Á þessu ári verður haldin tíunda NORMA-ráðstefnan. Þar kynna norrænir rannsakendur í stærðfræðimenntun rannsóknir sínar og niðurstöður þeirra. Ráðstefnan verður haldin í Kaupmannahöfn 4. – 7. júní 2024. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Samspil rannsókna og kennslu í stærðfræðimenntun (e.Interplay between research and teaching practice in mathematics education).

Í ár er sjónum sérstaklega beint að stærðfræðikennaramenntun og starfsþróun. Fjölmargir rannsakendur munu kynna rannsóknir sínar og skapaðar eru aðstæður til umræðna á grundvelli þeirra. Meginmarkmið rannsókna í stærðfræðimenntun hefur löngum verið að leita leiða til að bæta tækifæri í stærðfræðinámi og -kennslu. Mikilvægt er því að ræða niðurstöður rannsókna og spegla þær í reynslu úr stærðfræðikennslu og ræða jafnframt hvernig rannsóknir þörf er á að gera.

Ráðstefnan er því kjörinn vettvangur fyrir rannsakendur í stærðfræðimenntun og þá sem starfa að mótun stefnu í kennaramenntun og starfsþróunartilboða fyrir stærðfræðikennara. Margt áhugavert er einnig í boði fyrir almenna stærðfræðikennara sem hafa áhuga á að efla eigin starfsþróun. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.

Utís Online er menntaviðburður á netinu fyrir kennara, stjórnendur og starfsmenn á öllum skólastigum. Ráðstefnan verður næst haldin 20-21.september 2024 frá 13-16 á föstudegi og 10-15 á laugardegi.

Á ráðstefnunni verða um 20 fjölbreyttir fyrirlestrar en þar á meðal mun Peter Liljedahl fjalla um Að byggja hugsandi kennslustofur í stærðfræði (og víðar).

Skráning er þegar hafin.

Hvernig getur kennari nýtt sér gervigreind til að æfa sig í samræðum við nemendur með það að markmiði að beina athygli þeirra að atriðum sem skipta máli við lausnarleit í stað þess að gefa þeim svarið?

Þetta má kynna sér í afar áhugaverðri grein eftir Ingólf Gíslason, aðjunkt við Menntavísindasvið HÍ, sem nefnist Ný tækni og gamlar gátur.

Tölfræði má gera merkingarbæra strax í leikskóla. Í greininni Merkingarbær tölfræði fjallar Lena Landgren um hagnýtt verkefni sem leikskólabörn leystu með því að búa til súlurit. Röng svör sem kennarinn varpaði fram á meðvitaðan hátt sköpuðu námstækifæri.

Leikið með stærðfræði í Krikaskóla. Haldið var upp á alþjóðlegan dag stærðfræðinnar í Krikaskóla í Mosfellsbæ á pí deginum þann 14. mars 2024.  Gleði og ham­ingja ein­kenndu daginn eins og sjá má í þessari frásögn.

DAGUR STÆRÐFRÆÐINNAR
– ÞEMAHEFTI

LOKSINS Á RAFRÆNU FORMI

Dagur stærðfræðinnar hefur flakkað nokkuð til á dagatalinu hér á landi. Upphaflega var ákveðið að halda Dag stærðfræðinnar þann 27. september í tilefni af alþjóðlegu ári stærðfræðinnar aldamótaárið 2000. Sú dagsetning þótti ekki henta af ýmsum ástæðum og því var ákveðið að færa hann þannig að hann væri fyrsta föstudag í febrúar. Seinna var hann færður aftur því hann rakst oft á við Dag leikskólans 1. febrúar en þá var Pí-dagurinn 14. mars fyrir valinu. Á þeim degi er einmitt alþjóðlegum degi stærðfræðinnar einnig fagnað.

Á hverju ári hefur verið valið þema og útbúin verkefni fyrir kennara til að nýta með nemendum sínum í tilefni dagsins. Fyrstu sex árin voru gefin út sérstök þemahefti sem nú má loksins finna á rafrænu formi en heftin eru gullkistur fullar af hugmyndum og verkefnum.

🎂🎂 AFMÆLIÐ HENNAR CHERYL 🎂🎂

Getur þú leyst gátuna og hjálpað Albert og Bernard að finna út hvenær Cheryl á afmæli?