This image has an empty alt attribute; its file name is Asset-2rocket2-1024x141.png

Þátttaka í farsælli starfsþróun gefur hverjum kennara þrótt og kraft til að eflast í starfi og njóta þess að vera kennari. Í vetur gefst stærðfræðikennarahópum á miðstigi og unglingastigi tækifæri til að taka þátt í Menntafléttunámskeiðunum, Tengsl og breytingar. Þar verður áhersla lögð á vinnu nemenda með opin stærðfræðiverkefni og bekkjarumræður um lausnaleiðir.  

Leiðtogi hvers hóps mætir á fjarfund sex sinnum yfir veturinn og fær kynningu á efni námskeiðsins og stuðning við að leiða hóp sinn. 

Meginmarkmið námskeiðanna er að gefa kennurum efni í hendur til að efla námssamfélag sitt í gegnum umræður um stærðfræðimenntun og sameiginlega skipulagningu kennslu út frá aðstæðum og áhuga í hverjum skóla.

Nánari upplýsingar um efni námskeiðanna og skráningu má finna á eftirfarandi vefsíðum:   

Tengsl og breytingar í stærðfræði fyrir miðstig 

Fyrsta lota fer fram mánudaginn 9. september kl. 14:15 – 17:00 

Tengsl og breytingar í stærðfræði fyrir unglingastig 

Fyrsta lota fer fram mánudaginn 16. september kl. 14:15 – 17:00

Menntafléttunámskeiðin eru starfsþróunarnámskeið sem byggja á þeirri hugmyndafræði að með þátttöku í námskeiðinu séu kennarar að styrkja námssamfélag sitt með því að vinna saman með efni námskeiðsins yfir skólaárið.

Æskilegt er að hver skóli sendi 1-2 fulltrúa á Menntafléttunámskeið sem taka að sér að leiða vinnu með efni námskeiðsins með kennurum í skólanum.  

Kennslulotur eru samtals sex, þrjár fyrir áramót og þrjár eftir áramót. Þess á milli vinnur kennarahópurinn innan skólans ákveðin verkefni saman og með nemendum.

Opna Menntafléttan býður einnig upp á fjölbreytt stærðfræðinámskeið fyrir kennara og starfsfólk á öllum skólastigum.

Endurmenntun Háskóla Íslands býður upp á tvö námskeið haustið 2024 sem tengjast stærðfræði.

Annað námskeiðið er Lengi býr að fyrstu gerð.  Mat á stöðu í talna- og aðgerðaskilningi við upphaf grunnskóla  og er það skipulagt með kennara á yngsta stigi grunnskólans í huga sem og sérkennara sem sinna mati og ráðgjöf.

Hitt námskeiðið er Stærðfræðiskimun í leikskóla – MIO og er ætlað fyrir öll sem starfa með leikskólabörnum.

Kennari námskeiðanna er Dóróþea Guðrún Reimarsdóttir. Hún er fyrrverandi grunnskólakennari, verkefnastjóri sérkennslu og kennsluráðgjafi á leik- og grunnskólastigi. Hún er með M.Ed. í sérkennslufræðum með áherslu á stærðfræði með ungum börnum en hefur áralanga reynslu af að kenna stærðfræði á öllu grunnskólastiginu.

Utís Online er menntaviðburður á netinu fyrir kennara, stjórnendur og starfsmenn á öllum skólastigum. Ráðstefnan verður næst haldin 20.-21.september 2024 frá 13-16 á föstudegi og 10-15 á laugardegi.

Á ráðstefnunni verða um 20 fjölbreyttir fyrirlestrar en þar á meðal mun Peter Liljedahl fjalla um Að byggja hugsandi kennslustofur í stærðfræði (og víðar).

Skráning er þegar hafin.

Í haust og næsta sumar verður Peter Liljedahl á ferð um Danmörku og Ísland og því gefst tækifæri til að taka þátt í námskeiðum á hans vegum.

Þau sem vilja fara í skólaheimsóknir í Danmörku tengt námskeiðunum í Álaborg geta haft samband við Kenneth Riis Pooulsen kerp@ucn.dk fyrir lok ágúst (til að tími gefist til skipulagningar)

Takið dagana 9. – 13. júní 2025 frá fyrir námskeið Peter Liljedahl hér á Íslandi!

