SamSTEM stóð í júní 2025 fyrir tveimur námskeiðum um Hugsandi skólastofu (Building Thinking Classrooms). Námskeiðin sótti fjöldi íslenskra stærðfræðikennara sem hafa sýnt þessari nálgun í kennslu sívaxandi áhuga. Dr. Peter Liljedahl, prófessor við Simon Fraser-háskóla í Kanada sem þróað hefur nálgunina Hugsandi skólastofa (Building Thinking Classrooms) stjórnaði námskeiðunum og veitti leiðsögn um hvernig þessi aðferð er nýtt í kennslustofunni. Peter hefur um árabil rannsakað hvernig megi efla hugsun nemenda í stærðfræðinámi og haldið námskeið víða um heim.
Með þýðingu Bjarnheiðar Kristinsdóttur á bókinni Hugsandi skólastofa sem kom út hjá Háskólaútgáfunni sumarið 2025, og með því að taka þátt í námskeiði undir leiðsögn Peters, hafa íslenskir kennarar nú fengið fræðilegan grunn og prófað hagnýtar aðferðir hugsandi skólastofu til að efla starf sitt. Á námskeiðunum gaf Peter dæmi úr kennslu, meðal annars með vinnu við þrautir, hópaskiptingu með óvæntum hætti og markvissum aðferðum til að „festa inntak námsefnisins í sessi“.
Heimsókn Peters hófst með óformlegum fundi með áhugasömum stærðfræðikennurum sem hafa verið að nýta nálgunina í kennslu sinni. Haldin voru tvö námskeið, hvort námskeið var tveir dagar. Fyrra námskeiðið var ætlað háskóla- og framskólakennurum en það seinna var sérstaklega sniðið að grunnskólakennurum. Mikil ánægja var meðal þátttakenda og hér fyrir neðan má lesa frásagnir kennara af hvoru námskeiði fyrir sig.

Reynsla kennara af námskeiði fyrir framhalds- og háskólakennara
Í byrjun júní sótti ég tveggja daga námskeið um hugsandi skólastofu sem var haldið á vegum SamSTEM. Ég er mikill aðdáandi þessarar kennsluaðferðar og hef áður sótt námskeið um hugsandi skólastofu. Þetta var hins vegar í fyrsta skipti sem ég hitti Peter Liljedahl, höfund og rannsakanda þessarar kennsluaðferðar. Hann leiddi námskeiðið og var það ómetanleg reynsla að taka þátt í því og fylgjast með honum nýta þessa kennsluaðferð.
Fyrst hitti ég Peter á óformlegum fundi degi áður en námskeiðið hófst. Við skráningu á námskeið var boðið að mæta á þennan óformlega fund til að spyrja spurninga, deila sögum úr kennslu, fá endurgjöf og að fá að heyra reynslu annara til að fá innblástur. Um tuttugu kennarar mættu á fundinn sem var haldinn mánudaginn 9. júní, annan í hvítasunnu, á sólríkum degi.

Eins og allt námskeiðið í heild var þessi hittingur við Peter vel skipulagður. Bjarnheiður Kristinsdóttir hafði sent póst á okkur öll sem skráð höfðum okkur á fundinn. Hún bað okkur um að senda á hana þau erindi sem við vildum ræða eða spyrja nánar um og sendi hún svo efnið áfram til Peter. Þannig að þegar við mættum á fundinn var Peter með spurningar og tilbúin svör sem voru, eins og hann sagði sjálfur, alltaf í lengri kantinum.
Spurningarnar og sögurnar voru margs konar: Hvernig má virkja nemendur með einhverfu í hugsandi skólastofu? Hvernig má virkja nemendur sem eru nýkomnir til landsins? Hvernig má virkja nemendur sem eiga við alls konar vandamál að stríða og eru löngu eru búnir að gefast upp á námi? Hvað er hægt að gera þegar foreldrar eru ósáttir við þessa kennsluaðferð? Hvernig má skapa umhverfi þar sem nemendur sýna samkennd og stuðning hver öðrum ? og fleiri spurningar. Peter hefur þróað þessa kennsluaðferð síðustu 15 ár. Hann hefur ferðast um allan heim með ýmis námskeið og vinnustofur fyrir kennara og er búinn að kenna í mörgum skólum heimsins. Hann býr yfir mikilli reynslu og gat því svarað spurningum okkar frá öllum hliðum. Hann sagði okkur frá ótrúlegum atvikum sem gáfu mér virkilegan innblástur og var ég jafnvel spenntari eftir fundinn að mæta næsta dag á námskeiðið.

