Stærðfræðiratleikir
Miðstöð útivistar og útináms (MÚÚ) býður uppá skemmtilega og fræðandi útidagskrá fyrir börn á skólatíma, tileinkaða skóla- og frístundastarfi í Reykjavík. Dagskráin, sem ber heitið Úti er ævintýri er liður í því að styðja skólana í að nýta sér kosti nærumhverfis til náms.
Vorin 2023 og 2024 var boðið upp á stærðfræðiratleiki fyrir miðstig og yngsta stig grunnskólans. Fjöldi Reykjavíkurskóla nýtti sér þjónustuna og komust færri að en vildu. Eins og sjá má af myndum voru unnin fjölbreytt verkefni og nemendur voru áhugasamir og metnaðarfullir. Reynslan sýnir að ratleikjaform hentar vel til að efla samvinnu og samkennd. Nemendur ræða saman og nota tíma til að sannfæra félaga sína um lausnahugmyndir sínar. Ný tækifæri skapast til að glíma við stærðfræðina og hreyfingin sem fylgir skapar gleði og þrótt. Útiveran og það að læra að nýta leiðbeiningar til að rata er gagnleg og skapar nemendum nýja möguleika. Stærðfræðiratleikirnir hafa höfðað til krakkanna og kennarar telja að inntak þeirra henti vel til að efla þekkingu og vald á þeim efnisþáttum sem fengist er við í skólastofunni. Í gegnum fjölbreytta nálgun og áþreifanleg verkefni fá nemendur þannig tækifæri til að auka og dýpka skilning sinn á þeim efnisþáttum sem fengist er við.
Starfsfólk MÚÚ tekur á móti hópum í aldurstengda dagskrá sem er unnin í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og menntastefnu Reykjavíkur.
Efni dagskráa eru ýmist námsgreinatengd, þvert á námsgreinar eða einskorðuð við einstaka efnistök. Verkefnin eru unnin eftir hæfniviðmiðum viðeigandi aldurstigs í aðalnámskrá og út frá aldurstengdu námsefni. Allar dagskrár bjóða nemendum og kennurum að upplifa kennslustund utandyra þar sem áhersla er lögð á lausnamiðaða samvinnu og nám í gegnumleik. Dagskráin er ýmist hugsuð sem innlögn, æfing á færni eða upprifjun.
Vinsælasta námsformið er ratleikur. Nemendur vinna saman í 3-5 manna hópum, finna staðsetningu stöðvanna og vinna fjölbreytt verkefni.
Reynslan okkar af útinámi og útikennslu er ævintýri líkust. Útinám er mjög áhrifarík kennsluaðferð með ógrynni af kostum sem ætti að vera hluti af námi barna í öllum námsgreinum. Fjölbreyttur nemendahópur þarf fjölbreyttar námsleiðir. Með því að færa kennsluna reglulega út bjóðum við öllum nemendum upp á óhefðbundið námsumhverfi, súrefni, hreyfingu,leik, gleði og enn frekari dýpt. Þar að auki sjáum við þá nemendur sem rekast ekki vel í hefðbundnu kennsluformi, blómstra í útináminu.
Stærðfræðiratleikir
Hér skal sagt nánar frá tveimur tíu stöðva stærðfræðiratleikjum fyrir yngsta stig og miðstig. Verkefnin eru unnin út frá hæfniviðmiðum í stærðfræði við lok hvers aldursstigs og eru efnistök valin og unnin út frá aldurstengdu námsefni.
Stærðfræðislangan: 2. – 4. bekkur
• Inntaksþættir yngsta stigs: Klukkan/tíminn, mælingar og mælieiningar, rúmfræði / form, hnit, talnalína, samlagning, frádráttur, margföldun og deiling.
• Lýsing á leik: Stærðfræðislangan er tíu stöðva ratleikur með fjölbreyttum stærðfræðiverkefnum sem nemendur leysa í litlum hópum. Verkefni hverrar stöðvar eru aldursskipt / getuskipt.
• Framkvæmd: Hver hópur fær einn kassa sem inniheldur kort af svæðinu, band (slönguna) og tíu númeraðar skífur með gati í fjórum litum. Nemendur styðjast við kort til að finna stöðvarnar. Á hverri stöð er verkefni að vinna. Hvert verkefni býður upp á svarmöguleika sem merktir eru með fjórum mismunandi litum.
• Þegar lausn hefur fengist við vinnu hvers verkefnis er skífa í sama lit, og sá valmöguleiki (af fjórum) sem hópurinn telur réttan, þræddur á slönguna. Skífan þarf að vera merkt sama númeri og stöðin sem hópurinn er á. Þannig getur umsjónarmaður í lok leiks athugað svör hvers hóps og farið yfir þau verkefni sem ekki reyndust farsællega leyst.
Stærðfræðisnjallleikur: 5. – 7. bekkur
• Inntaksþættir miðstigs: Almenn brot og tugabrot.
• Lýsing á leik: Stærðfræðisnjallleikur –almenn brot og tugabrot er tíu stöðva rafrænn ratleikur með fjölbreyttum stærðfræðiverkefnum sem nemendur leysa í litlum hópum. Leikurinn er unninn í ratleikjaforritinu Actionbound.
• Framkvæmd: Hver hópur fær eina spjaldtölvu með smáforritinu Actionbound. Leikurinn inniheldur kort og staðsetningarhnit sem nemendur nota til að finna stöðvarnar. Þegar staðsetning hverrar stöðvar eru fundin fá nemendur aðgang að upplýsingum og viðeigandi verkefni sem þau leysa á staðnum.
• Svarleiðirnar eru fjölbreyttar (svör við spurningum, mynd af afrakstri, myndskeið eða hljóðupptaka) og skrásetjast í forritið. Úrlausnir allra hópa er hægt að senda á kennara svo hægt sé að vinna meira með þau efnistök sem virtust vefjast fyrir nemendum.
Stína Bang, verkefnastjóri hjá MÚÚ
MIÐSTÖÐ ÚTIVISTAR OG ÚTINÁMS – HTTPS://MUU.REYKJAVIK.IS – MUU@REYKJAVIK.IS – SÍMI 411 5615