Námskeið um stærðfræði í leikskóla – Opna Menntafléttan
Á vef Opnu Menntafléttunnar má nálgast námskeið um stærðfræðinám leikskólabarna. Námskeiðið heitir Stærðfræðin í leik barna og er fyrsta námskeiðið af þremur í flokknum Stærðfræði í leikskóla. Líkt og önnur námskeið Menntafléttunnar byggir það á samvinnu kennara og sameiginlegri ígrundun þeirra um vinnu með börnum. Námskeiðið er skipulagt á grunni fjögurra þróunarhringja sem þátttakendur fylgja skref fyrir skref og styðja þau við samræður og vinnu um þróun starfshátta. Skrefin fjögur eru:
Skref A: Þátttakendur lesa, horfa á myndbönd og ígrunda spurningar.
Skref B: Þátttakendur ræða saman um efnið og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur vinna samkvæmt áætlun og skrá hjá sér athuganir sínar.
Skref D: Þátttakendur ígrunda vinnuna sem farið hefur fram á vettvangi.
Efni námskeiðanna er sótt á vef Skolverket í Svíþjóð með þeirra leyfi. Það er samið af hópi rannsakenda við Malmö háskóla í samstarfi við Tækniháskólann í Luleå og sænska stærðfræðisetrið í Gautaborg. Það byggir á rannsókn þeirra á starfi leikskólakennara sem unnu með börnum að því að rannsaka þau stærðfræðilegu viðfangsefni sem fólk í öllum menningarheimum fæst við samkvæmt rannsóknum bandaríska stærðfræðingsins Alan J. Bishop. Þessir þættir eru: Að leika, útskýra, staðsetja, hanna, mæla og telja. Margrét Vala Gylfadóttir þýddi efnið á íslensku og textaði á íslensku myndbönd sem fylgja því.
Á fyrsta námskeiðinu, Stærðfræði í leik barna, eru allir þættirnir kynntir til sögunnar og síðan unnið sérstaklega með þá tvo fyrstu sem eru að leika og útskýra. Hin námskeiðin verða birt síðar á vef Opnu Menntafléttunnar en þau eru Stærðfræðin í umhverfi leikskólabarna þar sem unnið er með staðsetningu og hönnun og svo Magnskilningur leikskólabarna (hét Magnskilningur barna í leikskóla þegar það var kennt) þar sem unnið er með mælingar og talningu. Í síðasta þróunarhring hvers námskeiðs er lögð áhersla á skráningu bæði barna og leikskólakennara. Á fyrsta námskeiðinu er sjónum beint að skráningu barna, á öðru námskeiðinu er áhersla á skráningu kennara á þátttöku barna í stærðfræðilegum viðfangsefnum og á lokanámskeiðinu eru gagnkvæm samskipti kennara og foreldra og þeir hvattir til þátttöku í skráningum.
Námskeiðin hafa öll verið kennd tvisvar sinnum á vegum Menntafléttunnar. Fyrst voru þau tilraunakennd með völdum hópi leikskólakennara úr þremur leikskólum og seinna árið voru þau opnuð fyrir alla. Samstarfið við tilraunahópinn var afar farsælt og reynslan af því nýtt til að bæta námskeiðin. Seinna árið, sem hvert námskeið var kennt, var haldið áfram að safna gögnum reglulega, þau ígrunduð og úrvinnslan notuð til að bæta námskeiðin. Kennarar skólanna nýttu úrvinnslu sína og ígrundun jafnframt til að bæta skólastarfið.
Um námskeiðið Stærðfræðin í leik barna
Á námskeiðinu fá þátttakendur tækifæri til að efla skilning sinn á hvað geta talist stærðfræðileg viðfangsefni leikskólabarna. Í fyrsta þróunarhring eru sex stærðfræðileg viðfangsefni, sem fengist er við í öllum menningarheimum, kynnt og áhersla lögð á að greina hvernig börn fást við þau í athöfnum sínum. Í öðrum þróunarhring er sjónum beint að fyrsta viðfangsefninu sem er leikur barna og hvernig hægt er að koma auga á stærðfræðilegar athafnir þeirra í leiknum. Í þriðja hringnum er lögð áhersla á annað viðfangsefnið, útskýringar, og hvernig börn tjá skilning sinn á stærðfræðilegum athöfnum á mismunandi hátt. Í lokahringnum er svo fjallað um skráningu, hvernig börnin skrá rannsóknir sínar og hvernig hægt er að nota skráningu þeirra til frekari vinnu með þeim.
Þróunarverkefni – Látum draumana rætast
Stærðfræðin í leik barna og Stærðfræðin í umhverfi leikskólabarna
Skólaárið 2022-2023 fengu höfundar greinarinnar, í samstarfi við fjóra leikskóla, styrk úr B-hluta Skóla- og frístundasviðs (Látum draumana rætast) til að gera rannsókn með fjórum leikskólum. Tveir þeirra ætluðu að nýta sér efni á Opnu Menntafléttunni um námsefnið Stærðfræðin í leik barna. Af ýmsum ástæðum, sem allar tengdust starfsaðstæðum í leikskólunum, varð lítið úr þátttökunni.
