Félögum í Fleti samtökum stærðfræðikennara er boðið að taka þátt í leshóp á vormisseri. Umsjónarmenn verða Guðbjörg Pálsdóttir og Birna Hugrún Bjarnardóttir. Bókin sem verður til umfjöllunar er Math-ish eftir Jo Boaler. Bókin skiptist í 8 kafla og er gert ráð fyrir að einn kafli í einu verði ræddur. Sjá kynningu á bókinni Math-ish í Flatarmálum þar sem kemur meðal annars fram hvernig hægt er að nálgast bókina. Einnig er hægt að panta bókina í gegnum Bóksölu stúdenta og hlusta á hana á Storytel.

Boðið verður upp á þrenns konar fyrirkomulag:
– Staðhóp á höfuðborgarsvæðinu undir stjórn Guðbjargar og Birnu Hugrúnar.
– Fjarhóp sem settur verður saman af stjórn Flatar.
– Sjálfstæðan stað- eða fjarhóp sem þátttakendur mynda sjálfir.

Fyrsti fundur í staðhóp á höfuðborgarsvæðinu verður 28. janúar 2026 og hist verður hálfsmánaðarlega.

Umsjónarmenn munu útbúa umræðuspurningar með hverjum kafla sem sendar verða til hópanna. Skráningarfrestur er til 14. janúar 2026. Skráning í leshóp er hér.

Athugið að þeir sem eru ekki félagar í Fleti samtökum stærðfræðikennara en hafa hug á þátttöku í leshópi geta skráð sig hér í Flöt.

Á Opnu Menntafléttunni þetta skólaárið eru fjölbreytt námskeið í boði fyrir öll skólastig:

Leikskóli:
🌱 Magnskilningur leikskólabarna
🌱 Stærðfræðin í leik barna
🌱 Stærðfræðin í umhverfi leikskólabarna

Grunnskóli yngsta stig:
🌿 Stærðfræðinám og upplýsingatækni
🌿 Talna- og aðgerðaskilningur
🌿 Tengsl og breytingar í stærðfræði
🌿 Tungumál stærðfræðinnar

Grunnskóli miðstig:
🪴 Stærðfræði og forritun
🪴 Stærðfræðinám og upplýsingatækni
🪴 Tengsl og breytingar í stærðfræði
🪴 Tungumál stærðfræðinnar

Grunnskóli unglingastig:
🌲 Greindu betur – samþætting stærðfræði, tölfræði og samfélagsgreina
🌲 Stærðfræði og forritun
🌲 Stærðfræðinám og upplýsingatækni
🌲 Tengsl og breytingar í stærðfræði
🌲 Tungumál stærðfræðinnar

Framhaldsskóli:
🌳 Greindu betur – samþætting stærðfræði, tölfræði og samfélagsgreina
🌳 Stærðfræði og forritun
🌳 Tungumál stærðfræðinnar

Í dag eru fjölbreyttir nemendahópar eðlilegur hluti af daglegu skólastarfi. Í nýjustu grein Flatarmáls, Stærðfræði og tungumál: aðferðir sem auðvelda stærðfræðinám fjöltyngdra nemenda, fjallar Áslaug Dóra Einarsdóttir um hagnýtar leiðir til að styðja við stærðfræðinám nemenda með íslensku sem annað tungumál og gera kennsluna aðgengilegri fyrir alla. Greinin fjallar meðal annars um stöðumat, orðaforðavinnu, sjónrænan stuðning, samvinnu nemenda og samstarf kennara og hentar öllum sem kenna stærðfræði í fjölbreyttum nemendahópum.

Í vetur verður sérstakt Önnuhorn í Flatarmálum og er það tileinkað Önnu Kristjánsdóttur prófessor emerítus í stærðfræðimenntun sem lést 9. apríl síðastliðinn.

Fyrsti þáttur Önnuhorns birtist 14. október síðastliðinn á afmælisdegi Önnu og nú birtist annar þáttur Önnuhorns: Námskeið fyrir stærðfræðikennara, þar sem fjallað er um hve Anna lagði mikla áherslu á að haldin yrðu góð námskeið fyrir stærðfræðikennara.

