Tilboð til stærðfræðikennarahópa
Birna Hugrún Bjarnardóttir og Guðbjörg Pálsdóttir.
Í Menntafléttunni er boðið upp á netnámskeið fyrir stærðfræðikennara. Nú eru fimm stærðfræðinámskeið í boði í Opnu Menntafléttunni og tvö í Menntafléttunni. Fleiri stærðfræðinámskeið munu verða opnuð í Opnu Menntafléttunni í vetur. Í Opnu Menntafléttunni er gert ráð fyrir sjálfstæðri vinnu námssamfélaga en í Menntafléttunni er um að ræða kennd námskeið en þá skráir hver skóli einn til tvo kennara á námskeiðið. Þeir sækja lotur námskeiðsins og munu síðan leiða þróunarstarfið úti í skólunum.
Stærðfræðinámskeið Menntafléttunnar byggja á sænskum námskeiðum en hafa verið aðlöguð að íslenskum aðstæðum. Í hverju námskeiði er fengist við afmarkað svið stærðfræðinnar og gefin dæmi um kennsluhætti og verkefni sem nýta má með nemendum. Með þátttöku í námskeiði skapar kennarahópur sér tækifæri til að ræða sýn sína á stærðfræði, stærðfræðikennslu og stærðfræðinám.
Námskeiðin byggjast á þróunarhringjum sem skiptast í fjögur skref. Í hverjum þróunarhring er unnið með afmarkað myndefni og/eða lesefni og gert er ráð fyrir að kennarar vinni valin verkefni með nemendahópi sínum. Þannig getur kennarahópurinn byggt upp sameiginlega reynslu og þróað kennsluhætti sína saman.
Þetta grunnskipulag byggir á þeirri hugmynd að efla megi farsæla starfsþróun í gegnum þróunarstarf sem byggir á samræðum kennara og þar sem unnið er út frá aðstæðum á hverjum stað með nemendum. Þannig geti námssamfélög styrkst og kennarar náð að skapa nýja möguleika í kennslu. Með því að kennarar lesi sömu greinar og horfi saman á myndskeið er skapaður umræðugrundvöllur um afmörkuð svið stærðfræðinnar.
Á vef Menntafléttunnar má finna tvær gerðir námskeiða. Í báðum gerðum er gert ráð fyrir að kennarahópur velji sér leiðtoga sem heldur utan um fundi og styður samkennara sína. Á kenndu námskeiðunum fá leiðtogar stuðning við að leiða námssamfélagið í skóla sínum. Þeir mæta sex sinnum yfir veturinn í lotur. Þar fer kennari yfir efni námskeiðsins og inntak hvers þróunarhrings með leiðtogahópnum auk þess sem fjallað er um leiðir til að styrkja námssamfélög og leiðtogarnir fá tækifæri til að læra hver af öðrum. Leiðtogar geta þannig sótt stuðning til bæði háskólakennara og annarra leiðtoga um hvernig megi leiða starfið þannig að námssamfélagið styrkist og stærðfræðikennslan eflist í hverjum skóla. Hin námskeiðin eru á Opnu Menntafléttunni en þar er gert ráð fyrir að leiðtogar og námssamfélög innan skóla nýti efni námskeiðsins til sjálfstæðrar vinnu kennarahópsins. Skólar geta sótt um að fá ráðgjöf og stuðning við að vinna með efni námskeiða á Opnu Menntafléttunni.
Árið 2017 gerðu nokkrir háskólakennarar við HÍ og HA tilraun með átta skólum. Þá var prófað eitt af sænsku stærðfræðinámskeiðunum fyrir tvö aldursstig. Leiðtogarnir í hverjum skóla tóku virkan þátt í mótun aðlögunar námskeiðanna. Sænska lesefnið var þýtt á íslensku en myndefni var allt á sænsku. Reynslan var almennt góð en jafnframt kom mjög skýrt fram að allt efni þyrfti að vera á íslensku og að fjórir þróunarhringir á ári væri hæfilegt. Kennarahópurinn fékk þá 6 vikur til að fara í gegnum fjögur skref þróunarhringsins. Strax á þessu fyrsta ári kom í ljós að kennarar gripu þetta tækifæri til að þróa
saman kennslu sína og að þetta væri opið tilboð sem opnaði möguleika fyrir kennarahópa til að vinna saman út frá ólíkum forsendum og af mismunandi dýpt. Síðan hafa 16 stærðfræðinámskeið verið þróuð á íslensku fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Mörg þeirra eru sambærileg námskeið fyrir ólík skólastig. Öll hafa þau verið kennd og eru nú að koma inn í Opnu Menntafléttuna.
