Nanna Dóra Ragnarsdóttir.
Fyrir nokkrum árum sótti ég námskeið sem bar heitið Hugsandi skólastofa í stærðfræði, þar kenndi Peter Liljedahl en hann er hugmyndasmiðurinn á bak við aðferðina. Þetta var að mínu mati mjög gott námskeið sem vakti mig til umhugsunar og varð mér hvatning til að breyta og bæta kennsluna.
Ég ætla ekki að fjalla um aðferðafræðina við uppbyggingu hugsandi skólastofu sem slíka en vísa hér að neðan í nokkrar greinar um hugsandi skólastofu sem áður hafa birst í Flatarmálum:
- Dóróthea Margrét Einarsdóttir. (2023, 7. október). Reynsla af hugsandi skólastofu í stærðfræði. Flatarmál.
- Eyþór Eiríksson. (2023, 4. september). Að byggja upp hugsandi skólastofu. Flatarmál.
- Áslaug Dóra Einarsdóttir (2021). Hugsandi skólastofa. Flatarmál 28(1), 13-16.
- Michelle Mielnik (2020). Hugsandi og sjálfstæðir nemendur. Flatarmál 27(1), 24-28.
- Guðbjörg Pálsdóttir (2019). Vinnustofa Peter Liljedahl. Flatarmál 26(1), 22-23.
- Ingólfur Gíslason (2018). Hvatt til hugsunar í stærðfræði. Flatarmál 25(1), 24-25.
Fyrstu skrefin
Ég veit ekki hvort þið kannist við það en ég hef stundum lent í því að það getur verið flókið að nýta inni í skólastofunni það sem maður lærir á námskeiði. Það sem hljómar svo einfalt á námskeiði er það ekki endilega alltaf í raun og sann. Ég gerði nokkrar tilraunir til að beita aðferðum hugsandi skólastofu með nemendum mínum og lærði sennilega jafnmikið af þeim og ég lærði á námskeiðinu. Þetta var stórskemmtilegt lærdómsferli en ég ákvað að taka lítil skref í þessu enda eru litlu skrefin stundum bestu skrefin.
Í dag er hugsandi skólastofa ein af þeim kennsluaðferðum sem ég nota í minni kennslu en ég hef ekki tekið þessa aðferð upp eingöngu eins og Liljedahl þó mælti með. Ég er komin lengst í að vinna með hugsandi skólastofu í 8. bekk og langar að deila því með ykkur hvernig ég geri.
Nemendur í 8. bekk
Ég valdi nokkrar af þeim þrautum sem Liljedahl lagði fyrir á námskeiðinu og hef verið að nota þær á fyrstu vikum skólaársins í tengslum við þau viðfangsefni sem þá eru til umfjöllunar. Ég hef líka haft þann háttinn á í 8. bekk að leggja öðru hverju fyrir verkefni með aðferðum hugsandi skólastofu þó svo að þau tengist ekki endilega þeim efnisþáttum stærðfræðinnar sem unnið er að hverju sinni.
Stærsta skrefið hjá mér var að ég ákvað að prófa mig áfram með hugsandi skólastofu samhliða vinnu í almennum brotum sem ég tek oftast á þriggja til fjögurra vikna tímabili. Ég skipti tímabilinu í þrjá hluta: Í fyrsta hlutanum tók ég saman verkefni sem snerust um skiptingu og að meta stærðir almennra brota. Í öðrum hlutanum var viðfangsefnið samlagning og frádráttur almennra brota og í þriðja og síðasta hlutanum voru margföldun og deiling almennra brota til umfjöllunar. Ég tók saman verkefni fyrir hvert viðfangsefni og nýtti mér efni sem ég fann á vefsíðu Peter Liljedahl en ég nota líka þrautir sem ég hef rekist á í gegnum tíðina í minni kennslu.
Ég bý í litlu samfélagi og því er auðvelt að setja sögurnar í kringum verkefnin í samhengi og tengja við það sem er í umhverfi nemendanna allt eftir því hvaða hóp maður er með hverju sinni.

