

Anna Kristjánsdóttir var aðalhvatamaður að stofnun Flatar árið 1993 og fyrsti formaður samtakanna. Hún lést 9. apríl 2025 (9.4.25).
Anna var hugsjónakona og framlag hennar til fræðasviðsins stærðfræðimenntun hér á landi er ómetanlegt. Til að heiðra minningu hennar verður Önnuhorn í Flatarmálum í vetur. Þar munu birtast skrif hennar um fjölbreytt svið stærðfræðimenntunar.
Önnuhorn, fyrsti þáttur:
Flötur, samtök stærðfræðikennara
Hver var Anna?
Anna Kristjánsdóttir fæddist 14. október 1941. Hún lauk B.A. gráðu í stærðfræði og sagnfræði 1967 og kenndi stærðfræði í Hagaskóla og Menntaskólanum við Hamrahlíð í nokkur ár. Hún lauk cand. pæd. prófi í stærðfræði og uppeldisfræði frá Danmarks Lærerhöjskole 1972. Að því loknu starfaði hún við kennsluráðgjöf á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og varð síðar námsstjóri í stærðfræði við Skólarannsóknardeild menntamálráðuneytisins. Anna lagði áherslu á námsefnisgerð og vann ásamt hópi kennara að gerð námsefnisflokksins Stærðfræði handa grunnskólum. Það var fyrsta heildstæða námsefnið í stærðfræði. Við námsefnigerðina var lögð áhersla á að byggja upp skilning með hlutbundinni vinnu og rúmfræði var í fyrsta sinn sérstakur námsþáttur. Kennsluleiðbeiningar voru samdar með það í huga að styðja kennara við að breyta kennsluháttum í stærðfræði. Hún lét kaupa fjölbreytt námsgögn í stærðfræði og hélt sýningu á þeim til að opna augu skólasamfélagsins fyrir mikilvægi þeirra.
Anna varð lektor í stærðfræðimenntun við Kennaraháskóla Íslands 1980 og síðar dósent og prófessor. Síðustu ár starfsævinnar var hún prófessor í stærðfræðimenntun við Agder Universitet í Noregi. Anna tók virkan þátt í uppbyggingu samstarfs rannsakenda á sviði stærðfræðimenntunar sem var í mikilli þróun við lok síðustu aldar. Hún sótti fjölmargar ráðstefnur á sviðinu á Norðurlöndum og víðar og var þá oft í leiðandi hlutverki. Þannig bar hún með sér nýja strauma og hugmyndir sem nýttust í starfi hennar við kennaramenntun. Hún kynnti kennaranemum nýjar rannsóknir á fræðasviðinu og mikilvægi þess að tengja fræði og framkvæmd. Að hennar mati þurftu kennaranemar að fá tækifæri til að læra stærðfræði í umhverfi þar sem þeir væru virkir og ynnu saman að lausn verkefna. Anna hafði líka brennandi áhuga á uppbyggingu kennaramenntunar og tók virkan þátt í skipulagningu kennaranámsins á starfsárum sínum.
Anna lagði alla tíð ríka áherslu á samstarf við stærðfræðikennara um allt land og hélt fjölda námskeiða. Inntakið í námskeiðum voru kennsluhættir, þar sem vinna með námsgögn, samræður og skráning voru meginviðfangsefni. Oft fengu kennarar þá tækifæri til að prófa verkefni og hugmyndir með börnum. Anna hafði frumkvæði að því að fá erlenda fræðimenn á sviði stærðfræðimenntunar til að kenna á námskeiðum og vinna með kennurum. Hún fékk einnig innlenda sérfræðinga til liðs við sig og hvatti kennara til að deila reynslu sinni með öðrum. Anna beitti sér fyrir norrænu samstarfi stærðfræðikennara og kennaramenntunarkennara. Hún hvatti kennara til að sækja námskeið og ráðstefnur á Norðurlöndunum og stóð að samnorrænum viðburðum á Íslandi. Þar lagði hún áherslu á að kennarar kynntu starf sitt og miðluðu reynslu sinni og hugmyndum til annarra þegar heim var komið.
Það var Önnu hjartans mál að stuðla að því að allt skólasamfélagið tæki þátt í stærðfræðimenntun barna. Hún stóð fyrir menntun ráðgjafa sem gætu styrkt stærðfræðisamfélagið í nærumhverfi sínu. Skólastjórnendur sem og foreldrar gegndu að hennar mati lykilhlutverki í að styðja við þróun stærðfræðinámsins. Hún var frumkvöðull í nýtingu upplýsingatækni til náms og samskipta milli skóla og landshluta.
Anna var alla tíð virk í starfi Flatar og hafði mótandi áhrif á starfshætti samtakanna. Hún lagði áherslu á að stjórnin væri skipuð kennurum af öllum skólastigum og hvatti til virkrar þátttöku félagsmanna. Strax á fyrsta starfsári Flatar var haldið sumarnámskeið, tveir starfshópar söfnuðu efni fyrir kennara um lítt troðnar slóðir í stærðfræðikennslu, umræðuhópur um notkun netsins í stærðfræðikennslu var stofnaður, hópur kennara fór á ráðstefnu í Svíþjóð, samtökin tilnefndu fulltrúa í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins um endurskoðun aðalnámskráa og tvö fyrstu tölublöð Flatarmála komu út. Starfið fyrsta árið gefur innsýn í hvernig samtökin störfuðu og enn í dag má sjá áhrif Önnu í starfsháttum Flatar.
