Ráðstefna um gæði og jafnræði í kennsluhátttum á Norðurlöndum á sviði stærðfræði og náttúruvísinda: Norræn greining á TIMSS gögnum.

Norræn greining á TIMSS gögnum er ráðstefna sem haldin verður 23. apríl næstkomandi á Hótel Reykjavík Natura.

TIMSS (Trends in International Mathematics and Science Study) rannsóknin hefur verið lögð fyrir reglulega í um þrjá áratugi af IEA (International Association for the Evaluation of Educational Achievements). Ritið sem nú kemur út birtist í ritröðinni IEA Research for Education.

Norrænir höfundar greinanna og ritstjórar útgáfunnar munu kynna niðurstöður greininga sinna og taka virkan þátt í umræðum um niðurstöðurnar með þátttakendum. Sérstök áhersla er lögð á að greina það hvernig niðurstöður TIMSS hafa þróast á undanförnum árum á Norðurlöndum, m.a. í tengslum við gæði kennslu og matsaðferðir, álykta um hvaða lærdóm megi draga af niðurstöðunum og hvernig megi efla jafnrétti til náms.

Ráðstefnan er fyrir alla sem áhuga hafa á menntamálum: Kennara, skólastjórnendur, foreldra, rannsakendur, nemendur, fulltrúa sveitarfélaga og fólk úr stjórnsýslu.

Ráðstefnan fer fram á Reykjavík Hótel Natura en einnig er hægt að fylgjast með ráðstefnunni og umræðum í streymi. Vinsamlega skráðu þig til þátttöku hér og tilgreindu hvort þú hyggst mæta á staðinn eða fylgjast með í streymi: Skráning.

Sjá frekari upplýsingar og dagskrá inn á heimasíðu ráðstefnunnar.

Ráðstefnan er haldin að undirlagi Nordisk evalueringsnetværk sem er norrænt samstarfsnet um mat á menntun sem Ísland á aðild að. Mennta og barnamálaráðuneytið stendur að ráðstefnunni í samvinnu við IEA, alþjóðleg samtök um námsmat í kjarnagreinum. Samstarfsaðilar eru Miðstöð mennta og skólaþjónustu (áður Menntamálastofnun), Kennarasamband Íslands og Menntavísinda­stofnun hjá Háskóla Íslands. Ráðstefnan og ritið eru fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.


Á þessu ári verður haldin tíunda NORMA-ráðstefnan. Þar kynna norrænir rannsakendur í stærðfræðimenntun rannsóknir sínar og niðurstöður þeirra. Ráðstefnan verður haldin í Kaupmannahöfn 4. – 7. júní 2024. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Samspil rannsókna og kennslu í stærðfræðimenntun (e.Interplay between research and teaching practice in mathematics education).

Í ár er sjónum sérstaklega beint að stærðfræðikennaramenntun og starfsþróun. Fjölmargir rannsakendur munu kynna rannsóknir sínar og skapaðar eru aðstæður til umræðna á grundvelli þeirra. Meginmarkmið rannsókna í stærðfræðimenntun hefur löngum verið að leita leiða til að bæta tækifæri í stærðfræðinámi og -kennslu. Mikilvægt er því að ræða niðurstöður rannsókna og spegla þær í reynslu úr stærðfræðikennslu og ræða jafnframt hvernig rannsóknir þörf er á að gera.

Ráðstefnan er því kjörinn vettvangur fyrir rannsakendur í stærðfræðimenntun og þá sem starfa að mótun stefnu í kennaramenntun og starfsþróunartilboða fyrir stærðfræðikennara. Margt áhugavert er einnig í boði fyrir almenna stærðfræðikennara sem hafa áhuga á að efla eigin starfsþróun. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.

 

 

 

Í nýjustu grein Flatarmála Diffrun með hjálp GeoGebru, segir Alexandra Viðar, stærðfræðikennari við Kvennaskólann í Reykjavík, frá því hvernig hún nýtir forritið GeoGebru í kennslu til að hjálpa nemendum að sjá hluti myndrænt og dýpka skilning þeirra enn frekar.