Ég hef verið að nota kennsluaðferðina hugsandi skólastofa og finnst mér notkun hennar hafa breytt miklu til bóta. Ég gæti lýst því þannig að það sé meira líf í kennslustofunni. Það var ekki einfalt að innleiða þessa nálgun en það var þess virði. Mér hefur samt alltaf fundist að það vantaði eitthvað í kennsluna. Ég fór á námskeiðið til að leita að þessu einhverju og ég fann það.
Morguninn 10. júní var vel mætt á námskeiðið, rúmlega 50 manns og kannski fleiri. Umhverfi stofu í Árnagarði hafði verið breytt og nú voru hvítar plast tússtöflur á öllum veggjum. Peter heilsaði okkur og lagði strax fyrir okkur þraut. Hann notaði svo spilastokk til að raða fólkið í þriggja manna hópa. Í bókinni sinni mælir Peter með því að þegar byrjað sé að nota þessa kennsluaðferð (hann kallar það að byggja hugsandi skólastofu) sé betra að byrja á þrautum frekar en á námsefninu. Nemendur og kennari kynnast vinnubrögðum og tileinka sér þau betur þegar þeir vinna við skemmtileg stærðfræðiverkefni. Það er einfaldara að virkja nemendur og halda þeim við vinnu við verkefni. Þannig voru fyrstu verkefni okkar á námskeiðinu stærðfræðiþrautir. Síðan fórum við að vinna við verkefni sem byggja á inntaki námskár.
Það skiptir þó ekki máli hvort verkefni er þraut eða samkvæmt námskrá, mikilvægast er að festa námsefnið í sessi (e. consolidation). Þessa áherslu þurfti ég að brýna í minni kennslu og var hún skoðuð sérstaklega á námskeiðinu, þátttakendum til mikillar ánægju. Peter gefur tímaviðmið að einn þriðji af kennslustund eigi að fara í að festa efnið í sessi, einhvers konar samantekt á inntaki kennslustundarinnar. Þannig verður verkefnið skýrt fyrir alla nemendur og þegar þeir labba út úr stofu þá er einhvers konar skipulag komið á hugsanir þeirra um viðfangsefni dagsins. Það eru þrjár leiðir sem Peter mælir með að nota til að styðja nemendur í að festa námsefnið í sessi. Hann mælir með að nota að minnsta kosti tvær þeirra í hverri kennslustund.
Fyrsta leiðin er kennarastýrð samantekt. Ef verkefnið er opið og hefur margar lausnir og lausnaleiðir (e. divergent task) þá getur kennari farið í svokallaða gallerígöngu með nemendum til að skoða lausnir. Á meðan nemendur vinna að verkefni velur kennari ákveðnar lausnir og merkir þær sérstaklega á töflum nemenda. Þannig getur hann farið yfir þær lausnir eða lausnaðferðir í þeirri röð sem hann telur henta best fyrir nemendur til að þeir geti eflt skilning sinn á verkefninu. Þannig sjá nemendur fleiri lausnaleiðir og tengsl milli þeirra. Ef verkefni er hins vegar aðeins eitt rétt svar (e. Convergent task) þá getur kennari gert samantekt á töflu þar sem hann brýtur verkefni niður og leysir það á töflu í samtali við nemendur.
Annað skref er að búa til glósur. Glósur eru alltaf skráðar í sama sniðmát. Töflu er skipt í fjóra hluta. Í fyrsta hluta er gefið létt dæmi og lausnaleið á því sem nemendur þurfa að fylla . Í öðrum hluta er skráð létt dæmi sem nemendur þurfa að leysa og sýna fullmótaða lausnaleið. Í þriðja hluta skrá nemendur glósur, það sem þeir þurfa að muna. Fjórði hluti er auður og mega nemendur þar búa til og leysa sín eigin dæmi. Til að tryggja það að nemendur hafi aðgang að glósum getur kennari tekið ljósmynd af þeim og sett í námsumhverfi nemenda. Hann getur líka valið bestu glósurnar og sett aðeins þær inn eða leyft nemendum að taka ljósmyndir af glósum.



