Dagur stærðfræðinnar hefur flakkað nokkuð til á dagatalinu hér á landi. Upphaflega var ákveðið að halda Dag stærðfræðinnar þann 27. september í tilefni af alþjóðlegu ári stærðfræðinnar aldamótaárið 2000. Sú dagsetning þótti ekki henta af ýmsum ástæðum og því var ákveðið að færa hann þannig að hann væri fyrsta föstudag í febrúar. Seinna var hann færður aftur því hann rakst oft á við Dag leikskólans 1. febrúar en þá var Pí-dagurinn 14. mars fyrir valinu. Á þeim degi er einmitt alþjóðlegum degi stærðfræðinnar einnig fagnað.
Á hverju ári hefur verið valið þema og útbúin verkefni fyrir kennara til að nýta með nemendum sínum í tilefni dagsins. Fyrstu sex árin voru gefin út sérstök þemahefti sem nú má finna hér á rafrænu formi og eru gullkistur fullar af hugmyndum og verkefnum sem er hægt að nýta allt árið um kring.
Dagur stærðfræðinnar
– þemahefti 2000
Í þessu riti hefur verið reynt að velja viðfangsefni sem dýpka skilning nemenda á fjölbreytileika rúmfræðinnar og vekja upp spurningar sem áhugavert er að vinna út frá. Einnig er bent á margar áhugaverðar og fjölbreyttar leiðir í rúmfræðikennslu.
Vafalaust getur hver og einn tileinkað stærðfræðinni marga daga í lífi sínu, daga þar sem hugmyndir og tengsl ná að fléttast saman og mynda nýja þekkingu og daga þar sem frjó hugsun leiðir viðkomandi inn á nýjar og ókannaðar brautir. Það er okkar kennaranna að stuðla að því að sem flestir dagar verði að degi stærðfræðinnar í hugum nemenda okkar.
Dagur stærðfræðinnar
– þemahefti 2001
Þetta rit gefur tækifæri til að tengja saman stærðfræðivinnu í skólum og á heimilum. Heimaverkefnin eiga að dýpka skilning nemenda á stærðfræðinámi sem fram fer í skólanum. Þau þurfa að endurspegla vinnubrögð og áherslur stærðfræðinámsins í skólanum en jafnframt gefa góðar upplýsingar um skólastarfið. Einnig geta þau gefið fjölskyldum upplýsingar um hæfni nemanda.
Talið er að jákvætt viðhorf foreldra hafi áhrif á viðhorf barna. Heimaverkefnunum er ætlað að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og fjölskyldu til stærðfræðinnar. Verkefni sem fjölskylda glímir sameiginlega við er heppileg leið til að dýpka frjóa hugsun og vekja upp spurningar sem áhugavert er að vinna út frá.
Dagur stærðfræðinnar
– þemahefti 2002
Þegar námsgreinarnar stærðfræði og bókmenntir eru samþættar er lögð áhersla á að greina, gagnrýna og skilja sögu og þá stærðfræði sem í henni er að finna.
Börn læra stærðfræði í gegnum tungumálið þegar þau hlusta, lesa, skrifa og tjá sig um stærðfræðilegar hugmyndir. Þau þurfa að tengja nám sitt við eigin reynslu og hugarheim. Ein leið til þess er að samþætta bókmenntir og stærðfræði. Í gegnum bókalestur getur kennari unnið með skilning nemenda á bókmenntaþætti sögunnar en jafnfram samþætt vinnuna við stærðfræði með verkefnum sem byggja á upplifun þeirra á sögunni. Þannig öðlast þau reynslu sem ýtir undir hugmyndaflug og vangaveltur um stærðfræði.
Vonast er til að ritið auki fjölbreytni í vinnubrögðum og efli frekari áhuga nemenda á stærðfræðinámi.
Dagur stærðfræðinnar
– þemahefti 2003
Engum dylst að tími og rúm eru grundvallarhugtök sem varða alla í lífi, leik og starfi og skipa því stóran sess í stærðfræðinámi.
Mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir að það ástand sem við upplifum og tilheyrum í núinu er ekki sjálfstætt kyrrstöðuástand óháð fortíð og framtíð, heldur eitt ofursmátt andartak í heildarframvindu sem engum tekst að stöðva. Öll höfum við þörf fyrir að fylgjast með framrás tímans, geta lesið á tímamæla og nýtt okkur þá til að skipuleggja líf okkar og störf. Einnig er mikilvægt að skilja hvernig sjálf klukka náttúrunnar gengur og skynja þannig framrás tímans. Til að svo geti orðið þurfum við að rannsaka rúmið með óendanlega flóknum og margbreytilegum formum sínum, sem eru á sífelldri hreyfingu og taka stöðugum breytingum hvert sem litið er. Stærðfræði er ákjósanlegasta tækið til að fylgjast með þessari framvindu og fjalla um hana.
Dagur stærðfræðinnar
– þemahefti 2004
Hver einstaklingur notar stærðfræði í lífi sínu og starfi.
Rannsóknir sýna að þegar stærðfræðiþekking einstaklinga eykst finna þeir fleiri svið í lífi og starfi þar sem þeir nýta stærðfræði.
Viðhorf og trú á eigin stærðfræðihæfni eru sterkir áhrifaþættir á hvernig og hvort fólk notar stærðfræðiþekkingu sína.
Mikilvægt er því að nemendur upplifi að stærðfræði skipti máli og að sjálfstraust þeirra gagnvart greininni fái tækifæri til að byggjast upp.
Dagur stærðfræðinnar
– þemahefti 2005
Tækniframfarir og breytingar á þjóðfélagsháttum kalla á annars konar stærðfræðiþekkingu en áður. Því er mikilvægt að nemendur dýpki skilning sinn á tölum, reikniaðgerðum, mynstrum og algebru, því sá skilningur er forsenda þess að geta lesið og skilið þær tölulegu upplýsingar sem birtast þeim í síauknum mæli.
Algebra er einn af grunnþáttum stærðfræðinnar og byggist á að rannsaka atburði kerfisbundið, setja fram tilgátur, leita að regluleika og samhengi og skrá niðurstöður. Algebru er ekki hægt að fjalla um sem einangrað fyrirbæri heldur birtist hún á flestum sviðum stærðfræðinnar.
Í þessu riti eru verkefnin byggð upp með það að leiðarljósi að nemendur vinni saman og rannsaki viðfangsefni kerfisbundið, leiti að regluleika, skrái lausnaleiðir og ræði þær við bekkjarfélaga. Tilraunir nemenda til að lýsa stærðfræðiverkefnum með táknum, hlutum, myndum eða orðum geta leitt til þess að þeir finni eigin leiðir við útreikninga og búi til eigin tákn. Það er mikilvægt að nemendur ræði saman um leiðir og tákn því það gefur tilefni til nákvæmari skráningar og eykur skilning á notkun tákna.
Rannsóknir á stærðfræðinámi sýna að hæfni nemenda í stærðfræði eykst ef þeir finna hagnýtt gildi verkefna. Vonast er til að kennurum og ekki síður nemendum þyki verkefnin í ritunu áhugaverð og hagnýt.