Íris Ástþórsdóttir og Þóra Guðrún Einarsdóttir.
Hugtakavinna
Þegar kemur að rúmfræði er mikið af hugtökum sem gott er að nemendur þekki og hafi góðan skilning á. Við höfum undanfarin ár látið nemendur vinna saman í pörum hlutbundið með hugtök tengd rúmfræði. Þeir fá plastvasa sem inniheldur plöstuð spjöld og nemendur eiga að para saman eitt hugtak (reglu), eina útskýringu og eina eða fleiri myndir sem eiga við hugtakið. Oft hafa skapast skemmtilegar og áhrifaríkar umræður á milli nemenda sem gaman er að hlusta á.
Við höfum unnið þetta verkefni í 7. – 10. bekk en aðlögum hugtökin að aldri og þeim efnisþáttum sem unnið er með í hvert skipti.
Rúmmál og yfirborðsflatarmál
Síðastliðið skólaár prófuðum við nýtt hlutbundið verkefni þegar kemur að rúmmáli og yfirborðsflatarmáli sem heppnaðist vel og ætlum við því að gera það aftur núna í ár. Við unnum verkefnið bæði í 7. og 9. bekk en einfölduðum verkefnið fyrir 7. bekk í samræmi við það sem nemendur voru að læra.
Nemendur unnu saman í pörum og fékk hvert par fjögur blöð, skæri, tvinna, nál, lím og veggspjald.
Nemendur áttu að klippa snið formanna út, festa það á veggspjaldið og þræða tvinnann í gegnum formið þannig að þegar togað er í endann á sniðið að lokast og þá myndast formið í þrívídd. Þá áttu nemendur einnig að reikna rúmmál og yfirborðsflatarmál formanna.
Teiknimyndapersónur
Nemendur í 9. bekk hafa unnið verkefnið teiknimyndapersóna þar sem þeir hanna og búa til teiknimyndapersónu að eigin vali í þrívídd.
Í upphafi kemur hver hópur (3 – 4 nemendur) sér saman um hvaða teiknimyndapersónu þeir ætla að gera. Þeir teikna persónuna á blað á nákvæman hátt og setja inn á myndina allar lengdarmælingar. Einnig þurfa þeir að skrifa niður allt sem þeir ætla að nota við gerð persónunnar. Til dæmis hve mikinn pappír þarf að nota, hvaða liti af málningu, hvaða stærð af kúlum og svo framvegis.
Eitt af því sem við breyttum eftir að hafa lagt verkefnið einu sinni fyrir var að kaupa frauðkúlur í mismunandi stærðum, því það getur verið erfitt að búa til alvöru kúlu sem hægt er að mála og vinna meira með.
Eins og sjá má á hæfniviðmiðum þá leggjum við áherslu á skýrslugerð, sköpun, samvinnu og kynningu nemenda á verkefninu.
Það sem hefur einkennt verkefni af þessu tagi er mikil gleði og samvinna nemenda. Í upphafi hverjar kennslustundar koma nemendur sér beint að verki og eru að allan tímann og myndu oft vilja fá meiri tíma hvern dag. Okkur kennurum finnst mjög gaman að fylgjast með nemendum blómstra í slíkri verkefnavinnu og heyra áhugverð samtöl þeirra á milli um stærðfræði.
Íris Ástþórsdóttir og Þóra Guðrún Einarsdóttir, stærðfræðikennarar við Heiðarskóla í Reykjanesbæ