Þórunn Björk Sigurbjörnsdóttir.
Dagana 6. – 9. ágúst 2024 sótti ég námsbúðirnar Kennarar diffra í umsjón Nönnu Kristjánsdóttur. Hún á hugmyndina að sumarnámsbúðunum Stelpur diffra þar sem skapaður er vettvangur fyrir stelpur og stálp til að fræðast um alls konar skemmtilega stærðfræði. Og nú bauð hún upp á búðir í svipuðum dúr fyrir stærðfræðikennara af öllum kynjum. Frábært framtak!
Við vorum 10 kennarar sem tókum þátt í búðunum, kennum öll í efri bekkjum grunnskóla eða í framhaldsskóla og mættum að sjálfsögðu stundvíslega og ofurspennt í VRII fyrsta daginn. Við byrjuðum á því að kynnast, fórum í stólaleik og á örstefnumót og reyndum að komast að því hvað við ættum sameiginlegt. Það var ýmislegt; mörg okkar höfðu mætt hjólandi þennan sólskinsdag í ágúst, höfðum farið erlendis í sumarfríinu, búum í Kópavogi og ýmis tengsl við Laugarvatn komu í ljós. Að þessu loknu var okkur skipt í hópa og við fengum það verkefni að útbúa stutta kynningu á konu í stærðfræði. Við kynntumst konunum Ingrid Daubechies, Mileva Maric, Karen Uhlenbeck, Ada Lovelace og Hannah Fry.
Eftir hádegismat héldum við yfir í Hagaskóla en þar er búið að gera upp kennslustofu í anda hugsandi skólastofu þar sem margir veggfletir voru málaðir hvítri töflumálningu á snyrtilegan hátt. Þar unnum við í hópum undir stjórn Bjarnheiðar Kristinsdóttur að því að leysa ýmiss konar verkefni úr stærðfræðikeppnum framhaldsskólanna. Alls konar dæmi og alls konar lausnir en eitt af því sem er svo skemmtilegt við það að vinna á lóðréttum flötum er hversu auðvelt er að skoða lausnir hjá öðrum og sjá hvernig við getum verið að nálgast verkefnin á mismunandi hátt.
Á degi tvö kynnti Svala Sverrisdóttir okkur fyrir abstrakt algebru. Við skoðuðum grúpur, umraðanagrúpur, samhverfugrúpur og loks setningu Burnside sem leiddi okkur yfir í að reikna fjölda ólíkra hálsmena með fjórum rauðum, fjórum bláum og fjórum hvítum perlum. Dagurinn endaði síðan á umfjöllun Nönnu um dulkóðun og leikjafræði. Þetta var nostalgíudagurinn minn. Ég fór 30 ár aftur í tímann, var orðin tvítug háskólamær í tíma í Algebru I í HÍ, eitt af mínum uppáhalds námskeiðum, og var minnt á það hvað það er sem mér þykir svo fallegt og skemmtilegt við stærðfræðina. Bæði við fegurðina í því hvernig fræðin byggjast upp í kringum skilgreiningar og reglur en einnig allt þetta sjónræna. Við vorum öll farin að teikna perlur með mismunandi táknum eða litum, spegla og snúa og sjá fyrir okkur hinar ýmsu samhverfur.
Þriðja daginn snérum við okkur að rúmfræði og þá sérstaklega rúmfræðidæmum eins og sjást í stærðfræðikeppni framhaldsskólanna, bæði þungum og minna þungum og var það Álfheiður Edda Sigurðardóttir sem leiddi okkur áfram í þeirri vinnu. Aftur voru litirnir komnir í notkun og hinar ýmsu hornamerkingar og einslaga þríhyrningar komu þó nokkrum sinnum við sögu. Eftir hádegi fræddi Anna Helga Jónsdóttir okkur um ályktunartölfræði. Farið var yfir helstu hugtök og tákn, fjallað um höfuðsetningu tölfræðinnar og hugmyndafræði tilgátuprófa. Flísalagnir voru einnig til umfjöllunar í umsjón Nönnu og var það mjög skemmtileg viðbót við fræðilegri uppfjöllun dagsins á undan um grúpur og eitthvað sem ég gæti vel hugsað mér að læra meira um.
Seinasta daginn sagði Anna Hrund Másdóttir stærðfræðingur og myndlistamaður okkur frá sínum verkum og hvernig stærðfræðin kemur fram í þeim. Það er mjög áhugavert að hún er meðal annars oft með handgerðan rúðustrikaðan bakgrunn í sínum verkum. Við skoðuðum verk Escher og listamennirnar Gogo og Sol Lewitt voru einnig nefndir. Námsbúðirnar enduðu á hópavinnu þar sem allir hópar unnu með ólíkt efni en samt undir yfirskriftinni stærðfræði og samfélagið. Komið var inn á kortagerð, línulega algebru, tölfræði og hvernig stærðfræðin getur komið inn í ákvörðunartöku og ályktunargerð.
Eins og sjá má af þessari upptalningu kom alls konar stærðfræði við sögu þessa fjóra daga. Efnið sem farið var í var svo fjölbreytt og skemmtilegt að ég held við höfum öll fundið eitthvað við okkar hæfi. Það sem skipti líka miklu máli var félagsskapurinn. Það var svo gaman að hitta aðra stærðfræðikennara, heyra hvað þau eru að fást við, hvernig þau eru að gera hlutina, fá hugmyndir og bara njóta þess að vera að grufla saman í stærðfræði. Hádegismatur var innifalinn í námskeiðinu sem skapaði vettvang fyrir enn meiri samveru og spjall.
Það er hvetjandi að læra um eitthvað sem við erum ekkert endilega að fást við frá degi til dags og tengist ekki kennslu endilega beint. Nú á haustönn er ég búin að leggja dæmi frá Bjarnheiði og Álfheiði Eddu fyrir nemendur mína og hef aðeins verið að prófa mig áfram með hugmyndir hugsandi kennslustofu. Næst þegar ég kenni tölfræði er ég viss um að ég get notað hugmyndir sem Anna Helga kom með í sinni umfjöllun og allt efnið sem hún benti okkur á að finna má á edbook.hi.is.
Ég er búin að fara í geymsluna hjá mömmu og pabba og finna bókina Stærðfræði (sem Almenna Bókafélagið gaf út 1963) sem Anna Hrund talaði um að hefði veitt sér innblástur og er með fleiri bækur sem hún nefndi á óskalistanum. Ég tók Contemporary Abstract Algebra eftir Gallian úr hillunni og las kaflann um samhverfugrúpur eftir innblástur frá Svölu og síðast en ekki síst þá var fjölskyldan sett í að föndra flísar eins og Nanna lét okkur gera og tvær þeirra eru orðnar að kökuformum með hjálp cookiecad og þrívíddarprentarans í vinnunni og bíða jólabakstursins.
Vonandi mun verða boðið upp á sambærilegt námskeið aftur og hvet ég stærðfræðikennara til að nýta sér þetta skemmtilega tækifæri til endurmenntunar.
Þórunn Björk Sigurbjörnsdóttir, stærðfræðikennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
Myndir frá námsbúðunum: Nanna Kristjánsdóttir.