LÆRT 2025 verður haldið dagana 13.-15. nóvember 2025 í Menntaskóla Borgarfjarðar.

LÆRT dregur nafn sitt af lærdómssamfélagi raunvísinda- og tæknigreinakennara og er markmið þess að bjóða kennurum sem koma að STEM greinum upp á vettvang til að mynda tengsl, miðla reynslu og þróa sig í starfi.

Nánari upplýsingar ásamt dagskrá má finna á heimasíðu LÆRT: https://laert.is

Snemmskráningu lýkur 22. júní og skráning fer fram hér: tinyurl.com/laert-2025


Þrjú ný námskeið eru nú aðgengileg á vef Opnu Menntafléttunnar og eru þau um Stærðfræðinám og upplýsingatækni fyrir öll aldursstig grunnskólans.

Anna Kristjánsdóttir, fyrsti formaður Flatar, prófessor emerítus í stærðfræðimenntun og frumkvöðull á því sviði lést 9. apríl síðastliðinn. Í minningu hennar verður sérstakt Önnuhorn í Flatarmálum í vetur. Þar mun birtast hluti skrifa Önnu um stærðfræðinám og –kennslu frá áttunda áratug síðustu aldar og fram á þessa öld. Anna lagði mikla rækt við starfsþróun kennara og stuðning við stærðfræðikennara á vettvangi. Hún var framsækin og mörg skrifa henna eiga erindi við okkur í dag. Fyrsti þáttur Önnuhorns birtist í Flatarmálum í dag 14. október sem var afmælisdagur Önnu.

Í dag birtist greinin Heilabrot og hugkvæmni  í Flatarmálum í tilefni þess að afmælisdagur Önnu  Kristjánsdóttur prófessors í stærðfræðimenntun var 14. október en hún lést fyrr á þessu ári. Í greininni fjallar Þuríður Ástvaldsdóttir um námskeiðið Heilabrot og hugkvæmni sem var haldið í lok síðustu aldar og var ætlað stærðfræðikennurum. Námskeiðið var frumkvöðlaverkefni að ýmsu leyti eins og fram kemur í greininni. Anna Kristjánsdóttir var aðalhönnuður og stjórnandi námskeiðsins og var Þuríður henni til aðstoðar ásamt fleiri kennurum. Lögð var áhersla á mikilvægi skilnings nemenda í stærðfræðinámi og byggði námskeiðið á að nemendur fengju góðar þrautir til að glíma við. Í greininni er meðal annars sagt frá áherslum og fyrirkomulagi námskeiðsins og sagt frá nokkrum þrautum úr þrautabankanum sem tilheyrði námskeiðinu.

Hugsandi skólastofa – Yfir hundrað kraftmiklir stærðfræðikennarar tóku þátt í tveimur námskeiðum SamSTEM um hugsandi skólastofu í júní síðastliðnum. Leiðbeinandi á námskeiðunum var sjálfur maðurinn á bak við hugmyndina, Peter Liljedahl. Í Flatarmálum má nú lesa frásagnir þriggja grunn- og framhaldsskólakennara af þátttöku og vangaveltur að námskeiði loknu. Í greininni Hugsandi skólastofa – Reynsla kennara af þátttöku í námskeiðum má lesa um hve hvetjandi þátttaka í námskeiðum getur verið.

Andrés Önd og Undraheimur stærðfræðinnar (Donald in Mathmagic Land) er Disney-teiknimynd frá 1959 með íslensku tali. Í myndinni er sagt frá ferð Andrésar andar um stærðfræðiland. Hann er neikvæður gagnvart stærðfræði en fær margar jákvæðar upplifanir í gegnum myndina. Myndina má nýta í kennslu til að vinna með viðhorf til stærðfræði, hvað felist í stærðfræði og afmarkaða þætti stærðfræðinnar. Meðal annars er skoðað hvernig stærðfræði nýtist í spilum og leikjum, í byggingarlist, tónlist og myndlist, auk þess sem skoðað er hvernig margt í náttúrunni felur í sér stærðfræði. Myndin er gömul og því kemur sumt sem tengist tækni og vísindum einkennilega fyrir sjónir en tækni nútímans byggist á sömu lögmálum. Myndin getur því nýst sem kveikja og uppspretta vinnu með margvísleg viðfangsefni. Gott getur verið að horfa á hluta hennar í einu og vinna í framhaldinu með efni þess hluta. Góða skemmtun.

Teiknimyndin Andrés Önd og Undraheimur stærðfræðinnar var upphaflega gefin út á myndbandi af Námsgagnastofnun. En er nú fyrir tilstilli Nóa Kristinssonar aðgengileg á YouTube.

Hugsandi skólastofa í stærðfræði – Bók fyrir kennara á öllum skólastigum

Mikill fengur hefur borist stærðfræðikennurum með þýðingu Bjarnheiðar Kristinsdóttur á bók Peters Liljendahl um hugsandi skólastofu. Bókin kom út í júní 2025 og er gefin út af Háskólaútgáfunni.

Peter Liljendahl, prófessor við Simon Fraser Universty, Kanada, hélt námskeið á vegum Flatar og Menntavísindasviðs HÍ árið 2019 og var það vel sótt. Síðan þá hafa æ fleiri stærðfræðikennarar verið að vinna með hugsandi skólastofu og þróa leiðir til að nýta hugmyndina í eigin aðstæðum. Nokkrar greinar hafa birst í Flatarmálum um hugsandi skólastofu. Nú síðast grein Nönnu Dóru Ragnarsdóttur sem birtist í vor.

Bókin kom fyrst út í september 2020 á ensku og hefur Bjarnheiður unnið gott starf við þýðingu og útgáfu bókarinnar. Það eru ekki til margar þýddar bækur á íslensku um stærðfræðimenntun ef nokkur.  Bókin er góð aflestrar og vonandi á hún eftir að nýtast íslenskum stærðfræðikennurum vel og lengi.