Þuríður Ástvaldsdóttir.
Fyrir tæpum þjátíu árum var námskeið fyrir stærðfræðikennara í grunnskóla haldið á netinu og var það nýlunda. Heiti námskeiðsins var Heilabrot og hugkvæmni. Það var fyrst haldið veturinn 1997 –1998 og hlaut góðar viðtökur og var síðan endurtekið veturinn 1998 –1999. Á fyrra námskeiðinu voru þátttakendur 37 ásamt rúmlega 300 grunnskólanemendum. Á seinna námskeiðinu voru þátttakendur 26 og með þeim um 500 nemendur.
Aðalhönnuður og stjórnandi námskeiðsins var Anna Kristjánsdóttir prófessor í stærðfræðimenntun. Hún lagði alltaf mikla áherslu á mikilvægi skilnings nemenda í stærðfræðinámi og taldi að góðar þrautir sem reyndu á hugsun nemenda efldu skilning þeirra á stærðfræði. Hún taldi að greina mætti hvernig nemendur hugsuðu og skildu hlutina í gegnum lausnaleiðir þeirra sem þeir væru látnir skrá skilmerkilega og / eða útskýra í orðum.
Önnu var auk þess mjög áfram um að nýta tækni í stærðfræðinámi. Hún sá hvernig tölvutækni og reiknivélar gátu opnað á og auðveldað ýmsar stærðfræðilegar vangaveltur og þannig stutt við skilning og nám nemenda.
Námskeiðið Heilabrot og hugkvæmni var frumkvöðlaverkefni og krafðist mikillar vinnu og undirbúnings. Anna fékk þrjá kennara með sér í lið til að halda utan um verkefnið og sinna þátttakendum. Þessir kennarar eru Sólrún Harðardóttir, Guðbjörg Helga Guðmundsdóttir og Þuríður Ástvaldsdóttir. Þeirra hlutverk var m.a. að finna, þýða og staðfæra verkefni, sinna vef námskeiðsins og vera í sambandi við þátttakendur.
Uppbygging námskeiðsins
Námskeiðið var frumraun hvað það varðar að nýta tæknina og gefa kennurum möguleika á þátttöku óháð búsetu. Námskeiðið var alfarið kennt sem fjarnámskeið. Kennarar sem skráðu sig á námskeiðið tóku þátt ásamt nemendum sínum og þar að auki var vefur námskeiðsins opinn öllum. Inn á hann fóru öll verkefni námskeiðsins ásamt fræðslu um hvernig æskilegast væri að vinna með þrautir og þrautalausnir í kennslu. Umræður milli þátttakenda fóru fram á netpóstlista og þar voru einnig verkefnaskil í formi frásagna um þrautirnar og hvernig vinnan með þær hefði gengið.
Markmið námskeiðsins var að kynna markvissa notkun þrauta í stærðfræðikennslu. Segja má að vinna með þrautir í stærðfræðikennslu hafi verið viss nýjung fyrir marga á þessum tíma. Fræðsluefni námskeiðsins sem ætlað var kennurunum skrifaði Anna Kristjánsdóttir og hún valdi einnig erlendar greinar sem fjölluðu um notkun þrauta og þrautalausnir í kennslu og sendi reglulega með verkefnapökkunum í því augnamiði að skapa umræður um þær milli þátttakenda.
Námskeiðið stóð yfir allan veturinn og voru verkefnin unnin af nemendum í kennslustundum. Næsta skref var að hver kennari segði frá vinnu nemenda. Inn á umræðuþráðinn á netinu var niðurstöðum úr verkefnavinnunni skilað, rætt um hvernig hefði gengið, hvaða verkefni höfðu orðið fyrir valinu og svo framvegis. Einnig sendu kennarar sýnishorn af vinnu nemenda til námskeiðshaldara.
Verkefnum var dreift yfir veturinn í sex aðskildum sendingum. Hver sending innihélt í kringum fimmtán þrautir sem skiptust í þrjá flokka. A-flokkur var ætlaður 5. og 6. bekk, B-flokkur ætlaður 7. og 8. bekk og C-flokkur ætlaður 9. og 10. bekk. Flokkunin var einungis til viðmiðunar og gátu kennarar valið þær þrautir sem þeir töldu heppilegastar fyrir sinn bekk eða nemendahóp.
Eins og áður segir héldu námskeiðshaldarar utan um umræður kennara og lausnir nemenda og er vitnað í þau gögn hér á eftir.
