Leikskólinn Vinagarður er sjálfstætt starfandi leikskóli sem staðsettur er á skjólgóðum stað við enda Laugardalsins í Reykjavík. Leikskólinn er umkringdur hentugum svæðum til útiveru og útikennslu og er náttúran ein af áherslum skólans. Elsta deild skólans, Uglugarður, nýtir opið skógarsvæði til allrar útiveru og er leikurinn þar algjörlega sjálfsprottinn hjá börnunum með því sem þau finna á svæðinu. Vikulega fara fram skipulegar útikennslustundir þar sem unnið er markvisst með tölur, talnaskilning, form og einföld stærðfræðihugtök (svo sem stór, lítill, minni, hærri). Náttúrusvæðin í kringum leikskólann styður vel við þessar stundir þar sem hægt er að sjá stærðfræði út um allt í umhverfinu.
Dæmigerð útikennslustund fer þannig fram að eftir að kennari hefur lagt inn verkefni dagsins er börnunum er skipt í þrjá 8-9 barna hópa. Síðan fara hóparnir í nærumhverfið og finna sér hluti til að nota í verkefnin eins og laufblöð, köngla, greinar, steina og í raun hvað sem þau koma auga á. Lögð er áhersla á að börnin læri bæði af því að framkvæma verkefnin sjálf og fylgjast með hinum börnunum og sjá hvernig þau leysa verkefnið.
Dæmi um einstök verkefni sem tengjast hugtökum er að fela börnunum að finna tré sem eru hærri, stærri, hávaxnari, breiðari eða lægri en ákveðið tré sem er upphafspunkturinn. Þegar unnið er með stærðarhugtökin fá þau gjarnan málband og mæla lengd og breidd. Einnig eru verkefni sem tengjast afstöðuhugtökum og börnin þurfa að setja steina eða köngla fyrir framan, aftan, ofan, neðan, hægra megin og vinstra megin við aðra hluti. Þegar unnið er með form eiga þau að finna formin í umhverfinu, móta þau með því sem þau finna eða jafnvel leggjast niður og búa þau til með líkamanum.
Talnagildi er stór hluti af útikennslunni í stærðfræði. Til dæmis fer kennari út með stór tölustafablöð og leggur á jörðina og börnin eiga að segja hvaða tölustafur þetta er, finna steina, laufblöð, köngla eða annað og setja jafn marga hluti á blaðið. Stundum eru notuð tvö tölustafablöð og börnin þjálfuð í að leggja saman með því að telja hlutina á báðum blöðum. Einnig fá þau spurningar um hvað mikið verður eftir ef ákveðinn fjöldi hluta er tekinn af spjaldinu. Börnin æfa sig líka í að forma tölustafi svo sem með prikum sem þau finna og skrifa í mold, sand eða snjó eftir því sem við á. Hreyfing er einnig stór þáttur í útikennslunni og þau draga sér til dæmis hreyfispjöld og eiga að gera ákveðna hreyfingu, svo sem hoppa, hlaupa frá A til B eða fara í kollhnís jafn oft og spjaldið segir til um.
Elstu börnin í leikskólanum vinna einnig með tölur og stærðfræðihugtök í vinnustundum innanhúss.
Þá eru þau oftast að æfa sig í að tengja tölustafi við fjölda sem gert er með ýmsum leikjum, bæði á borði og á gólfi. Fyrir utan þetta er auðvelt að vinna með stærðfræði í öllum athöfum daglegs lífs í leikskólanum, eins og telja glös og borðbúnað í matartímum, skoða hvernig ávextir eru skornir í tvennt eða þrennt og svo mætti lengi telja. Stærðfræðin í útikennslunni er mjög vinsæl meðal barna og kennara og frábærar stundir sem þau hlakka öll til að eiga saman.
Höfundar:
María Jónsdóttir Deildarstjóri á Vinagarði
Hildur Björk Svavarsdóttir Aðstoðarskólastjóri á Vinagarði