Ritstjórapistill fyrsta tölublaðs Flatarmála 1993
Þá ertu kominn með frumburðinn í hendurnar. Alltaf skal það verða mesti atburðurinn þegar sá fyrsti kemur. Ég vil leyfa mér að vona að hann fái góðar móttökur og reyndar öll hans systkini þegar þar að kemur. Oft búa systkini yfir vissu ættarmóti en undantekningarlítið býr þó hvert og eitt yfir sínum einkennum og töfrum. Eins er með Flatarmálin. Þau munu bera viss sameinkenni en hvert tölublað mun
hafa sínar áherslur. Ekki er það heldur ólíklegt að uppalendur slípist ögn við uppeldið eftir því sem lengra líður og þá má kannski búast við nokkuð annars konar börnumen nú lítur dagsins ljós.
Í hverju tölublaði munu verða nokkrir fastir þættir. Kennarar munu t.d. segja frá því sem þeir hafa reynt með nemendum sínum, verkefni verða kynnt, opnað er fyrir umræðu um það sem er í brennidepli og fylgst er með því sem kemur út af bókum á markaðnum jafnframt því sem sagt er frá atburðum sem varða stærðfræðikennara sérstaklega. Leitast verður við að hafa blöðin fjölbreytt að efnisvali þar sem saman fer fræðileg umfjöllun og hagnýt nálgun.
Flötur er fyrir kennara á öllum skólastigum. Í málgagni félagsins, Flatarmálum, verður leitast við að endurspegla það. Flatarmál eru vettvangur umræðna og skoðanaskipta. Greinarhöfundar bera ábyrgð á sínum skrifum og er öllum velkomið að skrifa í blaðið. Hvetur ritnefnd fólk til að láta í sér heyra. Jafnframt þætti okkur fengur að hvers kyns ábendingum.
Sólrún Harðardóttir
Sótt úr Flatarmál 1993, bls. 2