CFU í Álaborg, Danmörku

• 29. október 2024 – Inngangsnámskeið fyrir stærðfræðikennara og fagstjóra og aðra áhugasama kennara (grunn- og framhaldsskóla) https://ucn.dk/cfu/kurser-og-temadage/building-thinking-classrooms
• 30. október 2024 – Framhaldsnámskeið með áherslu á að festa námsefnið í sessi (consolidation) og hvernig við ljúkum kennslustund https://ucn.dk/cfu/kurser-og-temadage/building-thinking-classrooms-skridtet-videre

• 31. október – Hvernig við notum aðferðir hugsandi skólastofu í öllum faggreinum á öllum skólastigum fyrir alla kennara https://ucn.dk/cfu/kurser-og-temadage/building-thinking-classrooms-i-alle-fag

CFU í Árósum, Danmörku

• 1. nóvember – Inngangsnámskeið fyrir stærðfræðikennara á öllum skólastigum (leik-, grunn- og framhaldsskóla) https://cfu.via.dk/kurser-og-konferencer/75194-building-thinking-classrooms
• 4. nóvember – Framhaldsnámskeið um að festa námsefnið í sessi (consolidation) og hvernig við ljúkum kennslustund í hugsandi skólastofu fyrir stærðfræðikennara á öllum skólastigum (leik-, grunn- og framhaldsskóla) https://cfu.via.dk/kurser-og-konferencer/75195-building-thinking-classrooms-skridtet-videre

• 4. nóvember – Námskeið leitt af dönskum kennurum um hvernig nota megi aðferðir hugsandi skólastofu við móðurmálskennslu (ath. þetta námskeið er á dönsku) með áherslu á leikskólastig og 1.-4. bekk grunnskóla https://cfu.via.dk/kurser-og-konferencer/77838-det-taenkende-danskfag

CFU í Hróarskeldu (Roskilde), Danmörku

• 5. nóvember 2024 – Inngangsnámskeið fyrir stærðfræðikennara með áherslu á miðstig og unglingastig https://cfu.kp.dk/events/building-thinking-classrooms/

• 6. nóvember 2024 – Framhaldsnámskeið um að festa námsefnið í sessi (consolidation) og hvernig við ljúkum kennslustund í hugsandi skólastofu með áherslu á miðstig og ungilngastig https://cfu.kp.dk/events/building-thinking-classrooms-skridtet-videre-om-opsamling-og-afslutning-af-lektionen/

Reykjavík, Íslandi

Dagana 9.-13. júní 2025 verða haldin inngangsnámskeið og framhaldsnámskeið – takið þessa daga frá!

Menntafléttan – Opna Menntafléttan

Fátt er áhugaverðara og skemmtilegra en að hitta aðra stærðfræðikennara og ræða um stærðfræðinám og -kennslu, bæði í eigin skóla sem og hitta kennara úr öðrum skólum.

Í vetur gefst stærðfræðikennarahópum á öllum skólastigum tækifæri til þess að taka þátt í Menntafléttunámskeiðum sem lesa má nánar um í greininni:

Menntafléttan – Opna Menntafléttan: Tilboð til stærðfræðikennarahópa.

Meginmarkmið námskeiðanna er að gefa kennurum efni í hendur til að efla námssamfélag sitt í gegnum umræður um stærðfræðimenntun og sameiginlega skipulagningu kennslu út frá aðstæðum og áhuga í hverjum skóla.

Í leikskólum er kjörið tækifæri til að byggja góðan grunn fyrir frekara stærðfræðinám.

Í greininni Stærðfræði í leikskóla er sagt frá námskeiðum Opnu Menntafléttunnar um stærðfræðinám leikskólabarna. Það er von höfunda að skrifin verði hvatning fyrir kennara til að nýta sér námskeiðin á og kveiki áhuga á stærðfræði í leikskóla.

Í fyrsta hlaðvarpsþætti Flatarmála var rætt við þær Elísabetu Eggertsdóttur og Sigrúnu Lilju Guðbjörnsdóttur kennara við Menntaskólann við Sund.

Síðastliðinn vetur unnu þær rannsókn á sinni eigin kennslu og skoðuðu hvers konar verkefni nemendum þætti vert að vinna.

Hlusta má á hlaðvarpið hér en einnig má finna hér á vefnum verkefni sem notast var við í rannsókninni.

Í fyrstu grein Flatarmála á þessu skólaári segir Arna Björk Hafberg Gunnarsdóttir, miðstigskennari við Vesturbæjarskóla, frá skemmtilegu verkefni sem hún vann með nemendum í 6. bekk.

Verkefnið kallast Pizzastaðurinn, en það er afar áhugavekjandi og skapandi stærðfræðiverkefni sem gefur nemendum tækifæri til að sýna þekkingu sína á almennum brotum.

Í nýjustu grein Flatarmála – Stærðfræðiáherslur í leikskólastarfi – fjalla leikskólakennarar í leikskólanum Vinagarði um áherslur sínar í stærðfræðikennslu og hvernig hægt sé að nýta náttúruna í útikennslustundir.

Á undanförnum árum hefur Auður Lilja Harðardóttir, kennari við Ísaksskóla, unnið með Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna (SKSB). Þar er megináhersla lögð á að opna leiðir fyrir börn til að efla talna- og aðgerðaskilning sinn. Kennsluhættirnir byggja á því að lagðar eru þrautir fyrir börn og þau þróa eigin leiðir við að leysa þær byggðar á fyrri þekkingu þeirra og reynslu.

Viðtal við Auði Lilju er maígrein Flatarmála og nefnist Glíman glæðir skilninginn. Viðtalið er sett fram með stuttum myndböndum þar sem Auður Lilja segir frá reynslu sinni af kennsluháttum SKSB. Auk þess eru í greininni nokkur myndbönd af íslenskum börnum að glíma við þrautir og útskýra hugsun sína.