Lausnir þrauta
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að það sem er þraut fyrir einn er ekki endilega þraut fyrir annan. Einnig er mikilvægt að venja nemendur af því að haga sér eins og um spurningakeppni sé að ræða, þar sem gildir að vera fyrst eða fyrstur að finna rétt svar. Öll ánægja af vinnunni hverfur ef svarið liggur ljóst fyrir. Aðaláherslan á að vera á lausnarleitina sjálfa og síðan þarf að leggja áherslu á að nemendur fái að útskýra og rökstyðja eigin lausnir fyrir hópnum þegar allir eru búnir að reyna. Athyglisvert er að nemendur geta í gegnum vinnu með þrautir ráðið við margt í stærðfræðinni sem þeim hefði við aðrar aðstæður ekki verið ætlað að vinna með.
Margar þrautanna á námskeiðinu voru lagðar fyrir nemendur á breiðu aldursbili sem skilaði sér í áhugaverðum samanburði á mismunandi lausnarleiðum. Við lausnir sumra þrauta svipaði lausnarleiðum yngri og eldri nemenda oft saman en við lausnir annarra þrauta gat verið mikill munur. Munurinn var mestur ef þrautin tengdist nýrri færni sem þeir eldri voru búnir að kynnast/læra um. Dæmi um þetta var klassísk þraut sem snýst um fjölda handabanda. Þetta er skemmtilegt verkefni sem fellur vel að talningafræðinni sem er hluti af námsefni á efsta stigi grunnskóla.
Handaböndin
Ef fjórir ættingjar á ættarmóti kveðjast með handabandi hve mörg verða handaböndin? Hve mörg verða handaböndin hjá fimm ættingjum ef allir kveðja alla? Er til einhver aðferð til að finna fjölda handabanda fyrir hvaða fjölda fólks sem er?

Það gengur alltaf vel að vinna með þessa þraut. Oftast er byrjað á því að takast í hendur, hlutgera hugsunina. Síðan koma teikningar og töflur og leitað að reglu. Nemendur í 4., 5., 7., 8. og 9. bekk unnu með þrautina og komu með réttar niðurstöður fyrir fyrstu tvær spurningarnar. Þrjár lausnir komu fyrir x fjölda einstaklinga: Ein rakningarvensl og tvær lausnir settar fram sem algebruformúlur, önnur útskýrð í orðum og hin með táknum.

Kartöflupokarnir
Bændur í Fljótahverfi rækta kartöflur. Ekki eru þær allar seldar, því Fljóthverfingar sjálfir borða líka kartöflur. 100 pokum er haldið eftir. Þeim er skipt á milli íbúanna sem eru 100 talsins. Hver karl fær þrjá poka, hver kona tvo og hvert barn hálfan poka.
Hvernig dreifast pokarnir?
Kartöflupokarnir er dæmi um þraut sem hefur margar lausnir og getur orðið grunnur að vangaveltum um hverjar eru raunhæfar. Hér eru það nemendur í 7. bekk sem prófa sig áfram og koma með fjölbreyttar lausnir:
- 5 karlar, 20 konur og 70 börn
- 11 karlar, 15 konur og 74 börn
- 14 karlar, 10 konur og 76 börn
- Einn nemandi taldi best að sleppa konunum og fékk 20 karla og 80 börn
Hér er komið að seinni hluta vinnunnar sem er ekki síður mikilvægur. Nemendur útskýra lausnarleiðir sínar fyrir bekknum og í sameiningu fer hópurinn yfir lausnirnar, athugar hvort allar geti staðist tölulega, gætu verið fleiri lausnir og svo framvegis. Þar sem þessi talnaþraut um kartöflupoka er sett í aðstæður sem gætu verið raunverulegar, bjóða lausnirnar líka upp á félagslegar vangaveltur.
Dekkjaskiptin
Sverrir og Gunnar ákveða að fara í ferðalag um vesturströnd Bandaríkjanna. Gunnar á bílinn en Sverrir kaupir fimm ný dekk undir hann. Þar sem vegalengdir eru miklar í Bandaríkjunum ákveða þeir að skipta reglulega um dekk undir bílnum þannig að öll dekkin fimm fái sömu notkun. Leiðin sem þeir fara er um það bil 5000 km.
Hversu langt er ekið á hverju dekki?

