Í apríl 2025 kom út bókin Gæði kennslu – námstækifæri fyrir alla nemendur. Ritstjórar hennar eru Anna Kristín Sigurðardóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Rúnar Sigþórsson.
Bókin er afrakstur þátttöku íslenskra rannsakenda í norrænu rannsókninni Quint (Quality in Nordic Teaching). Í bókinni er að finna 15 áhugaverða kafla um íslenskt skólastarf. Ríflega helmingur kaflanna fjallar beint um niðurstöður Quint-rannsóknarinnar þar sem fókus er á greiningu á gæðum kennslu í íslensku, stærðfræði og samfélagsfræði. Þar er byggt á gögnum úr myndupptökum og þau greind með greiningarlyklinum PLATO. Ágætlega er gerð grein fyrir PLATO sem allir kennarar geta nýtt sér til að greina eigin kennslu og leita leiða til að bæta einstaka þætti kennslu sinnar. Auk þess eru í bókinni kaflar þar sem gæði kennslu eru skoðuð frá fleiri hliðum.

Greining á stöðu læsis á stærðfræði, fyrsti fundur af sjö, þar sem markmiðið var að kafa dýpra í niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2022, fór fram 15. janúar 2024 í Stakkahlíð, Bratta.
Á þessum fyrsta fundi var staða læsis á stærðfræði greind:
- Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, sérfræðingur við Menntamálastofnun, gaf yfirlit yfir niðurstöður PISA 2022 á stöðu stærðfræðilæsis.
- Freyja Hreinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, rýndi dýpra í niðurstöður.
- Berglind Gísladóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, stýrði fundinum og umræðum í lok fundar.
Um fjörutíu manns mættu á staðinn og tæplega 90 manns fylgdust með þessum fyrsta fundi í streymi á Zoom.
▶️ Upptaka af fundinum er aðgengileg hér.












