Mikill fengur hefur borist stærðfræðikennurum með þýðingu Bjarnheiðar Kristinsdóttur á bók Peters Liljendahl um hugsandi skólastofu. Bókin kom út í júní 2025 og er gefin út af Háskólaútgáfunni.
Peter Liljendahl, prófessor við Simon Fraser Universty, Kanada, hélt námskeið á vegum Flatar og Menntavísindasviðs HÍ árið 2019 og var það vel sótt. Síðan þá hafa æ fleiri stærðfræðikennarar verið að vinna með hugsandi skólastofu og þróa leiðir til að nýta hugmyndina í eigin aðstæðum. Nokkrar greinar hafa birst í Flatarmálum um hugsandi skólastofu. Nú síðast grein Nönnu Dóru Ragnarsdóttur sem birtist í vor.

Grunnhugmynd Peters Liljedahl byggir á því að hugsun sé forsenda náms. Hann hefur rannsakað og leitað leiða sem gætu ýtt undir hugsun og virkni nemenda í glímu sinni við verðug stærðfræðiverkefni. Hann setur fram 14 aðferðir sem stutt geta kennara í að skapa hugsandi skólastofu. Í bókinni er farið vel í hvernig byggja má upp andrúmsloft og menningu þar sem nemendur eru sjálfstæðir og skapandi og tilbúnir að deila hugmyndum sínum og leita lausnaleiða. Einnig eru færð rök fyrir og gefin dæmi um hvernig þessar aðferðir styrkja stærðfræðinám nemenda. Auk þess eru að finna fjölda verðugra verkefna sem nýta má í stærðfræðikennslu á öllum skólastigum.
Peter Liljedahl hefur auk þessarar bókar gefið út bækurnar Mathematics Tasks for the Thinking Classroom K-5 og Modifying Your Thinking Classroom for Different Settings: A Supplement to Building Thinking Classrooms in Mathematics. En auk þess má finna á vefsíðu BTC áhugavert efni, viðtöl, fyrirlestra og alls kyns efni fyrir kennara.
Bókin kom fyrst út í september 2020 á ensku og hefur Bjarnheiður unnið gott starf við þýðingu og útgáfu bókarinnar. Það eru ekki til margar þýddar bækur á íslensku um stærðfræðimenntun ef nokkur. Bókin er góð aflestrar og vonandi á hún eftir að nýtast íslenskum stærðfræðikennurum vel og lengi.

Jo Boaler er mörgum stærðfræðikennurum á Íslandi kunn. Hún var aðalfyrirlesari á námstefnu Flatar árið 2007 og margir hafa lesið bókina hennar Mathematical Mindset í kennaranámi sínu. Nú er komin ný og áhugaverð bók Math-ish (2024) frá Jo Boaler. Birna Hugrún Bjarnardóttir hefur tekið saman greinargott yfirlit yfir efni bókarinnar, í Nokkur orð um bókina Math-ish eftir Jo Boaler, og dregur þar fram helstu umfjöllunarefnin. Í bókinni er hugtakið Math-ish kynnt og í gegnum það fjallað um stærðfræðilegan fjölbreytileika og nauðsyn þess að við öll kynnumst og nálgumst stærðfræðina frá mörgum hliðum. Sjá má í þessari grein að velt er upp mörgu sem gaman og gagnlegt er að ræða saman um og varpar Birna Hugrún fram hugmynd um að stofna leshring til að skapa til þess umræðuvettvang.
Í apríl 2025 kom út bókin Gæði kennslu – námstækifæri fyrir alla nemendur. Ritstjórar hennar eru Anna Kristín Sigurðardóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Rúnar Sigþórsson.
Bókin er afrakstur þátttöku íslenskra rannsakenda í norrænu rannsókninni Quint (Quality in Nordic Teaching). Í bókinni er að finna 15 áhugaverða kafla um íslenskt skólastarf. Ríflega helmingur kaflanna fjallar beint um niðurstöður Quint-rannsóknarinnar þar sem fókus er á greiningu á gæðum kennslu í íslensku, stærðfræði og samfélagsfræði. Þar er byggt á gögnum úr myndupptökum og þau greind með greiningarlyklinum PLATO. Ágætlega er gerð grein fyrir PLATO sem allir kennarar geta nýtt sér til að greina eigin kennslu og leita leiða til að bæta einstaka þætti kennslu sinnar. Auk þess eru í bókinni kaflar þar sem gæði kennslu eru skoðuð frá fleiri hliðum.