Þetta var vinsæl þraut og lausnirnar voru að mestu réttar. Einn hópur yngri nemenda átti þó í erfiðleikum með að skilja hvað var í gangi. Daginn eftir kom kennarinn með legobíl sem gerði verkefnið skiljanlegt. Í vinnu með þrautina um dekkjaskipti kemur skýrt fram að oft er nauðsynlegt að geta hlutgert verkefnið.
Þátttakendur námskeiðsins
Ýmsar spurningar vöknuðu hjá kennurunum sem tóku þátt. Verður kennari að vera búinn að leysa þrautirnar áður en hann leggur þær fyrir eða er betra að hann viti ekki lausnina? Hvað eiga hópar að vera stórir? Eiga allir að fá eintak af þrautunum eða aðeins eitt eintak á hóp? Kennarar finna fljótt hvað virkar og haga framkvæmd eftir því. Einnig er gott að vera með aðra þraut tilbúna fyrir hópa sem eru snöggir að leysa verkefnin.
Engar lausnir fylgdu þrautunum. Fyrirspurnir um lausnir komu strax og gafst þá tækifæri til að ræða mikilvægi þess að kennarinn haldi sig á hliðarlínunni og temji sér hlutleysi meðan nemendur vinna og ræða sín á milli. Í umræðum kom fram að það gæti jafnvel virkað hvetjandi á nemendur að vinna með þrautir sem kennari hefði engar lausnir við.
Nemendur voru áhugasamir og vinnan með þrautirnar glæddi áhuga margra nemenda sem yfirleitt voru áhugalausir í stærðfræðitímum. Ekki voru samt allir nemendur hrifnir af vinnu með þrautir þar sem hvorki fyrirfram gefnar aðferðir né lausnir voru gefnar.
Aðeins einn þátttakandi ræddi um fyrirkomulag vinnunnar. Hann taldi að best væri að byrja á einstaklingsvinnu og síðan ættu nemendur að fara að vinna saman. Hafa ber í huga að það að vinna saman að lausn þrauta og útskýra hugsun sína fyrir öðrum er stór hluti af vinnu með þrautir í kennslu.
Þegar rýnt var í sýnishorn af lausnunum sem bárust kom í ljós hvað nemendurnir voru oft nálægt lausn en kláruðu ekki alveg verkefnið eða að lausnin sem þeir skiluðu var langt frá því að geta staðist. Það er augljóst að þarna vantaði seinni lotu vinnunnar sem felst í því að allur hópurinn sjái lausnirnar og hjálpist að við að sannreyna og ræða niðurstöður.
Reynsla þátttakanda
Þátttakandi sem tók þátt í námskeiðinu segir hér frá reynslu sinni.
Mér bauðst að taka þátt í námskeiðinu Heilabrot og hugkvæmni skólaárið 1997 –1998. Þetta var fyrsta námskeiðið sem ég sótti þar sem ég hitti hvorki kennara námkeiðsins né aðra þátttakendur. Samt þurfti að fylgja tímaáætlun og skila verkefnum og svo var ákveðin eftirfylgni og umræður á vef. Ég var spennt fyrir því að kynna sérstakar þrautir fyrir nemendum og fylgjast með lausnaleiðum þeirra. Þetta reyndist mjög gott námskeið og er ég enn að nýta mér efni þess.
Á þessum tíma var ég að kenna á yngsta stigi en fékk að leggja þrautir fyrir nemendur í 6. bekk þegar nýr þrautapakki barst til mín. Þrautapakkarnir voru sendir til kennara í löturpósti en þrautirnar voru jafnframt birtar á vef námskeiðsins. Við áttum að senda valdar lausnir nemenda til umsjónarmanna og einnig áttum við að segja frá vinnu nemenda á vef námskeiðsins. Þrautirnar fundust mér áhugaverðar og gaman var að leggja þær fyrir nemendur og sjá lausnarleiðir þeirra.
Ég man sérstaklega eftir þremur þrautum sem ég lagði fyrir nemendur og við höfðum öll gaman af. Nemendur unnu saman að lausn og lögðu sig mjög fram. Margir þurftu að prófa sig áfram og flestir enduðu á að teikna upp lausnir sínar. Ég hef lagt þessar þrautir af og til fyrir nemendur mína undanfarin ár og hef ég til dæmis notað þær sem verkefni í Hugsandi kennslustofu.
Hvað er kirkjuturninn hár?