Starfsfólk hinna tveggja leikskólanna höfðu áður tekið þátt í námskeiðinu Stærðfræðin í leik barna og tók nú þátt í námskeiðinu Stærðfræðin í umhverfi leikskólabarna sem höfundar greinarinnar kenndu bæði í húsnæði Menntavísindasviðs og með fjarfundabúnaði. Markmiðið var að styðja við fagmennsku og samstarf starfsmanna leikskólanna í þeim tilgangi að kanna hvernig námskeiðin nýttust, hvernig gengi að skapa námssamfélag og hvaða stuðningur væri nauðsynlegur. Leiðtogar úr leikskólunum hittu kennara frá Háskólanum á námskeiðsdögum og fengu reglulegar heimsóknir og stuðning á vettvangi. Í þessum leikskólum gaf verkefnið mörgu starfsfólki byr undir báða vængi, kenndi því að sjá stærðfræðina sem er nú þegar til staðar í starfinu og gaf því verkfæri til að ýta undir stærðfræði og gera hana sýnilega og áþreifanlega í daglegu starfi. Rannsóknin leiddi í ljós að nauðsynlegt er að veita leikskólum stuðning og reglulega leiðsögn til þess að tilætlaður árangur náist líkt.
Leikskólakennararnir fylgdust með stærðfræðilegum athöfnum barnanna í leikskólanum með sérstakri áherslu á skipulagningu rýmis í tengslum við stærðfræðilegu viðfangsefnin staðsetningu og hönnun. Þeir skráðu athuganir sínar í máli og myndum og veltu til dæmis fyrir sér hvort námstækifæri barnanna væru sjálfsprottin eða skipulögð, tæknileg eða kennslufræðileg. Þeir deildu skráningum sínum með starfsfólki leikskólanna og með öðrum þátttakendum á námskeiðinu. Hér má sjá nokkrar skráningar í tengslum við námskeiðið ásamt vinnu barnanna. Þar sem skráningar og myndir eru persónugreinanlegar eru myndir af andlitum barnanna fjarlægðar og lýsingar á vinnu þeirra dregnar saman í stuttu máli.
Veggur með skráningum
Skipulagning rýmis
Hér koma nokkur dæmi um skráningar um glímu barnanna við að skipuleggja rými.
Börn vinna með kubba
Blómin á þakinu
Sagan var lesin fyrir börnin og þau hönnuðu húsið og gerðu leikbrúður af dýrum og börnum.
Grasfræjum sáð á þakið, grasið klippt og dýr og blóm fengu athvarf á þakinu.
Staðsetning
Börnin skrá leið sína að heiman í leikskólann.
Hönnun
Börn hanna úr efnivið sem þau finna í nærumhverfi sínu. Þegar komið er heim í leikskólann ræða þau um þá hluti sem þau fundu og velta fyrir sér hvort þeir eru líkir öðrum hlutum.
Brot úr gangstéttarhellu verður að pítsusneið með margs konar áleggi
Bútur af trjádrumbi verður að kastala með prinsessu og kóngi og íslenska fánanum.
Ávinningur fyrir börn fólst í auknum möguleikum til stærðfræðináms í tengslum við rannsóknir þeirra og skráningar á þeim.
Að lokum
Allt frá upphafi var stefnt að því að gera stærðfræðinámskeiðin aðgengileg á opnum vef þar sem hver skóli gæti tekið valin námskeið á eigin hraða líkt og á vef Skolverket. Þau stærðfræðinámskeið sem nú eru aðgengileg undir hatti Opnu Menntafléttunnar eru fyrsta námskeiðið í flokknum Stærðfræði í leikskóla, sem er Stærðfræðin í leik barna ásamt námskeiðum um Tungumál stærðfræðinnar fyrir yngsta-, mið-, unglingastig og framhaldsskólann. Til viðbótar eru einnig nokkur áhugaverð námskeið sem vert er að skoða. Skólar sem taka námskeið á vegum Opnu Menntafléttunnar gera það á eigin vegum hver á sínum hraða. Á vefnum er hægt að óska eftir ráðgjöf gegn greiðslu.
Áður hefur verið fjallað um Stærðfræði í leikskóla í tengslum við Menntafléttuna hér á vef Flatarmála. Sjá nánar grein Hörpu Kolbeinsdóttur og Margrétar S. Björnsdóttur Stærðfræðiskráning í leikskóla og grein Margrétar Menntafléttan – Stærðfræðinám í leikskóla (2021. Flatarmál 28(1), 25-27).
Það er von höfunda að þessi skrif verði hvatning fyrir kennara til að nýta sér námskeiðin á Opnu Menntafléttunni og kveiki áhuga á stærðfræði í leikskóla. Í leikskólum er kjörið tækifæri til að byggja góðan grunn fyrir frekara stærðfræðinám.
Margrét Sigríður Björnsdóttir,
Aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ
Jónína Vala Kristinsdóttir,
Fyrrverandi dósent við Menntavísindasvið HÍ