Youcubed
Á Youcubed er að finna fjölbreytt kennsluefni, veggspjöld, myndbönd og stóran verkefnabanka með opnum, myndrænum og skapandi verkefnum sem byggja á hugmyndum um hugarfar vaxtar (growth mindset). Þar má einnig finna fjölmargar fræðigreinar sem byggja á rannsóknum í stærðfræðimenntun.
Jo Boaler, prófessor í stærðfræðimenntun, stofnaði Youcubed ásamt samstarfsfólki við Stanford Háskóla. Síðunni er ætlað að veita kennurum, foreldrum og nemendum hugmyndir og úrræði á hvetjandi og aðgengilegan hátt, þar sem allir nemendur fá tækifæri til að upplifa árangur og gleði í stærðfræði.
Mathematics Assessment Project (Mathshell)
Á vefnum Mathshell er að finna mikið magn af verkefnum og ítarlegum kennsluáætlunum sem innihalda kennsluleiðbeiningar, verkefnalýsingar, matsverkefni og greinargóða matslista. Verkefnin eru flokkuð eftir aldri og efnisþáttum og eru hönnuð til að dýpka skilning nemenda á stærðfræðihugtökum og efla hæfni þeirra til rökhugsunar og lausnar raunverulegra viðfangsefna.
Síðan inniheldur gríðarlegt magn af efni, bæði upplýsingum og verkefnum, og er kennurum því ráðlagt að kynna sér fyrst handbókina sem fylgir síðunni en þar eru til dæmis góðar ráðleggingar um fyrstu skref í notkun á síðunni.
Hvernig nýtist handbókin?
Handbókin A Brief Guide for Teachers and Administrators veitir kennurum gagnlega leiðsögn um hvernig nýta má verkefni og matsverkefni af Mathshell á markvissan hátt í kennslu.
Í handbókinni er m.a. fjallað um:
- hvernig verkefnin byggja á hugmyndafræði leiðsagnarmats (formative assessment)
- hvernig skipuleggja má kennslustundir með samræðum og samvinnu nemenda
- hvernig kennari getur stutt við rökhugsun, rökstuðning og umræður um lausnir
- leiðir til að meta skilning nemenda á dýpri hátt með fjölbreyttum námsmatsverkefnum
Miðja máls og læsis
Stöðumat ÍSAT nemenda
Miðja máls og læsis hefur tekið saman allt efni stöðumats ÍSAT nemenda á Padlet vegg. Þar er að finna stöðumatshefti í stærðfræði fyrir ÍSAT nemendur á mörgum mismunandi tungumálum.
Heftin má leggja fyrir í kennslustundum og flestir nemendur geta unnið sjálfstætt í þeim.
Stöðumatsheftin eru flokkuð eftir aldursstigi og efnisþáttum:
- 1.–3. bekkur
- Talnaskilningur og reikniaðgerðir
- Líkindi og tölfræði
- Rúmfræði
- Algebra
Efnið nýtist kennurum til að greina stöðu og styrkleika nemenda með annað móðurmál og styðja við markvissan undirbúning kennslu.
Á Padlet-veggnum má einnig finna upplýsingar um stöðumat nýkominna barna.
Math Medic
Á Math Medic má finna tilbúnar kennslustundir þar sem lögð er áhersla á samvinnu nemenda í litlum hópum í gegnum röð vandlega útfærðra spurninga sem smám saman verða flóknari. Í kjölfar verkefnanna er stuðningur og leiðbeiningar um hvernig kennari getur ýtt undir umræður sem tengja hugmyndir nemenda við fræðilegan orðaforða og glósur.
Kennslustundirnar byggja á hugmyndafræðinni Experience First, Formalize Later, sem gengur út á að nemendur fái fyrst tækifæri til að kanna hugmyndir, ræða saman og móta eigin skilning, áður en kennari leiðir þá að formlegum skilgreiningum, reglum og formúlum. Efnið hentar sérstaklega vel með aðferðum hugsandi skólastofu og er einkum ætlað nemendum á elstu stigum grunnskóla og í framhaldsskóla.
NRICH
NRICH er ókeypis vefsíða sem býður upp á gríðarlegt magn af verðugu stærðfræðiefni, hannað til að efla stærðfræðilega hugsun, rökhugsun og lausnaleit hjá nemendum á öllum aldri. Efnið hentar nemendum frá leikskólaaldri upp í framhaldsskóla og er ætlað kennurum, foreldrum og nemendum sjálfum.
NRICH leggur áherslu á verkefni með lágan þröskuld og hátt þak, þar sem allir nemendur geta hafið vinnu en jafnframt fengið tækifæri til að takast á við krefjandi áskoranir og dýpri hugsun.
Math = Love
Math = Love er bloggsíða og gagnabanki sem inniheldur fjölbreytt verkefna- og gagnasafn fyrir stærðfræðikennara á unglinga- og framhaldsskólastigi. Á síðunni má finna hugmyndir að verkefnum, prentanlegt efni, spurningar til umræðu ásamt hugmyndum og dæmum sem auðvelda skipulag og framkvæmd stærðfræðikennslu.
Efnið hentar vel til að styðja við áhugahvetjandi kennsluaðferðir, ýta undir samræður í nemendahópum og dýpka skilning á stærðfræðihugtökum í fjölbreyttu samhengi.
Khan Academy
Khan Academy býður upp á ótalmörg ókeypis æfingaverkefni og kennslumyndbönd sem styðja nemendur í að dýpka skilning sinn á mismunandi þáttum stærðfræðinnar. Efnið er skipulagt eftir efnisþáttum og aldursstigum og hentar vel bæði til sjálfstæðrar vinnu nemenda og sem stuðningur í kennslu.
Síðan leggur jafnframt áherslu á vaxtarhugarfar (growth mindset), sjálfstætt nám og reiknihugsun og býður meðal annars upp á námsefni í forritun samhliða stærðfræði. Þessi nálgun styður við fjölbreytt nám, þrautseigju og trú nemenda á eigin getu í námi.


