Þriðja skrefið er að fást við athugaðu skilning þinn spurningar. Kennari skrár nokkur milt, krydduð og sterk dæmi og segir nemendum að velja dæmi sem þeir vilji leysa. Þeir mega byrja hvar sem er, bera saman lausnir við samnemendur hjálpa einhverjum eða biðja um hjálp. Lykilinn er að kalla dæmin ekki létt, meðalþung og þung, því þá finnur enginn nemandi fyrir skömm þó hann velji að gera aðeins létt dæmi. Þá má svo bæti eins mörgum sterkum dæmum og kennari vill. Markmiðið er ekki að klára öll dæmi heldur að nemendur vinni sjálfstætt.
Peter segir sjálfur að honum sjaldan hefur tekst að gera öll þrjú skrefin í að festa í sessi. Tvö telur hann að sé meira raunhæft. Aðaláherslu beri að leggja á að klára kennslustund með því að festa í sessi en ekki reyna að byrja næstu kennslustund á samantekt. Hverja kennslustund þarf alltaf að byrja með fimm mínútna innlögn/ útskýringu á verkefni og leyfa nemendum svo að vinna saman.


Þátttakan í námskeiðinu gaf mér mikinn innblástur fyrir næsta skólaár. Nú veit ég í hvaða átt ég þarf að fara til að gera kennsluna mína markvissari. Peter Liljedahl gat haldið athyglið okkar allan tíma. Við fundum varla fyrir þreytu þó við værum standandi nánast allan tíma fyrir framan töflur. Að lokum vil ég sérstaklega þakka Bjarnheiði Kristinsdóttur og SamStem félögum hennar fyrir vel skipulagt námskeið.
Tanya Helgason
Fjölbrautaskólanum við Ármúla
Reynsla kennara af námskeiði fyrir grunnskólakennara
Við stöllur sátum spenntar dagana 12.–13. júní á námskeiði í Háskóla Íslands. Námskeiðið fjallaði um hvernig eigi að útfæra og byggja upp hugsandi skólastofu (Thinking Classroom) með sjálfum höfundi þessarar kennsluaðferðar, Peter Liljedahl. Þó námskeiðið hafi verið sérstaklega miðað við stærðfræðikennslu sáum við strax að þessi nálgun nýtist í ýmsum greinum og jafnvel í almennu bekkjarstarfi að einhverju leyti. Við höfðum áður fengið smá forsmekk af hugmyndafræðinni á UTÍS, svo við vissum að okkar biðu góðir og áhugaverðir námskeiðsdagar.