Um hugmyndir Önnu má lesa í eftirfarandi greinum og viðtölum við hana í Flatarmálum:
Heimildir
Anna Kristjánsdóttir. (1994). Ársafmæli Flatar. Flatarmál, 2(1), 1-3. https://www.ki.is/media/klxf0jtc/flatarmal_1994_1tbl.pdf
Anna Kristjánsdóttir. (1994). Fyrsta ráðstefna Flatar 1994. Flatarmál, 2(2), 3-6. https://www.ki.is/media/ffphfjhz/flatarmal_1994_2tbl.pdf
Anna Kristjánsdóttir. (1998). Flötur fyrstu fimm árin. Flatarmál, 6(1), 1-7. https://www.ki.is/media/3utaxgx5/flatarmal_1998_1tbl.pdf
Þóra Þórðardóttir. (2011). Tengjum saman fortíð og framtíð. Flatarmál, 18(2), 12-15. https://www.ki.is/media/oujf4w5a/flatarmal_2011_2tbl.pdf
Önnuhorn, annar þáttur:
Námskeið fyrir stærðfræðikennara
Anna lagði mikla áherslu á að kennurum stæðu til boða námskeið þar sem bæði væru kynntir straumar og stefnur erlendis frá og fjölbreyttir kennsluhættir. Hún leit svo á að bekkjarkennarinn væri í flestum tilfellum stærðfræðikennari bekkjarins og því væri mikilvægt fyrir almenna kennara að efla fagþekkingu sína um stærðfræðimenntun. Strax á áttunda áratug síðustu aldar hafði hún frumkvæði að því að keypt væru til landsins fjölbreytt námsgögn til notkunar við stærðfræðikennslu. Í Reykjavík voru haldnar sýningar og vinnustofur fyrir kennara. Á haustþingum kennara um allt land voru gögnin kynnt og leiðir til að nýta þau í kennslu. Á þessum áratug hófst einnig gerð heildstæðs námsefnisflokks í stærðfræði: Stærðfræði handa grunnskólum. Hópur kennara kom að gerð námsefnisins og var Anna í forsvari fyrir hópinn. Námsefninu var fylgt eftir með námskeiðum fyrir kennara.
Á níunda áratugnum var mikil umræða um að breyta þyrfti áherslum í námsmati og í námskránni frá 1989 má sjá þess merki. Vaxandi áhugi var einnig á að nýta þrautalausnir sem leið í kennslu og hafa þrautalausnir verið mikilvægur þáttur í íslenskum námskrám frá þeim tíma. Þann 14. október 2025 birtist grein í Flatarmálum um námskeiðið Heilabrot og hugkvæmni þar sem þrautalausnir voru þungamiðjan. Á þessum árum skipulagði Anna nokkur sumarnámskeið um stærðfræðinám og -kennslu þar sem kennurum gafst tækifæri til að prófa fjölbreytta kennsluhætti með börnum og unglingum.
Að frumkvæði Önnu komu til landsins ýmsir erlendir sérfræðingar sem héldu fyrirlestra og námskeið. Dæmi um það eru John Mason frá Open University í Bretlandi, Viggo Hartz frá dönsku stærðfræðikennarasamtökunum og Ole Haahr frá prófanefnd danska menntamálaráðuneytisins. Á tíunda áratugnum kom Norman L. Webb frá Wisconsin háskóla í Madison (sjá greinina Mat á stærðfræðinámi í daglegu skólastarfi í Flatarmálum 1993, 2. tbl.). Hann ritstýrði námsmatskaflanum í Curriculum and Evaluation Standards for School Mathematics, stefnuriti bandarísku stærðfræðikennarasamtakanna. Eftir námskeiðið störfuðu leshópar kennara sem lásu og ræddu áherslur bókarinnar (Standards) (sjá greinina Leshópur í Flatarmálum 1993, 1. tbl.). Christer Bergsten, frá háskólanum í Linköping hélt fyrirlestur um skólaalgebru (sjá grein í Flatarmálum, 1996) og lásu kennarar bókina Algebra för alla í leshópum í framhaldi af því. Donald Chambers, Elisabeth Fennema og Rebekka Ambrose frá Wisconsin háskóla í Madison héldu námskeið og fyrirlestra um Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna (e. Childrens´ Mathematics Cognitively Guided Instruction). Um það efni verður nánar fjallað síðar.
Um þetta efni skrifaði Anna nokkrar greinar í Flatarmál:
Heimildir
Anna Kristjánsdóttir. (1994). Hvað eru þrautalausnir? Flatarmál, 2(1), 7-9. https://www.ki.is/media/klxf0jtc/flatarmal_1994_1tbl.pdf
Anna Kristjánsdóttir. (1993). Stærðfræðikennarinn – hver er það? Flatarmál, 1(2), 16. https://www.ki.is/media/va4n4gxz/flatarmal_1993_2tbl.pdf
Anna Kristjánsdóttir. (2013). Skyggnst í faglega þróun íslenskra stærðfræðikennara. Flatarmál, 20(1), 4-9, 14-21, 26-29. https://www.ki.is/media/zwkgvka2/flatarmal_2013_1tbl.pdf
Anna Kristjánsdóttir. (1998). Talnahyrningar. Flatarmál, 6(2), 8-10. https://www.ki.is/media/zdbjy431/flatarmal_1998_2tbl.pdf
Umsjón með Önnuhorni hafa
Guðbjörg Pálsdóttir, Guðný Helga Gunnarsdóttir, Jónína Vala Kristinsdóttir og Kristín Bjarnadóttir






