Laufey Einarsdóttir.
Sönnun á setningu Pýþagórasar hefur verið vinsælt námsmatsverkefni í stærðfræði í Sæmundarskóla um árabil, þar sem fræðilegum vinnubrögðum og sköpunarkrafti er fléttað saman. Verkefnið er unnið í 10. bekk og hefst á því að nemendur skoða og rannsaka fjölmargar sannanir setningarinnar. Aðalhluti verkefnisins snýst síðan um að nemendur vinna saman í hópum að því að sanna setninguna og setja hana fram með skapandi hætti. Nemendur geta valið á milli þess að útbúa líkan og kynningu eða búa til myndband, en í báðum tilvikum þarf skilningur þeirra á sönnuninni að koma skýrt fram.
Markmið verkefnisins er að efla skapandi hugsun nemenda, þjálfa þá í samvinnu og dýpka skilning þeirra á stærðfræðilegum sönnunum. Þessar áherslur koma skýrt fram í hæfniviðmiðunum sem verkefninu fylgja og endurspeglast í afrakstri nemenda.
Greininni fylgja sýnishorn af verkefnavinnu nemenda, þar sem frumleiki og rannsóknarvinna eru í fyrirrúmi. Myndirnar sýna ekki aðeins fjölbreyttar aðferðir hópanna við úrvinnsluna, heldur einnig gleðina sem einkenndi vinnuferlið. Það er sérstaklega skemmtilegt að gleði, virðing og samvinna, einkunnarorð Sæmundarskóla, skuli endurspeglast í þessu verkefni. Upphaflega áttu nemendur að fá þrjár kennslustundir til að leysa verkefnið en þar sem áhuginn og sköpunarkrafturinn var svo mikill var ákveðið að lengja vinnutímann um tvær kennslustundir. Fyrir kennara var afar ánægjulegt að finna fyrir kappsemi nemenda í vinnsluferlinu en mest gefandi var að sjá stoltið sem skein úr andlitum nemenda þegar þeir kynntu afraksturinn sinn. Það gaf mikla hlýju í kennarahjartað.
Skapandi verkefni skipta miklu máli í stærðfræðinámi því þau hvetja nemendur til að nálgast stærðfræði á nýjan hátt. Með því að vinna verkefni sem krefjast bæði rannsóknarvinnu og skapandi framsetningar, þróa nemendur ekki aðeins dýpri skilning á stærðfræðilegum hugtökum og reglum heldur einnig hæfni í röksemdafærslu, lausnamiðaðri hugsun og samstarfi. Þessir færniþættir eru ómetanlegir, bæði fyrir áframhaldandi nám og þær áskoranir sem bíða í framtíðinni.
Laufey Einarsdóttir, stærðfræðikennari í Sæmundarskóla.