Það sem liggur að baki hugsandi skólastofu er einföld en áhrifarík spurning: Eru nemendur okkar raunverulega að hugsa? Svarið getur verið oft á tíðum, nei… Þeir eru að einhverju leyti mikið að fylgja fyrirmynd, afrita eða endurtaka það sem kennarinn gerði. Peter nálgast kennsluna með það að markmiði að virkja hugsun, auka sjálfstæði og byggja upp samvinnu. Okkur fannst hann skemmtilegur karakter og góður sögumaður sem gerði námskeiðið enn skemmtilegra. Hann er blátt áfram, hress og beinskeittur og kom því fljótt áleiðis að við myndum ekki sitja kyrr allan daginn: „If your bum is numb, your brain gets dumb,“ sagði hann sposkur eða eins og við skemmtum okkur við að snara yfir á íslensku: Ef rassinn er dofinn, verður heilinn soðinn.
Kennslufræði hans byggir á hópastarfi þar sem tveir til þrír nemendur vinna saman við lóðréttar töflur, það getur verið tússtafla á vegg, plastfilma eða jafnvel gluggi. Það er einn töflutúss á hvern hóp sem nemendur skiptast á að nota og hópurinn leysir þrautir saman. Hóparnir eru myndaðir af handahófi með spilastokk sem nemendur draga úr og fara að sinni tússtöflu. Peter mælti með spilastokknum frekar en smáforritum sem búa til handahófskennda hópa. Hans rannsóknir sýna að micro-bullying (smáhnýtingar) eigi sér frekar stað þegar nemendur fá of mikla stjórn á því hverjir eru saman, á meðan spilastokksaðferðin byggir frekar upp samkennd.
Af hverju samkennd? Í upphafi hvers tíma kemur kennarinn með ópólitíska spurningu á borð við „hvort finnst þér betra að fá frí á föstudegi eða mánudegi“?, nemendur draga næst spil og fara að sinni töflu sem er merkt spilinu. Þeir skrifa nafn hvers annars og svar við spurningunni áður en verkefnið byrjar. Þetta stuðlar að því að þau hefji samskipti og byrji á verkefni. Þetta gefur skýra upphafsrútínu og stuðlar að öryggi og festu. Fyrir nemendur með einhverfu er þarna hægt að búa til fasta punkta, að þeir viti að þeir hafi alltaf sama spjaldið, sömu töfluna en það munu koma mismunandi námsfélagar.


Verkefnin sjálf eru ekki flókin til að byrja með. Mikil áhersla er lögð á „lágt gólf, hátt þak“ að allir geti byrjað, en með möguleika á dýpt. Við prófuðum nokkrar virkilega skemmtilegar þrautir sem Peter notar í byrjun skólaárs og við getum staðfest að tíminn flaug. Oft vildu margir spyrja hann að ýmsu en við tókum eftir því að hann svaraði ekki spurningum sem tengdust þrautunum, hann brosti í kampinn og lét sig hverfa í skólastofunni. Með þessu móti fékk hann þann sem spurði til að fara á sinn stað og spyrja þar eða komast að því sjálfur. Það er hámark 5 mínútur sem hann tekur til þess að kveikja áhugann og koma efninu frá sér áður en hann sendir nemendur að töflunum. En hann nýtir þriðjung tímans til að loka kennslustundinni, með því að rýna í það sem nemendur unnu að upp á töflum. Verkefnin voru bæði þannig að þau yxu út þ.e. að nemendur gætu komist að mörgum mismunandi lausnum, en líka að þau þrengdust inn þ.e. að nemendur beittu mismunandi aðferðum en kæmust að sama svari. Í samantektinni notaði hann mikið að nemendur spjölluðu saman um opnar spurningar sem hann kastaði fram varðandi verkefnin.

Það sem við tökum með okkur úr þessu námskeiði er að við upplifðum hversu vel þetta virkar í framkvæmd. Það var nánast ekkert um setu, vinnan var lifandi og tíminn leið hratt. Þó dagarnir væru langir fundum við ekki eins fyrir því og við bjuggumst við, svona í lok skólaárs hjá okkur. Þvert á móti, þá erum við virkilega spenntar að prófa þetta í okkar eigin kennslu.
Það sem situr eftir hvað mest er mikilvægi þess að loka kennslustund, sem er þá í reyndina útskýringin og aha-augnablikið. Þar geta kennarar dregið fram hvað tókst vel, hverjir tóku eftir hverju, og hvaða leiðir voru valdar. Við þekkjum vel þetta atriði úr eigin kennslu, við vitum mikilvægi þess að loka tímum en einhvern veginn gleymist það í dagsins amstri. Með þessari nálgun fær það sitt pláss og gefur bæði nemendum og kennara dýpri tengingu við það sem fram fór.



Við fórum heim af námskeiðinu fullar af innblæstri og með bókina hans Peters í farteskinu. Þetta krefst ekki óraunsæs undirbúnings heldur vilja til að breyta uppsetningu. Með því að færa ábyrgðina yfir til nemenda, styðja við hugsun og virkja samtal, verður námið meira þeirra.
Þorbjörg María Ólafsdóttir
Nanna María Elfarsdóttir
Brekkubæjarskóla











