Hugsandi skólastofa er kennsluaðferð þróuð af Dr. Peter Liljedahl við Simon Fraser-háskóla. Hún byggir á 14 lykilatriðum sem hvetja nemendur til að hugsa dýpra, vinna saman og taka aukna ábyrgð á eigin námi.
Á vefnum Building Thinking Classrooms má finna:
- Myndbönd, greinar og útskýringar á aðferðunum
- Verkfæri og leiðbeiningar sem styðja við innleiðingu aðferða hugsandi kennslustofu
- Upplýsingar um námskeið og vinnustofur með Peter Liljedahl
➡️ Kynntu þér málið nánar á: buildingthinkingclassrooms.com
Hugsandi skólastofa í stærðfræði – Bók fyrir kennara á öllum skólastigum
Mikill fengur hefur borist stærðfræðikennurum með þýðingu Bjarnheiðar Kristinsdóttur á bók Peters Liljendahl um hugsandi skólastofu. Bókin kom út í júní 2025 og er gefin út af Háskólaútgáfunni.
Peter Liljendahl, prófessor við Simon Fraser Universty, Kanada, hélt námskeið á vegum Flatar og Menntavísindasviðs HÍ árið 2019 og var það vel sótt. Síðan þá hafa æ fleiri stærðfræðikennarar verið að vinna með hugsandi skólastofu og þróa leiðir til að nýta hugmyndina í eigin aðstæðum. Nokkrar greinar hafa birst í Flatarmálum um hugsandi skólastofu. Nú síðast grein Nönnu Dóru Ragnarsdóttur sem birtist í vor.

Grunnhugmynd Peters Liljedahl byggir á því að hugsun sé forsenda náms. Hann hefur rannsakað og leitað leiða sem gætu ýtt undir hugsun og virkni nemenda í glímu sinni við verðug stærðfræðiverkefni. Hann setur fram 14 aðferðir sem stutt geta kennara í að skapa hugsandi skólastofu. Í bókinni er farið vel í hvernig byggja má upp andrúmsloft og menningu þar sem nemendur eru sjálfstæðir og skapandi og tilbúnir að deila hugmyndum sínum og leita lausnaleiða. Einnig eru færð rök fyrir og gefin dæmi um hvernig þessar aðferðir styrkja stærðfræðinám nemenda. Auk þess eru að finna fjölda verðugra verkefna sem nýta má í stærðfræðikennslu á öllum skólastigum.
Peter Liljedahl hefur auk þessarar bókar gefið út bækurnar Mathematics Tasks for the Thinking Classroom K-5 og Modifying Your Thinking Classroom for Different Settings: A Supplement to Building Thinking Classrooms in Mathematics. En auk þess má finna á vefsíðu BTC áhugavert efni, viðtöl, fyrirlestra og alls kyns efni fyrir kennara.
Bókin kom fyrst út í september 2020 á ensku og hefur Bjarnheiður unnið gott starf við þýðingu og útgáfu bókarinnar. Það eru ekki til margar þýddar bækur á íslensku um stærðfræðimenntun ef nokkur. Bókin er góð aflestrar og vonandi á hún eftir að nýtast íslenskum stærðfræðikennurum vel og lengi.
Í hlaðvarpinu Think Thank Thunk er rýnt í hugmyndir hugsandi skólastofu (Building Thinking Classrooms) eftir Peter Liljedahl. Hver þáttur fjallar um einn kafla bókarinnar eða dregur fram reynslu kennara sem hafa innleitt aðferðirnar í eigin kennslu.
Í þáttunum heyrist rödd Liljedahls sjálfs, auk fræðimanna og kennara sem lýsa hvernig aðferðir eins og sýnileg hópvinna, hreyfing, opnar spurningar og þrautir hafa aukið virkni, samvinnu og djúpan skilning nemenda í stærðfræði.
Hlaðvarpið hentar kennurum sem vilja dýpka skilning sinn á kennsluháttum hugsandi skólastofu, fá innblástur og heyra af reynslu kennara.
➡️ Hlustaðu á thinkthankthunk.ca