Í niðurstöðum Quint-rannsóknarinnar (sérstaklega í köflum 2-5) er að finna greiningu á stærðfræðikennslu á unglingastigi. Þar er margt bitastætt sem stærðfræðikennarar geta nýtt sér til að bæta og þróa kennslu sína. Þar má nefna umfjöllun um endurgjöf, vitsmunalega áskorun og samræður sem allt eru mikilvægir þættir í samskiptum nemenda og kennara. Þetta eru þættir sem margir telja ákvarðandi um gæði kennslu.
Bókin er skrifuð með starfandi kennara, kennaranema og kennsluráðgjafa í huga og er hugsuð sem stuðningur við starfsþróun. Stærðfræðikennarar eru hvattir til að lesa og ræða saman um efni hennar.


Á Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun, má finna greinina: Mat á gæðum kennslu í hugsandi skólastofu í stærðfræði á framhaldsskólastigi: Rýnt í kennslu framhaldsskólakennara.
Höfundar eru Eyþór Eiríksson og Jóhann Örn Sigurjónsson.
Hugsandi skólastofa (e. thinking classroom) er kennslunálgun sem snýst um að skapa rými þar sem nemendur vinna saman að verkefnum sem eru hönnuð til að styðja nemendur við að öðlast skilning á nýjum hugtökum og hugmyndum með samræðum. Í þessari rannsókn var fylgst með kennslu eins stærðfræðikennara í íslenskum framhaldsskóla. Markmið rannsóknarinnar var að veita kennaranum endurgjöf á gæði eigin kennslu þegar kennt er eftir hugmyndafræði hugsandi skólastofu og veita innsýn í sjálfsrýni hans á niðurstöðunum.
Á Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun, má finna greinina: Að móta námsumhverfi í stærðfræði þar sem skapandi hugsun er í fyrirrúmi: Kristjana Skúladóttir stærðfræðikennari.
Höfundar eru Jónína Vala Kristinsdóttir og Ólöf Björg Steinþórsdóttir.
Greinin er hluti af sérritinu Þau skiptu máli: Sögur grunnskólakennara sem var birt 31. desember 2023.
Í ágripi greinarinnar segir eftirfarandi:

Áhersla á hugsun barna um stærðfræði og hvernig þau takast á við stærðfræðinám sitt hefur fengið aukið vægi í kennaramenntun og námskrá undanfarna áratugi. Tilgangurinn með þessari grein er að gefa innsýn í starf stærðfræðikennara sem hefur haft það að markmiði að gefa nemendum sínum tækifæri til að beita skapandi hugsun við stærðfræðinámið.
Kristjana Skúladóttir hefur kennt á yngsta stigi og miðstigi grunnskóla í rúma þrjá áratugi og lagt sig eftir að kynna sér rannsóknir á hugsun barna um stærðfræði og kennsluhætti sem styðja þau við að beita skapandi hugsun. Greint er frá rannsóknarverkefnum sem hún hefur kynnt sér og lýst hvernig hún hefur nýtt sér þekkingu sína á þeim í kennslu sinni og við að styðja aðra kennara til að þróa kennsluhætti sína í stærðfræði.
Við rannsóknina var beitt frásagnarrýni og stuðst við gögn frá ferli hennar sem kennara, viðtöl, vettvangsnótur og gögn frá nemendum. Niðurstöður rannsókna á kennsluháttum Kristjönu leiða í ljós að hún hefur átt í öflugu samstarfi við samkennara sína um að þróa kennsluhætti í stærðfræði þar sem skapandi hugsun, rökræður og áhersla á hlutdeild nemenda og ábyrgð á eigin námi er í fyrirrúmi.