Gaman getur verið að glíma við gátur og þrautir sérstaklega þær sem ýta undir að velta upp hugmyndum og prófa þær. Það reynir á útsjónarsemi og seiglu.
Að byrja eða enda hvern skóladag á einni gátu gæti verið skemmtilegt viðfangsefni í janúar. Hér er að finna safn af gátum til að velja úr. Þær reyna á rökhugsun og mikilvægt að leggja áherslu á útskýringar og umræður um lausnirnar.
Gott er að kennarinn hafi áður glímt við gáturnar
og því kjörið að prófa þær í hópi fjölskyldu og vina um jólin.
Hvað er það sem þú getur haldið eftir að hafa gefið einhverjum það?
Hvað er það sem hefur 21 auga en hvorki nef né munn?
Virki er umkringt 24 vörðum í þriggja manna hópum. Eins og sjá má á myndinni eru 9 verðir við hverja hlið virkisins. Reglur virkisins kveða á um að það verði allaf að vera nákvæmlega 9 verðir við hverja hlið virkisins.
Samt sem áður:
a. Á mánudagskvöldi fóru 4 verðir í útreiðartúr.
b. Á þriðjudagskvöldi bættust 4 verðir við þá 24 sem fyrir voru.
c. Á miðvikudagskvöldi bættust 8 verðir við þá 24 sem fyrir voru.
d. Á fimmtudagkvöldi bættust 12 verðir við þá 24 sem fyrir voru.
e. Á föstudagskvöldið fóru 6 verðir á skylmingakeppni.
Verðirnir brutu aldrei regluna um að 9 verðir væru alltaf við hverja hlið.
Hvernig fóru þeir að í hverju tilfelli?
Glæpasöguhöfundar eru með svakalega leynilegt leynifélag.
Til að komast inn á félagsfundi þurfa höfundarnir að hringja á bjölluna í dyrasímanum við útihurðina, gefa upp lykilorð og þá opnast dyrnar.
Arnaldur hringir fyrstur bjöllunni. Í dyrasímanum heyrist sagt: 14 og Arnaldur svarar að bragði, 7. Dyrnar opnast.
Næst kemur Yrsa og hringir líka. Í dyrasímanum heyrist sagt: 8 og Yrsa svarar óhikað, 4. Dyrnar opnast.
Bragi Páll hangir fyrir utan og fylgist með, hann langar svo til að komast í leynifélagið. Nú telur hann sig hafa áttað sig á reglunni og hringir á bjölluna. Í dyrasímanum er sagt djúpum rómi: 4. Bragi Páll svarar, 2.
Dyrnar opnast ekki. Hver er reglan?
Fjórir Bedúínar, hver á sínu kameldýri, koma saman við jaðar eyðimerkurinnar.
Hópurinn þarf að afhenda mikilvægan böggul í tjaldbúðir í miðri eyðimörkinni, sem er fjögurra daga kamelreið í burtu.
Kameldýrin geta, hvert fyrir sig, aðeins borið vatn til fimm daga.
Ef Bedúínarnir vinna saman og geta flutt vatnið milli kameldýra í eyðimörkinni án þess að missa niður vatnsdropa, hvernig er þá mögulegt fyrir einn þeirra að afhenda pakkann og fyrir þá alla að komast til baka á byrjunarreitinn með aðeins 20 daga vatnsbirgðir?
Í rununni: Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta, níu, tíu, ellefu…,
kemur L (stafurinn hans Leppalúða) fyrir fyrst sem stafur nr. 41.
Hvenær kemur G (stafurinn hennar Grýlu) fyrst fyrir?
Ég er í öllu og öllu á
alls staðar sjáanlegur
fleiri en hundrað heiti á
hvergi þreifanlegur
Hvað er ég?
Hvaða orð getur merkt:
a. flóð, sælgæti, hreyfing.
b. veggur, verkfæri, kveikibúnaður.
Siggi býður Gunnu og Sollu í grill.
Grillið hans Sigga er mjög lítið svo hann getur bara grillað tvo hamborgara í einu.
Hann veltir fyrir sér hvernig hann geti grillað þrjá hamborgara á sem stystum tíma.
Hver borgari þarf 5 mínútur á hvorri hlið.
Það tekur sem sagt tíu mínútur að grilla tvo hamborgara og
svo tíu mínútur að grilla þann þriðja.
Gunna heldur því fram að það sé hægt að grilla alla þrjá borgarana á 15 mínútum.
Er það mögulegt?
Mínerva hefur unun af því að lesa skáldsögur.
Í jólafríinu las hún 15 bækur eftir 5 mismunandi höfunda. Hún las ólíkan fjölda bóka eftir hvern þeirra og lauk við að lesa bækur eftir hvern höfund áður en hún byrjaði á bók eftir næsta höfund.
Í hvaða röð las hún bækurnar eftir þessa fimm höfunda og hve margar bækur las hún eftir hvern þeirra?
- Mínerva las tvær bækur eftir Katrínu Jakobsdóttur, en hún las þær ekki fyrst.
- Hún las oddatölufjölda bóka eftir Elísabetu Jökulsdóttur.
- Hún las bækur eftir Jón Kalmann númer fjögur.
- Mínerva las ekki Hallgrím Helgason fyrst.
- Kristín Eiríksdóttir er þriðji höfundurinn sem Mínerva las, eftir að hafa lokið við fimm bækur eftir annan höfund.
- Mínerva las fleiri bækur eftir konur en karla.
Hvaða orð vantar framan við:
a. -lykill, -járn, -gangur
b. -dagar, -fugl, -miði
Manneskja kom heim til okkar og var þar um kyrrt. Hún kom hvorki inn um dyrnar né í gegnum gluggana. Hvernig getur staðið á því?
Þú ert fastur/föst í dýflissu og getur freistað þess að komast út en úr vöndu er að ráða.
Liður 1: Við dyrnar eru þrír rammgerðir kassar:
Einn er svartur, einn er hvítur og einn er rauður.
Setningar eru skrifaðar á kassana:
Svartur kassi | Hvítur kassi | Rauður kassi |
Lykillinn er hér | Lykillinn er ekki hér | Lykillinn er ekki í svarta kassanum |
Á skilti við kassana stendur: Í mesta lagi ein þessara fullyrðinga er sönn.
Ef þú færð að opna einn kassa, hvern þeirra myndir þú opna?
Liður 2: Segjum sem svo að þú hafir fundið lykilinn.
Dyrnar opnast og leiða þig inn í aðra dýflissu
sem einnig hefur að geyma þrjá kassa sem skrifað er á:
Svartur kassi | Hvítur kassi | Rauður kassi |
Lykillinn er ekki í hvíta kassanum | Lykillinn er ekki hér | Lykillinn er hér |
Á skilti við hliðina á stendur:
Af þessum þremur fullyrðingum er að minnsta kosti ein sönn og að minnsta kosti ein ósönn. Ef þú mátt aðeins opna einn kassa, hvern þeirra myndir þú opna
til að finna lykilinn og sleppa út?