
Anna Kristjánsdóttir var aðalhvatamaður að stofnun Flatar árið 1993 og fyrsti formaður samtakanna. Hún lést 9. apríl 2025 (9.4.25).
Anna var hugsjónakona og framlag hennar til fræðasviðsins stærðfræðimenntun hér á landi er ómetanlegt. Til að heiðra minningu hennar verður Önnuhorn í Flatarmálum í vetur. Þar munu birtast skrif hennar um fjölbreytt svið stærðfræðimenntunar.
Anna lagði mikla áherslu á að kennurum stæðu til boða námskeið þar sem bæði væru kynntir straumar og stefnur erlendis frá og fjölbreyttir kennsluhættir. Hún leit svo á að bekkjarkennarinn væri í flestum tilfellum stærðfræðikennari bekkjarins og því væri mikilvægt fyrir almenna kennara að efla fagþekkingu sína um stærðfræðimenntun. Strax á áttunda áratug síðustu aldar hafði hún frumkvæði að því að keypt væru til landsins fjölbreytt námsgögn til notkunar við stærðfræðikennslu. Í Reykjavík voru haldnar sýningar og vinnustofur fyrir kennara. Á haustþingum kennara um allt land voru gögnin kynnt og leiðir til að nýta þau í kennslu. Á þessum áratug hófst einnig gerð heildstæðs námsefnisflokks í stærðfræði: Stærðfræði handa grunnskólum. Hópur kennara kom að gerð námsefnisins og var Anna í forsvari fyrir hópinn. Námsefninu var fylgt eftir með námskeiðum fyrir kennara.
Á níunda áratugnum var mikil umræða um að breyta þyrfti áherslum í námsmati og í námskránni frá 1989 má sjá þess merki. Vaxandi áhugi var einnig á að nýta þrautalausnir sem leið í kennslu og hafa þrautalausnir verið mikilvægur þáttur í íslenskum námskrám frá þeim tíma. Þann 14. október 2025 birtist grein í Flatarmálum um námskeiðið Heilabrot og hugkvæmni þar sem þrautalausnir voru þungamiðjan. Á þessum árum skipulagði Anna nokkur sumarnámskeið um stærðfræðinám og -kennslu þar sem kennurum gafst tækifæri til að prófa fjölbreytta kennsluhætti með börnum og unglingum.
Að frumkvæði Önnu komu til landsins ýmsir erlendir sérfræðingar sem héldu fyrirlestra og námskeið. Dæmi um það eru John Mason frá Open University í Bretlandi, Viggo Hartz frá dönsku stærðfræðikennarasamtökunum og Ole Haahr frá prófanefnd danska menntamálaráðuneytisins. Á tíunda áratugnum kom Norman L. Webb frá Wisconsin háskóla í Madison (sjá greinina Mat á stærðfræðinámi í daglegu skólastarfi í Flatarmálum 1993, 2. tbl.). Hann ritstýrði námsmatskaflanum í Curriculum and Evaluation Standards for School Mathematics, stefnuriti bandarísku stærðfræðikennarasamtakanna. Eftir námskeiðið störfuðu leshópar kennara sem lásu og ræddu áherslur bókarinnar (Standards) (sjá greinina Leshópur í Flatarmálum 1993, 1. tbl.). Christer Bergsten, frá háskólanum í Linköping hélt fyrirlestur um skólaalgebru (sjá grein í Flatarmálum, 1996) og lásu kennarar bókina Algebra för alla í leshópum í framhaldi af því. Donald Chambers, Elisabeth Fennema og Rebekka Ambrose frá Wisconsin háskóla í Madison héldu námskeið og fyrirlestra um Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna (e. Childrens´ Mathematics Cognitively Guided Instruction). Um það efni verður nánar fjallað síðar.
Um þetta efni skrifaði Anna nokkrar greinar í Flatarmál:
Heimildir
Anna Kristjánsdóttir. (1994). Hvað eru þrautalausnir? Flatarmál, 2(1), 7-9. https://www.ki.is/media/klxf0jtc/flatarmal_1994_1tbl.pdf
Anna Kristjánsdóttir. (1993). Stærðfræðikennarinn – hver er það? Flatarmál, 1(2), 16. https://www.ki.is/media/va4n4gxz/flatarmal_1993_2tbl.pdf
Anna Kristjánsdóttir. (2013). Skyggnst í faglega þróun íslenskra stærðfræðikennara. Flatarmál, 20(1), 4-9, 14-21, 26-29. https://www.ki.is/media/zwkgvka2/flatarmal_2013_1tbl.pdf
Anna Kristjánsdóttir. (1998). Talnahyrningar. Flatarmál, 6(2), 8-10. https://www.ki.is/media/zdbjy431/flatarmal_1998_2tbl.pdf
Umsjón með Önnuhorni hafa
Guðbjörg Pálsdóttir, Guðný Helga Gunnarsdóttir, Jónína Vala Kristinsdóttir og Kristín Bjarnadóttir