Leikskólanámskeiðin skera sig aðeins úr að því leyti að þau er best að taka í ákveðinni röð. Þar hefur einu stóru sænsku leikskólanámskeiði verið skipt í þrjú minni námskeið. Fyrst kemur Stærðfræðin í leik barna síðan Stærðfræðin í umhverfi leikskólabarna og að lokum Magnskilningur leikskólabarna.
Hingað til hefur ekki verið til mikið lesefni eða myndefni á íslensku um stærðfræðikennslu. Með tilkomu Menntafléttunnar bætist mikið við af efni sem skapar kennurum góða möguleika á að byggja upp þekkingu sína á stærðfræðinámi og -kennslu. Á námskeiðsvefnum er að finna í þróunarhringjunum umræðuspurningar fyrir fundi með samkennurum. Einnig fylgja verkefni þar sem gert er ráð fyrir að kennarar vinni verkefni með nemendum sínum í hverjum þróunarhring. Það er góður samræðugrundvöllur að ræða saman um reynslu af því að leggja sama verkefni fyrir ólíka nemendahópa og er gert ráð fyrir slíkum umræðum í námskeiðunum.
Hér að neðan má skoða þróunarhringi fyrir leikskólastig, grunnskólastig og framhaldsskóla. Þeir eru allir úr námskeiðum sem nú eru í boði á Opnu Menntafléttunni. Námskeiðin má skoða í heild með því að skrá sig inn á þau. Hver þróunarhringur byggist upp á fjórum skrefum. Í skrefi A undirbýr hver og einn sig með því að lesa og/eða horfa á myndband fyrir sameiginlegan fund með samkennurum í skrefi B en þar eru settar fram umræðuspurningar og gefnar hugmyndir að verkefnum til að vinna með nemendum. Í skrefi C er svo sjálf kennslan og gott að skrá athuganir sínar. Í skrefi D er miðað við að kennarar fundi aftur um reynslu sína og dragi lærdóm af henni.
Í Opnu Menntafléttunni eru nú þegar komin fimm stærðfræðinámskeið. Það er Tungumál stærðfræðinnar fyrir þrjú aldursstig grunnskólans og fyrir framhaldsskólann. Einnig er eitt námskeið fyrir leikskólann, þ.e. Stærðfræðin í leik barna. Auk þess er námskeiðið Greindu betur, sem er samþætting stærðfræði, tölfræði og samfélagsgreina. Námskeiðin er öllum opin endurgjaldslaust en skrá þarf sig á hvert námskeið til að geta skoðað efni þeirra. Sjá nánar á vef Opnu Menntafléttunnar.
Í Menntafléttunni er í vetur boðið upp á námskeiðin Tengsl og breytingar fyrir miðstig og Tengsl og breytingar fyrir unglingastig. Þar verður Birna Hugrún kennari og hittir leiðtoga í skólunum sex sinnum yfir veturinn á fjarfundum. Á eftirfarandi vefslóðum má finna nánari upplýsingar um námskeiðin og þar fer skráning einnig fram:
Lesa má um reynslu af Menntafléttunámskeiðum í Flatarmálum frá 2020 og 2021 sem finna má hér á vef Flatarmála, málgagns Flatar samtaka stærðfræðikennara í eftirtöldum greinum:
Guðbjörg Pálsdóttir og Birna Hugrún Bjarnardóttir. (2020) . Námssamfélög stærðfræðikennara undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga. Flatarmál 27(1), 29-31. https://www.ki.is/media/2vvjvqp4/flatarmal-2020-v7.pdf
Margrét S. Björnsdóttir. (2021). Menntafléttan – Stærðfræðinám í leikskóla. Flatarmál 28(1), 25-27. https://www.ki.is/media/ajalm0oy/flatarmal2021-v9.pdf
Birna Hugrún Bjarnardóttir, grunnskólakennari við Vatnsendaskóla og fv. verkefnastjóri í Menntafléttunni.
Guðbjörg Pálsdóttir, fv. dósent við Menntavísindasvið HÍ.