
LÆRT 2025 verður haldið dagana 13.-15. nóvember 2025 í Menntaskóla Borgarfjarðar.
LÆRT dregur nafn sitt af lærdómssamfélagi raunvísinda- og tæknigreinakennara og er markmið þess að bjóða kennurum sem koma að STEM greinum upp á vettvang til að mynda tengsl, miðla reynslu og þróa sig í starfi.
Nánari upplýsingar ásamt dagskrá má finna á heimasíðu LÆRT: https://laert.is
Snemmskráningu lýkur 22. júní og skráning fer fram hér: tinyurl.com/laert-2025



Þrjú ný námskeið eru nú aðgengileg á vef Opnu Menntafléttunnar og eru þau um Stærðfræðinám og upplýsingatækni fyrir öll aldursstig grunnskólans.


Anna Kristjánsdóttir, fyrsti formaður Flatar, prófessor emerítus í stærðfræðimenntun og frumkvöðull á því sviði lést 9. apríl síðastliðinn. Í minningu hennar verður sérstakt Önnuhorn í Flatarmálum í vetur. Þar mun birtast hluti skrifa Önnu um stærðfræðinám og –kennslu frá áttunda áratug síðustu aldar og fram á þessa öld. Anna lagði mikla rækt við starfsþróun kennara og stuðning við stærðfræðikennara á vettvangi. Hún var framsækin og mörg skrifa henna eiga erindi við okkur í dag. Fyrsti þáttur Önnuhorns birtist í Flatarmálum í dag 14. október sem var afmælisdagur Önnu.
Í dag birtist greinin Heilabrot og hugkvæmni í Flatarmálum í tilefni þess að afmælisdagur Önnu Kristjánsdóttur prófessors í stærðfræðimenntun var 14. október en hún lést fyrr á þessu ári. Í greininni fjallar Þuríður Ástvaldsdóttir um námskeiðið Heilabrot og hugkvæmni sem var haldið í lok síðustu aldar og var ætlað stærðfræðikennurum. Námskeiðið var frumkvöðlaverkefni að ýmsu leyti eins og fram kemur í greininni. Anna Kristjánsdóttir var aðalhönnuður og stjórnandi námskeiðsins og var Þuríður henni til aðstoðar ásamt fleiri kennurum. Lögð var áhersla á mikilvægi skilnings nemenda í stærðfræðinámi og byggði námskeiðið á að nemendur fengju góðar þrautir til að glíma við. Í greininni er meðal annars sagt frá áherslum og fyrirkomulagi námskeiðsins og sagt frá nokkrum þrautum úr þrautabankanum sem tilheyrði námskeiðinu.
Hugsandi skólastofa – Yfir hundrað kraftmiklir stærðfræðikennarar tóku þátt í tveimur námskeiðum SamSTEM um hugsandi skólastofu í júní síðastliðnum. Leiðbeinandi á námskeiðunum var sjálfur maðurinn á bak við hugmyndina, Peter Liljedahl. Í Flatarmálum má nú lesa frásagnir þriggja grunn- og framhaldsskólakennara af þátttöku og vangaveltur að námskeiði loknu. Í greininni Hugsandi skólastofa – Reynsla kennara af þátttöku í námskeiðum má lesa um hve hvetjandi þátttaka í námskeiðum getur verið.


Stutt umfjöllun um greinina Skapandi stærðfræði í bókinni Með nesti og nýja skó.
Nýlega var haldið útgáfuhóf vegna nýrrar og endurbættrar útgáfu af bókinni Með nesti og nýja skó. Greinar um tengsl leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Ritstjórar hennar eru Jóhanna Einarsdóttir og Björn Rúnar Egilsson.
Bókin inniheldur 13 fræðigreinar þar sem sagt er frá niðurstöðum rannsókna sem tengjast menntun ungra barna og þáttaskilunum þegar skilið er við leikskóla og grunnskólastig hefst og er fjallað um þau mál frá ýmsum sjónarhornum.
Í bókinni er að finna áhugaverða grein eftir Ósk Dagsdóttur, lektor á Menntavísindaviði Háskóla Íslands sem ber heitið Skapandi stærðfræði. Starfsþróunarverkefni í íslenskum grunnskóla. Ósk stóð fyrir starfendarannsókn í íslenskum grunnskóla um skapandi stærðfræðinám í samstarfi við kennara í 1.- 4. bekk og list- og verkgreinakennara við skólann. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig kennarar upplifðu áhrif starfsþróunar á uppeldisfræðilega sýn, stærðfræðikennslu og stærðfræðinám nemenda. Tilgangurinn var að varpa ljósi á hvernig megi vinna með skapandi stærðfræði á áhrifaríkan hátt í skólastarfi. Gengið var út frá þeirri grunnhugmynd að sköpun skipti máli fyrir nám nemenda.
Áhugavert er að lesa niðurstöður rannsóknarinnar sem varpa ljósi á jákvæða upplifun þátttakenda af starfsþróunarverkefni sem miðar að því að efla eigin kennsluhætti í stærðfræði sem skilaði sér í auknum tækifærum nemenda til að dýpka skilning, þekkingu og leikni í stærðfræði. Meðal þess sem kom fram var að þátttakendur töluðu um mikilvægi samræðna í stærðfræðikennslu og notkun hlutbundinna gagna. Þeir töluðu um nauðsyn þess að nemendur fái rými til að læra og þroskast af mistökum og ennfremur töldu þeir að hugtakaskilningur nemenda væri almennt betri ef þeir fengju að ræða saman og nota hlutbundin gögn í stað þess að reikna aðeins í bók. Leikur, verkleg vinna og samræður væru því lykill að skapandi stærðfræðinámi.
Þessi grein á erindi við alla sem vilja efla sköpun í stærðfræðinámi og stuðla að samþættingu námsgreina og samfellu milli skólastiga. Kennarar á yngsta stigi grunnskólans og eldri stigum leikskólans eru hvattir til að lesa hana og kynna sér hvernig vinna megi með sköpun í stærðfræðinámi.

