Guðbjörg Pálsdóttir.
Margt áhugavert finnst í tiltekt við starfslok. Eitt af því sem ég fann var fyrsta tölublaðTalnalínu. Mér fannst gaman að lesa í gegnum blaðið og ákvað að deila með ykkur því sem ég stoppaði við og vakti mig til umhugsunar.
Tilurð
Á níunda áratugnum störfuðu um allt land öflugir ráðgjafar um stærðfræðinám og -kennslu undir forystu Önnu Kristjánsdóttur, þá námstjóra og lektors við KHÍ. Þessi hópur steig skref í átt til stofnunar samtaka stærðfræðikennara. Eitt þeirra var útgáfa Talnalínu, tilraunaútgáfu tímarits. Fyrsta tölublaðið kom út í nóvember 1982. Þar er margt tekið til umfjöllunar. Þar má nefna hvatningu til að mynda stærðfræðikennarahópa, hugmyndir að verkefnum fyrir nemendur, umræða um kennsluhætti, notkun reiknivéla, góð ráð fyrir skipulagningu, fréttir af námsefnisútgáfu og kynningu á norrænu stærðfræðikennarafélagi.
Mynd 1: Forsíðan
Mynd 2: Fjölbreytt efni
Greinar
Hér á eftir verða sýnd nokkur dæmi úr blaðinu sem var vélritað og fjölfaldað á sprittfjölritara sem voru tæki kennara á þessum tíma.
Nýja línan er grein þar sem fjallað er um reynslu af því að nota námsefnisflokkinn Stærðfræði handa grunnskólum. Ánægja kemur fram með að saminn hafi verið samfelldur námsefnisflokkur þar sem byggt er á vefjuhugmynd. Þannig er fjallað um stóru hugmyndir stærðfræðinnar á hverju ári en á ólíkan hátt og bætt er við og hugtök víkkuð. Einnig kemur fram að nálgunin hafi haft áhrif á nemendur.
Ég varð vör við töluverða breytingu á viðhorfi nemenda í 7. bekk til stærðfræðinnar eftir að þeir höfðu gengið í gegnum „nýju línuna“. Þeir virtust vera afslappaðri og öruggari gagnvert viðfangsefnunum. Í hvert sinn sem nýr efnisþáttur var tekinn upp var auðvelt að rifja upp það sem áður var komið. Ég fann ekki fyrir þeim velþekktu „þetta höfum við ekki lært – til hvers?“ viðbrögðum.
Bókaflokkurinn býður upp á mun markvissari vinnubrögð í stærðfræðikennslu. Á hverju námsári er skotið inn einfaldri og frjálsri vinnu með hugtök og efnisþætti sem síðan eru teknir betur fyrir á næstu árum. Þarna er nemendum gefinn kostur á því að vinna frjálst með efnið og styrkja þannig undirstöðuna áður en farið er að vinna eftir ákveðnum reikniaðgerðum.
Á þessum tíma hefur verið í gangi umræða um notkun reiknivéla og í greininni Má ég nota tölvu? er velt upp spurningum um notkun reiknivéla, sem oft voru kallaðar tölvur á þessum tíma, hvenær henti að nota þær og talið að það sé best að kennarar meti það hverju sinni. Í lok greinar er svo varpað fram þeirri spurningu hvort tölvur ættu ekki að vera til taks í skólum.
Í tengslum við þessar vangaveltur mætti spyrja hvort ekki sé kominn tími til að fá tölvur í skólana? Þær verða að forvitrustu manna yfirsýn jafn algeng heimilistæki í náinni framtíð og hrærivélar og sjónvörp eru nú um stundir. Skólinn má ekki hamast gegn þróuninni. Hann á að vera leiðandi afl og stýra þróuninni á sem farsælastar brautir, en ekki vera sem nátttröll dagað uppi í heimi örra framfara á sviði raunvísinda.
Mynd 3: Ímyndin um tölvur
Í greininni Góð ráð er stungið upp á að plasta verkefni og nemendur noti síðan tússpenna til að skrá lausnir sínar. Þannig megi spara vinnu við ljósritun og koma í veg fyrir að það myndist blaðabunkar sem eru afgangar.
Í greininni Kennslustund í stærðfræði er gefið dæmi úr forskóladeild Barnaskóla Ísafjarðar. Þar er unnið með fjölda og samanburð á fjölda. Kennari og nemendur sitja í hring og í miðjunni er smáhlutasafn, með tölum, töppum og öðru smádóti. Hver og einn hefur tvo pinna, t.d. tannstöngla. Kennari tekur nokkra hluti og leggur fyrir framan sig og lætur síðan pinnana mynda merkið stærra en >. Nemandinn við hliðina á kennaranum setur viðeigandi fjölda hluta fyrir framan sig og býr til merki <, > eða = og næsti nemandi tekur við. Þannig myndast hringur með sönnum yrðingum.
Mynd 4: Dæmi um hringrás
Í greininni Fimmmínur er að finna verkefni þar sem unnið er með að skoða einkenni og eiginleika fimmmína. Þetta eru skemmtileg og sígild verkefni sem reyna á rýmisgreind og útsjónarsemi og töluvert á úthald.
Mynd 5: Hvað er fimmína?
Taka til láns eða fylla upp. Fjallað er um frádrátt og tengsl frádráttar og samlagningar. Höfundur skoðar ólíkar leiðir og færir rök fyrir því að betur henti að nota nálgunina að fylla upp í stað þess að taka til láns. Í því felst að sá sem reiknar hugsar sjálfur skynsamleg skref í útreikningunum en eltir ekki á sama hátt rútínubundnar aðferðir.
Mynd 6: Aðstandendur blaðsins
Lokaorð
Það var gaman að lesa í gegnum þetta tímarit. Greina mátti mikinn hug í höfundum til að vinna að þróun kennsluhátta og breyttu viðhorfi til þess hvað felst í að læra og kenna stærðfræði. Hópurinn hefur unnið samhent að blaðinu og leggur það fram sem leið til að efla umræðu og samstarf stærðfræðikennara. Flötur var svo stofnaður 1993 og þar með hófu Flatarmál göngu sína og fylgja í fótsporTalnalínu. Hér að neðan má lesa fyrsta tölublað Talnalínu í heild sinni. Ef einhver á eintak af fleiri tölublöðumTalnalínu væri gaman að fá afrit.
Guðbjörg Pálsdóttir, fyrrverandi dósent við Menntavísindasvið HÍ