Boltar skoppa misvel. Ef boltanum hans Sveins er sleppt í ákveðinni hæð skoppar hann hálfa leiðina upp aftur. Sveinn hefur gaman af að fara upp í háar byggingar og turna. Eitt sinn var Sveinn á ferðalagi í Englandi og fékk að fara upp í kirkjuturn, reyndar með boltann sinn. Litli bróðir hans var eftir niðri. Hann öskraði af öllum lífs og sálarkröftum. Hann vildi fara upp með Sveini, en fékk það ekki, enda hefði hann líklega fljótlega gefist upp á öllum þrepunum. Þegar Sveinn var kominn upp ákvað hann að henda boltanum niður til litla Vilhjálms. Boltinn skoppaði og skoppaði áður en Vilhjálmur náði honum. Þegar boltinn snerti jörðina í 5. sinn hafði hann farið samtals 368 fet. Í Englandi er gjarnan talað um fet frekar en metra. Hversu hár var kirkjuturninn?
Það hjálpar að teikna mynd af því sem gerðist.


Óheppni froskurinn
Froskur nokkur var svo óheppinn að lenda ofan í tíu metra háum brunni. Hann tók á það ráð að skríða. Á hverjum degi gat hann skriðið þrjá metra upp á við. En á nóttunni, varð hann að hvíla sig og þá gerðist það að hann seig niður. Á hverri nóttu seig hann niður um samtals tvo metra. Eftir hversu marga daga komst hann upp úr brunninum?
Hve marga tölustafi þarf að kaupa?
Búningsklefar Sundlaugar Þorgerðarstaðarhverfis voru teknir í gegn fyrir nokkru. Skáparnir voru pússaðir upp og ákveðið var að setja ný númer á þá. Númerin í kvennaklefanum eru frá 1-25 og í karlaklefanum frá 26-50. Setjið ykkur nú í spor smiðsins sem átti að skrúfa númerin á skápana. Hvað þurfti hann að kaupa mörg stykki af hverjum tölustaf?
0 1 2 3 4 5 6 7 8 9

Ég tel að uppbygging þessa námskeiðs hafi gert það að verkum að það hafði varanleg áhrif á kennsluhætti mína. Það náði yfir allt skólárið og því fylgdu verkefni sem ég þurfti að leggja fyrir nemendur og fylgja vinnu þeirra síðan eftir til námskeiðshaldara. Auk þess átti ég að lesa greinar sem dýpkuðu skilning minn á mikilvægi þrautalausna í stærðfræðikennslu. Það var ekki fyrr en að ég kynntist námskeiðum Menntafléttunnar að ég gat sótt stærðfræðinámskeið með álíka uppbyggingu. Það er að segja námskeið sem nær yfir allt skólaárið með lesefni og nemendaverkefnum sem leggja á fyrir nemendur og síðan er þeirri vinnu fylgt eftir með umræðum. Ég tel að námskeið sem ná yfir lengri tíma og gera ráð fyrir aðkomu nemenda séu vel til þess fallin að styðja kennara við að breyta kennsluháttum sínum.
Lokaorð
Því miður er vefur námskeiðsins Heilabrot og hugkvæmni ekki virkur lengur en þar var gott safn af þrautum. Margar þrautir voru áhugaverðar og verða valdar þrautir birtar í Flatarmálum í vetur.
Yfir sextíu kennarar um land allt tóku þátt í heilsvetrar námskeiði með nemendum sínum, lásu um og notuðu nýjar leiðir í kennslu. Vinna þeirra vakti umtal og áhuga meðal samstarfskennara. Með um 800 nemendum barst umræða inn á heimili víða um land og foreldrar sýndu áhuga.
Stóðst námskeiðið væntingar? Hafði það áhrif til breytinga á kennsluháttum? Í mínum augum er svarið augljóst. Fyrir marga kennara varð námskeiðið upphaf breytinga. Reynsla kennara af vinnu með þrautir hefur áhrif á hvernig unnið er með önnur verkefni í stærðfræði. Þeir öðlast meira öryggi við að takast á við opnari verkefni í kennslustundum. Athygli kennara beinist meira að skilningi og lausnarleiðum nemenda og umræða um fleiri leiðir til að nálgast og leysa verkefni verður eðlileg.
Vinna með þrautir er ein af vörðunum á leið til breyttra kennsluhátta í stærðfræði og er af sama meiði og kennsluaðferðirnar Stærðfræðikennsla byggð á skilningi barna (SKSB) og Hugsandi skólastofa.

Þuríður Ástvaldsdóttir,
fyrrverandi stærðfræðikennari í Lindaskóla