joanna Burba (móðir) og Jóhanna Ástdís Guðjónsdóttir (móðir).
Æfingaleikir og úrslit
Fyrsta keppnisdaginn voru æfingaleikir sem fóru samt að öllu leyti fram eins og alvöru keppnin. Þar náði Dodici- mest 365 stigum og varð í 76. sæti sem hópurinn var mjög sáttur með. Daginn eftir, í keppninni sjálfri, var Garðar Sigurwin (vélmennið) eitthvað að stríða okkur og þá náði liðið mest 335 stigum og endaði í 105. sæti. Markmiðið var að vera ekki neðar en í 100. sæti þannig að við vorum svo sem ekki langt frá því.







Samstarf í Encore keppni
Síðasta daginn var Encore keppni, þar sem þrjú lið voru sett saman í hóp og unnu að því að hanna og forrita vélmennin sín til að leysa óundirbúnar þrautir (tveir leikir á hvern hóp). Liðin höfðu 90 mínútur til að undirbúa sig fyrir fyrri leikinn og svo 40 mínútur til að betrumbæta eða bæta við forritum. Þessa keppni sigraði Dodici- ásamt sínum samstarfsliðum sem voru frá Kaliforníu og Massachusetts.

Básinn og heimsókn í NASA
Dodici- var líka með bás þar sem liðið kynnti Ísland og verkefnið sitt. Þar gáfum við gestum barmmerki, súkkulaði, límmiða og fleira. Hópurinn fékk mikið hrós fyrir hressleika og skemmtilegheit enda voru þau dugleg að syngja Þjóðsönginn, Ég er kominn heim og fleiri vel valin lög. Við heimsóttum NASA sem er bandaríska flug- og geimvísindastofnunin og skoðuðum okkur um í borginni Houston.



Í heimsókn til forsetans eftir vel heppnaða keppni
Við komuna til landsins var okkur boðið til Bessastaða þar sem við hittum Höllu Tómasdóttur forseta Íslands. Krakkarnir sögðu Höllu frá ferðinni og verkefninu og hún var mjög áhugasöm og hvetjandi. Hún fór svo með okkur um húsakynni Bessastaða og fræddi okkur um þau.

Næsta FLL keppni mun fara fram 8. nóvember 2025 í Háskólabíói og að sjálfsögðu verður Vopnafjarðarskóli með lið á staðnum. Hægt verður að fylgjast með keppninni bæði í Háskólabíói og í streymi. Einnig heldur Dodici- úti Instagram reikningi þar sem hægt er að skoða meira efni ásamt því að fylgjast með þeim í næstu keppni.

Undirrituð þakkar Sólrúnu Dögg fyrir frásögnina, myndir og myndbönd og óskar Dodici- enn og aftur til hamingju með góðan árangur í Texas og óskar þeim einnig góðs gengis í næstu keppni.
Nánar má lesa um keppnina á Facebook og heimasíðu keppninnar á Íslandi og fyrir áhugasama þá má nálgast fyrri greinina hér á síðum Flatarmáls.
Margrét S. Björnsdóttir








