
Stutt umfjöllun um greinina Skapandi stærðfræði í bókinni Með nesti og nýja skó.
Nýlega var haldið útgáfuhóf vegna útgáfu bókinnar Með nesti og nýja skó. Greinar um tengsl leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Ritstjórar hennar eru Jóhanna Einarsdóttir og Björn Rúnar Egilsson.
Bókin inniheldur 13 fræðigreinar þar sem sagt er frá niðurstöðum rannsókna sem tengjast menntun ungra barna og þáttaskilunum þegar skilið er við leikskóla og grunnskólastig hefst og er fjallað um þau mál frá ýmsum sjónarhornum.
Í bókinni er að finna áhugaverða grein eftir Ósk Dagsdóttur, lektor á Menntavísindaviði Háskóla Íslands sem ber heitið Skapandi stærðfræði.
Starfsþróunarverkefni í íslenskum grunnskóla.
Ósk stóð fyrir starfendarannsókn í íslenskum grunnskóla um skapandi stærðfræðinám í samstarfi við kennara í 1.- 4. bekk og list- og verkgreinakennara við skólann. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig kennarar upplifðu áhrif starfsþróunar á uppeldisfræðilega sýn, stærðfræðikennslu og stærðfræðinám nemenda. Tilgangurinn var að varpa ljósi á hvernig megi vinna með skapandi stærðfræði á áhrifaríkan hátt í skólastarfi. Gengið var út frá þeirri grunnhugmynd að sköpun skipti máli fyrir nám nemenda.
Áhugavert er að lesa niðurstöður rannsóknarinnar sem varpa ljósi á jákvæða upplifun þátttakenda af starfsþróunarverkefni sem miðar að því að efla eigin kennsluhætti í stærðfræði sem skilaði sér í auknum tækifærum nemenda til að dýpka skilning, þekkingu og leikni í stærðfræði. Meðal þess sem kom fram var að þátttakendur töluðu um mikilvægi samræðna í stærðfræðikennslu og notkun hlutbundinna gagna. Þeir töluðu um nauðsyn þess að nemendur fái rými til að læra og þroskast af mistökum og ennfremur töldu þeir að hugtakaskilningur nemenda væri almennt betri ef þeir fengju að ræða saman og nota hlutbundin gögn í stað þess að reikna aðeins í bók. Leikur, verkleg vinna og samræður væru því lykill að skapandi stærðfræðinámi.
Þessi grein á erindi við alla sem vilja efla sköpun í stærðfræðinámi og stuðla að samþættingu námsgreina og samfellu milli skólastiga. Kennarar á yngsta stigi grunnskólans og eldri stigum leikskólans eru hvattir til að lesa hana og kynna sér hvernig vinna megi með sköpun í stærðfræðinámi.
Mikill fengur hefur borist stærðfræðikennurum með þýðingu Bjarnheiðar Kristinsdóttur á bók Peters Liljendahl um hugsandi skólastofu. Bókin kom út í júní 2025 og er gefin út af Háskólaútgáfunni.
Peter Liljendahl, prófessor við Simon Fraser Universty, Kanada, hélt námskeið á vegum Flatar og Menntavísindasviðs HÍ árið 2019 og var það vel sótt. Síðan þá hafa æ fleiri stærðfræðikennarar verið að vinna með hugsandi skólastofu og þróa leiðir til að nýta hugmyndina í eigin aðstæðum. Nokkrar greinar hafa birst í Flatarmálum um hugsandi skólastofu. Nú síðast grein Nönnu Dóru Ragnarsdóttur sem birtist í vor.

Grunnhugmynd Peters Liljedahl byggir á því að hugsun sé forsenda náms. Hann hefur rannsakað og leitað leiða sem gætu ýtt undir hugsun og virkni nemenda í glímu sinni við verðug stærðfræðiverkefni. Hann setur fram 14 aðferðir sem stutt geta kennara í að skapa hugsandi skólastofu. Í bókinni er farið vel í hvernig byggja má upp andrúmsloft og menningu þar sem nemendur eru sjálfstæðir og skapandi og tilbúnir að deila hugmyndum sínum og leita lausnaleiða. Einnig eru færð rök fyrir og gefin dæmi um hvernig þessar aðferðir styrkja stærðfræðinám nemenda. Auk þess eru að finna fjölda verðugra verkefna sem nýta má í stærðfræðikennslu á öllum skólastigum.
Peter Liljedahl hefur auk þessarar bókar gefið út bækurnar Mathematics Tasks for the Thinking Classroom K-5 og Modifying Your Thinking Classroom for Different Settings: A Supplement to Building Thinking Classrooms in Mathematics. En auk þess má finna á vefsíðu BTC áhugavert efni, viðtöl, fyrirlestra og alls kyns efni fyrir kennara.
Bókin kom fyrst út í september 2020 á ensku og hefur Bjarnheiður unnið gott starf við þýðingu og útgáfu bókarinnar. Það eru ekki til margar þýddar bækur á íslensku um stærðfræðimenntun ef nokkur. Bókin er góð aflestrar og vonandi á hún eftir að nýtast íslenskum stærðfræðikennurum vel og lengi.

Gæði kennslu
Í apríl 2025 kom út bókin Gæði kennslu – námstækifæri fyrir alla nemendur. Ritstjórar hennar eru Anna Kristín Sigurðardóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Rúnar Sigþórsson.
Bókin er afrakstur þátttöku íslenskra rannsakenda í norrænu rannsókninni Quint (Quality in Nordic Teaching). Í bókinni er að finna 15 áhugaverða kafla um íslenskt skólastarf. Ríflega helmingur kaflanna fjallar beint um niðurstöður Quint-rannsóknarinnar þar sem fókus er á greiningu á gæðum kennslu í íslensku, stærðfræði og samfélagsfræði. Þar er byggt á gögnum úr myndupptökum og þau greind með greiningarlyklinum PLATO. Ágætlega er gerð grein fyrir PLATO sem allir kennarar geta nýtt sér til að greina eigin kennslu og leita leiða til að bæta einstaka þætti kennslu sinnar. Auk þess eru í bókinni kaflar þar sem gæði kennslu eru skoðuð frá fleiri hliðum.
Matematik didaktik – webinarer
Nationalt Center for Udvikling af Matematikundervisning (NCUM) býður upp á fjölbreytt úrval rafrænna fræðsluerinda og umræðna í samstarfi við Dansk Matematisk Forening (DMN) og Københavns Professionshøjskole (KP).
Þar kynna leiðandi sérfræðingar og rannsakendur í stærðfræðimenntun rannsóknir sínar og ræða aðferðir til að efla skilning nemenda á stærðfræði.

Pælt í PISA
Greining á stöðu læsis á stærðfræði, fyrsti fundur af sjö, þar sem markmiðið var að kafa dýpra í niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2022, fór fram 15. janúar 2024 í Stakkahlíð, Bratta.
Á þessum fyrsta fundi var staða læsis á stærðfræði greind:
- Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, sérfræðingur við Menntamálastofnun, gaf yfirlit yfir niðurstöður PISA 2022 á stöðu stærðfræðilæsis.
- Freyja Hreinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, rýndi dýpra í niðurstöður.
- Berglind Gísladóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, stýrði fundinum og umræðum í lok fundar.
Um fjörutíu manns mættu á staðinn og tæplega 90 manns fylgdust með þessum fyrsta fundi í streymi á Zoom.
▶️ Upptaka af fundinum er aðgengileg hér.