Í greininni fjallar hún um eina kennslustund í máli og myndum og segir frá verkefnum sem undirstrika mikilvægi þess að skilja vel hugtökin snertill og hallatala.

Verkefnin eru ætluð fyrir nemendur á 2. ári í menntaskóla og eru hugsuð sem ítarefni við umfjöllun um diffrun. Markmið verkefnanna er að skerpa á skilningi nemenda á tengslum hallatalna og afleiðum falls í punkti og þjálfa nemendur í notkun forritsins við lausn verkefna.


Í nóvember síðastliðnum var ráðstefnan NORSMA11 haldin í Kaupmannahöfn. Á ráðstefnunni kynntu rúmlega 30 manns rannsóknir á sviði stærðfræðimenntunar og sérkennslu.

Gestir ráðstefnunnar voru að þessu sinni um 100 og þar af voru 10 íslenskir þátttakendur af öllum skólastigum, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla og frá ýmsum landshlutum. Á ráðstefnunni var fjallað um fjölbreytt efni tengd stærðfræðiörðugleikum og stærðfræðinámi og -kennslu á öllum skólastigum.

Edda Óskarsdóttir og Ósk Dagsdóttir frá Menntavísindasviði HÍ voru þátttakendur á ráðstefnunni og segja frá henni í nýjustu grein Flatarmála.

Lóa Björk Jóelsdóttir, lektor í stærðfræðimenntun við VIA University College í Århus Danmörku, veltir upp þeirri spurningu, hvort það skipti yfir höfuð máli hvernig nemendur reikna, í greininni Sveigjanleiki og aðlögunarhæfni í reikniaðferðum: Skiptir máli hvernig nemandinn reiknar?

Er mikilvægt að nemendur öðlist hæfni í að nýta sér margvíslegar aðferðir og getu til að velja ákjósanlegar aðferðir fyrir mismunandi aðstæður eða er betra að læra og treysta á hefðbundin reiknirit?

Afar áhugaverð grein sem stærðfræðikennarar á öllum stigum grunnskóla og aðrir ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

CalcuDoku

Tölurnar 1 til 5 mega aðeins koma fyrir einu sinni í hverri röð og hverjum dálki.

Summa talnanna innan feitletruðu rammanna er talan sem stendur efst í vinstra horni hvers ramma.

Við mælum með að kíkja á verkefnabankann hér á síðunni sem fer sífellt stækkandi.

💡💡Kennarar eru hvattir til að senda okkur verkefni til að leggja inn í bankann og gefa öðrum tækifæri til að njóta góðs af. 💡💡

DAGUR STÆRÐFRÆÐINNAR
– ÞEMAHEFTI

LOKSINS Á RAFRÆNU FORMI

Dagur stærðfræðinnar hefur flakkað nokkuð til á dagatalinu hér á landi. Upphaflega var ákveðið að halda Dag stærðfræðinnar þann 27. september í tilefni af alþjóðlegu ári stærðfræðinnar aldamótaárið 2000. Sú dagsetning þótti ekki henta af ýmsum ástæðum og því var ákveðið að færa hann þannig að hann væri fyrsta föstudag í febrúar. Seinna var hann færður aftur því hann rakst oft á við Dag leikskólans 1. febrúar en þá var Pí-dagurinn 14. mars fyrir valinu. Á þeim degi er einmitt alþjóðlegum degi stærðfræðinnar einnig fagnað.

Á hverju ári hefur verið valið þema og útbúin verkefni fyrir kennara til að nýta með nemendum sínum í tilefni dagsins. Fyrstu sex árin voru gefin út sérstök þemahefti sem nú má loksins finna á rafrænu formi en heftin eru gullkistur fullar af hugmyndum og verkefnum.

🎂🎂 AFMÆLIÐ HENNAR CHERYL 🎂🎂

Getur þú leyst gátuna og hjálpað Albert og Bernard að finna út hvenær Cheryl á afmæli?