Verkefnið Kaka í krukku er fyrsta verkefnið sem ég legg fyrir í almennum brotum. Ég breyti nöfnum eins og hentar hverjum hópi til að sagan verði trúverðugri. Ég mæti með stóra skál sem í er ein kaka og ef mér tekst vel upp þá trúa nemendur sögunni. Ég er líka með útprentað eintak af verkefninu því að ég rak mig á að nemendur spurðu mikið um röðina og hlutföllin sem fram komu. Mér finnst það reynast vel að vera með verkefnin útprentuð og get þá líka rétt þeim næsta verkefni þegar það fyrra hefur verið leyst. Ég vil samt taka fram að fyrir tímann er ég búin að raða verkefnunum sem ég legg fyrir upp í ákveðna röð. Það geri ég í viðleitni til þess að byggja upp þekkingu að því námsmarkmiði sem unnið er að hverju sinni og einnig til að viðhalda áhuga nemenda. Markmið þessa skipulags er að byggja upp gott flæði í vinnu nemenda sem er mikil áskorun fyrir kennarann að viðhalda í vinnu af þessu tagi.
Verkefni
Ég læt hér fylgja með sýnishorn af verkefnum sem ég hef lagt fyrir í almennum brotum. Ég vil samt taka fram að sagan í kringum verkefnin er aldrei nákvæmlega eins en hlutföllin og námsmarkmiðin eru þau sömu. Eins og áður segir er verkefnið Kaka í krukku fyrsta verkefnið í I. hluta.
Kaka í krukku
Anna var að baka í gærkvöldi og skildi eftir krukku fulla af smákökum á eldhúsborðinu. Þegar hún kom fram í morgun var ein kaka eftir í krukkunni. Hún spurðist fyrir og þá kom í ljós að Jón hafði komið í eldhúsið fyrstur og hann var mjög svangur svo hann borðaði helminginn af kökunum sem voru í krukkunni. Jón mætti Elsu í dyrunum þegar hann fór úr eldhúsinu. Elsa er kökukerling og þegar hún sá kökurnar borðaði hún ⅓ af kökunum sem eftir voru í krukkunni. Elva kom á eftir Elsu og og borðaði ¾ af því sem eftir var þegar Elsa var búin. Hallur átti erfitt með að sofna og fór í eldhúsið og fékk sér þá eina köku og mjólkurglas og eins og áður segir þá var ein kaka eftir í krukkunni þegar hann fór úr eldhúsinu.
Hve margar voru kökurnar í krukkunni í upphafi? Eftirfarandi spurningu var bætt við þegar nemendur höfðu leyst þrautina: Hvað ef það hefðu verið þrjár kökur eftir í krukkunni?

Verkefnið Matarveislan er einnig úr I. hluta og hentaði vel á covid tímanum en það er auðvelt að breyta þrautunum eftir því hvað er í gangi hjá nemendum eða í samfélaginu.
Matarveislan
Í 180 manna matarveislu fær ⅓ gestanna covid. Hinir gestirnir sleppa en eru sendir í sóttkví. Nokkrum dögum seinna greinist ¼ þeirra með covid. Hinir sleppa alveg.
Hve margir gestanna sleppa við veikindin?

Verkefnið Íþróttalífið er úr II. hluta. Það er mikið íþróttalíf á Hornafirði og margir unglingar stunda fleiri en eina íþróttagrein. Því tengja þeir við þetta verkefni. Ég hef tekið eftir því að nemendum finnst skrítið að hafa uppsetninguna á skólastofunni þannig að allir hópar geti séð úrlausnir hvers annars því stundum kemur upp smá keppni í hópunum – (íþróttafólkið okkar ☺️).
Íþróttalífið
Í 8. bekk stunda 9/10 hlutar nemenda eina íþrótt eða fleiri eftir skóla. Einn sjötti hluti nemenda stundar fleiri en eina íþrótt.
Hve stór hluti nemenda stundar aðeins eina íþrótt?

Verkefnið Fuglarnir á vatninu er líka úr II. hluta og hefur alltaf valdið miklum heilabrotum.
Fuglarnir á vatninu
Hópur gæsa var á vatni. ⅕ hluti gæsanna flaug í burtu. ⅛ hluti gæsanna sem eftir voru fældust og flugu líka í burtu. Og að lokum flugu í burtu þrisvar sinnum fleiri gæsir en flugu fyrst í burtu. Tuttugu og átta gæsir sitja núna eftir á vatninu.
Hve margar voru gæsirnar í upphafi?