Í endurskoðaðri aðalnámskrá grunnskóla (2024) eru í fyrsta skipti sett fram hæfniviðmið í stærðfræðihluta námskrárinnar sem tengjast reiknihugsun og forritun. Í nýlegri grein í Skólaþráðum, Reiknirit, reiknihugsun og forritun: Nýjar áherslur í námskrá, útskýra Bjarnheiður Kristinsdóttir, Freyja Hreinsdóttir, Ingólfur Gíslason og Jóhann Örn Sigurjónsson hvað hugtökin fela í sér og gefa dæmi um verkefni.

Í hlaðvarpi á vegum Flatarmáls má heyra Bjarnheiði Kristinsdóttur segja frá bókinni Hugsandi skólastofa í stærðfræði sem hún þýddi á íslensku. Bjarnheiður byrjar á að segja frá tildrögum þess að hún þýddi bókina. Síðan segir hún frá uppbyggingu bókarinnar og lýsir vel grunnhugmyndum kennsluaðferðarinnar Hugsandi skólastofa í stærðfræði. Í frásögn sinni gefur Bjarnheiður góða innsýn í efni bókarinnar og kennsluaðferðina Hugsandi skólastofa í stærðfræði.

Hlaðvarpið má finna á síðunni Vefsíður, myndbönd og hlaðvörp undir liðnum Áhugavert.

Lena Lindeskov frá Danmörku lýsti því að stefnur miði að því að menntakerfið verði hagnýtara og ekki miðað að langskólanámi og hafði hún áhyggjur af sköpun og námi. Hún lýsti stærðfræðisetrinu NCUM – nationalt center for udvikling af matematikundervisning (e. national center for the development of mathematics teaching) þar sem unnið er þvert á öll skólastig sem mikil ánægja er með.

Líflegar umræður upphófust um mælingar á getu og hvort slíkt ætti að vera staðlað eða á ábyrgð hvers kennara og skóla. Einnig hvernig ætti að skoða stærðfræðiörðugleika og að horfa þyrfti til þess hvert markmiðið væri með greiningum á stærðfræðiörðugleikum, hver ætti að framkvæma slíkar greiningar og hvort þær ættu að vera forsenda aðstoðar og þess náms sem nemendur þurfa. Fram kom að kerfið er ólíkt uppbyggt hjá ólíkum löndum. Pallborðsumræðurnar teygðu sig út í sal og mörg höfðu skoðun þó engin ein niðurstaða fengist en ljóst er að öll vildu að börn fengju þann stuðning sem þau þyrftu. Ljóst væri að kennarar væru að vinna mjög gott starf og oft við erfiðar aðstæður en mikilvægt er að tryggja þeim stuðning og ráðgjöf í starfi.


Í heildina var ráðstefnan skemmtileg og fróðleg eins og þær sem á undan hafa komið. Veikindi settu svip sinn á dagskrána því einhver erindi féllu niður og voru breytingar gerðar á skipulagi til að bregðast við því. Það sem einkenndi ráðstefnuna er að hún var mátulega fjölmenn og andrúmsloftið var þægilegt og kynningar á rannsóknum voru oft settar fram þannig að þær nýtast kennurum. Þau bókaforlög í Danmörku sem gefa út stærðfræðiefni voru með kynningar á sínu efni, bæði kennslubókum og eins efni til að meta stöðu nemenda sem væri áhugavert að þýða og staðfæra hérlendis.

Kaupmannahöfn iðaði af lífi í lok nóvember og Jóla-Tívolí var á sínum stað. Kaupmannahöfn er borg full af stærðfræði og er m.a. skemmtilegt að heimsækja Sívalaturninn og finna alla þá stærðfræði sem þar leynist eða reikna vinningslíkur í leikjum í Tívolí. Ráðstefnan var haldin rétt hjá vísindasafninu Experimentarium þar sem hægt er að skoða og prófa alls konar stærðfræði og vísindi.

NORSMA er góður vettvangur fyrir kennara og aðra sem hafa áhuga á stærðfræðimenntun og vilja öðlast betri skilning á hvernig megi mæta þörfum allra barna. Næsta ráðstefna verður haldin í Noregi 2025 – skipuleggjendur hennar eiga eftir að ákveða nánar stað og stund en undirritaðar hvetja öll áhugsöm að fylgjast með hér á vef Flatarmála þegar hún verður auglýst síðar á árinu.


Ósk Dagsdóttir lektor
við Menntavísindasvið HÍ

Edda Óskarsdóttir dósent
við Menntavísindasvið HÍ