Hvernig getur kennari nýtt sér gervigreind til að æfa sig í samræðum við nemendur með það að markmiði að beina athygli þeirra að atriðum sem skipta máli við lausnarleit í stað þess að gefa þeim svarið?

Þetta má kynna sér í afar áhugaverðri grein eftir Ingólf Gíslason, aðjunkt við Menntavísindasvið HÍ, sem nefnist Ný tækni og gamlar gátur.

Tölfræði má gera merkingarbæra strax í leikskóla. Í greininni Merkingarbær tölfræði fjallar Lena Landgren um hagnýtt verkefni sem leikskólabörn leystu með því að búa til súlurit. Röng svör sem kennarinn varpaði fram á meðvitaðan hátt sköpuðu námstækifæri.

Leikið með stærðfræði í Krikaskóla. Haldið var upp á alþjóðlegan dag stærðfræðinnar í Krikaskóla í Mosfellsbæ á pí deginum þann 14. mars 2024.  Gleði og ham­ingja ein­kenndu daginn eins og sjá má í þessari frásögn.

Í haust og næsta sumar verður Peter Liljedahl á ferð um Danmörku og Ísland og því gefst tækifæri til að taka þátt í námskeiðum á hans vegum.

Þau sem vilja fara í skólaheimsóknir í Danmörku tengt námskeiðunum í Álaborg geta haft samband við Kenneth Riis Pooulsen kerp@ucn.dk fyrir lok ágúst (til að tími gefist til skipulagningar)

Takið dagana 9. – 13. júní 2025 frá fyrir námskeið Peter Liljedahl hér á Íslandi!

Nánari upplýsingar fá finna hér á síðunni undir liðnum Á DÖFINNI.


Ætlar þú að gera stærðfræðiratleik í nærumhverfi þíns skóla þetta vorið eða strax næsta haust?

Íslensk útgáfa MathCityMap (https://mathcitymap.eu/en/) er komin í loftið. Stilla má bæði vefviðmót kennara og smáforrit nemenda þannig að þau séu á íslensku.

Lesa má um reynslu kennaranema af að nota MathCityMap í þessu lokaverkefni: Notkun stærðfræðistígs í kennslu stærðfræði í 10. bekk grunnskóla : greinargerð um stærðfræðiverkefni sem hönnuð voru fyrir útikennslu með aðstoð hugbúnaðarins MathCityMap

Hér eru leiðbeiningar um gerð stærðfræðistígs: https://mathcitymap.eu/en/tutorials-en/

Líklega þarf að senda fyrirspurn til sveitarfélags varðandi að mega nota forritið í skólastarfi (líkt og með önnur forrit) en finna má upplýsingar tengdar persónuvernd hér: https://mathcitymap.eu/en/data-protection/

Vitað er að skólar í Þýskalandi, Frakklandi, Tékklandi, Slóvakíu, Austurríki, Hollandi, Eistlandi, Finnlandi, Svíþjóð og fleiri Evrópulöndum nota þetta einmitt af því kröfur um persónuvernd eru uppfylltar.

DAGUR STÆRÐFRÆÐINNAR
– ÞEMAHEFTI

LOKSINS Á RAFRÆNU FORMI

Dagur stærðfræðinnar hefur flakkað nokkuð til á dagatalinu hér á landi. Upphaflega var ákveðið að halda Dag stærðfræðinnar þann 27. september í tilefni af alþjóðlegu ári stærðfræðinnar aldamótaárið 2000. Sú dagsetning þótti ekki henta af ýmsum ástæðum og því var ákveðið að færa hann þannig að hann væri fyrsta föstudag í febrúar. Seinna var hann færður aftur því hann rakst oft á við Dag leikskólans 1. febrúar en þá var Pí-dagurinn 14. mars fyrir valinu. Á þeim degi er einmitt alþjóðlegum degi stærðfræðinnar einnig fagnað.

Á hverju ári hefur verið valið þema og útbúin verkefni fyrir kennara til að nýta með nemendum sínum í tilefni dagsins. Fyrstu sex árin voru gefin út sérstök þemahefti sem nú má loksins finna á rafrænu formi en heftin eru gullkistur fullar af hugmyndum og verkefnum.

Miðja máls og læsis hefur tekið saman allt efni stöðumats ÍSAT nemenda á Padlet vegg. Þar er hægt að finna stöðumatshefti í stærðfræði fyrir ÍSAT nemendur á mörgum mismunandi tungumálum. Heftin er hægt er að leggja fyrir í kennslustundum og flestir nemendur geta unnið nokkuð sjálfstætt í þeim.

Stöðumatsheftunum er skipt í nokkra flokka:
– 1 – 3. bekkur
– talnaskilningur og reikniaðgerðir
– líkindi og tölfræði
– rúmfræði
– algebra

Til hvers þarf maður að læra stærðfræði þegar við getum notað reiknitölvu?