Nemendur í 9. og 10. bekk
Ég kenni líka stærðfræði í 9. og 10. bekk en hef ekki fest niður þrautir í þeim bekkjum. Ég hef þó verið að prófa mig áfram þar. Í 10. bekk hef ég mest prófað að vinna með algebru. Í fyrstu tilraun minni fór ég af stað með góðan ásetning minnug þess sem fram kom á námskeiðinu um mikilvægi þess að allir í bekknum væru með og þess vegna væri gott að skipta handahófskennt í hópa. Mér fannst það ekki skila sér vel, þannig að í næsta tíma prófaði ég að hafa áhrif á það hverjir væru saman í hópum – var samt meðvituð um að þetta væri andstætt hugmyndafræðinni en mín niðurstaða var samt sú að allir komust lengra í námi sínu. Sterku nemendurnir reittu hár sitt og skegg við að leysa jöfnuhneppi sem þeir höfðu ekki fengið neina kynningu á áður á meðan þeir nemendur sem voru með einstaklingsnámskrár tóku líka mjög stórt jákvætt skref í að reikna einfaldar jöfnur. Síðan voru aðrir þar á milli. Ég hef velt því fyrir mér í framhaldi af þessari reynslu að það getur stundum þurft að hafa áhrif á það hverjir veljist saman í hópana þannig að allir verði virkir og hafi þá tækifæri til að taka framförum í námi sínu frá þeim stað sem þeir eru staddir á. Ég spurði ekki um þetta á námskeiðinu en hugsanlega er hægt að færa rök fyrir vali í hópa ef haft er í huga að hér á Íslandi eru skólarnir okkar án aðgreiningar og því höfum við stundum bekki þar sem getubil nemenda er mjög mikið.
Undirbúningur fyrir hugsandi skólastofu
Mér finnst erfiðasti hlutinn í undirbúningi fyrir hugsandi skólastofu felast í að búa til dæmasöfn fyrir tímana. Verkefnin þurfa að vera þannig að það sé ekki hægt að leysa þau án þess að hugsa og vinna saman. Þau þurfa að lúta að þeim námsmarkmiðum sem nemendur eru að vinna að hverju sinni auk þess að mynda flæði þannig að hvert skref sé í rökréttu framhaldi af fyrra skrefi.
Eins og alltaf er undirbúningur fyrir kennslustund gríðarlega mikilvægur en huga þarf að fleiri þáttum en bara þeim sem snúa að inntaki kennslunnar því undirbúningur skólastofunnar er líka mikilvægur. Verkefnavinna nemenda fer þannig fram að nemendur vinna í þriggja manna hópum. Í upphafi kennslustundar er dregið handahófskennt í hópana. Ég nota alltaf spilastokk í hópaskiptingu eins og Liljedahl mælti með. Hver nemandi dregur spil og þeir sem til dæmis draga þrista eru saman í hópi í þeim tíma. Því er eitt af undirbúningsverkefnum kennarans að telja saman spil úr spilastokki, vera til dæmis bara með þrjá þrista og svo framvegis.
Aðstaðan í kennslustofum þar sem kennt er eftir hugmyndafræði hugsandi skólstofu er allt önnur en í hefðbundinni kennslustofu. Gert er ráð fyrir því að nemendur vinni verkefni sín standandi. Ég nýti mér töfluna í skólastofunni (get oftast látið tvo hópa vera við hana) en nota líka flettitöflur sem ég raða í hring í stofunni. Borð og stólar nemenda eru þá í miðri stofunni. Ég hef tekið eftir því að það er freistandi fyrir nemendur að sækja sér stól þegar líða fer á tímann. Í draumaveröldinni þyrfti að vera sérstök stærðfræðistofa því það er alltaf ákveðið leiðindaverk að safna saman flettitöflum skólans og ferðast með þær á milli hæða.
Annað sem þarf að huga að er að hver hópur þarf að hafa einn tússpenna og ég þarf að passa að minn penni sé í öðrum lit en þeir sem nemendur eru með. Ég læt nemendur alltaf vera með svarta penna.
Til að byrja með þurfti ég líka að minna sjálfa mig mjög mikið á mitt hlutverk í skólastofunni og að stíga inn í á réttum tímapunkti til þess að viðhalda flæðinu og samtalinu í hópnum án þess að segja of mikið. Einnig þarf að huga að virkni allra nemenda sem hægt er að viðhalda til dæmis með því að allir þurfi á einhverjum tímapunkti að skrifa á töfluna. Þetta nýja hlutverk mitt finnst mér hins vegar þjálfast hratt og venjast vel.
Að lokum
Nemendur eru eins misjafnir og þeir eru margir. Flestir eru spenntir og spyrja um „töflutímana“. Ég hef bara hitt einn hóp sem gekk illa að vinna með eftir þessari hugmyndafræði, þeir nemendur vildu frekar hefðbundna kennslustund og það var smá áskorun fyrir kennarann. Mín upplifun er sú að það er mikil virkni í gangi í tímunum, nemendur þurfa að hugsa mikið, það er oftast mikil samvinna og samtal um stærðfræði. Oftar en ekki koma upp rökræður bæði innan hóps en ekki síður á milli hópa sem verða til vegna þess að tveir hópar fara að bera lausnarleiðir sínar saman. Mig langar líka að nefna einbeitingu – nemendur eru með hugann við efnið allan tímann og tala saman en bara um stærðfræði.
Mér finnst mjög gaman í þessum kennslustundum og ég þarf að halda áfram með litlu skrefin mín í þessu. Mig langar að ljúka þessari umfjöllun minni á tilvitnun í einn nemanda minn sem sagði: „Ég er búinn að hugsa svo mikið í tímanum að mér líður eins og það sé gat aftan á hausnum á mér, má ég plís fara í frímó“.

Nanna Dóra Ragnarsdóttir,
stærðfræðikennari við Grunnskóla Hornafjarðar