Viðtal við Auði Lilju Harðardóttur
um Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna
Á undanförnum árum hefur Auður Lilja Harðardóttir, kennari við Ísaksskóla, unnið með Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna (SKSB). Þar er megináhersla lögð á að opna leiðir fyrir börn til að efla talna- og aðgerðaskilning sinn. Kennsluhættirnir byggja á því að lagðar eru þrautir fyrir börn og þau þróa eigin leiðir við að leysa þær og byggja á fyrri þekkingu sinni og reynslu.
Í grein sem birtist í Skólaþráðum árið 2021 er fjallað um þessa nálgun og gefin dæmi um hvernig börn vinna með margföldun. Greinin ber heitið „Ég leysi stundum vandamálið með svona hringjum“ Hugsun barna um margföldun (Ólöf Björg Steinþórsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir, 2021). Þar má lesa um grunnhugmyndir þessarar nálgunar og umfjöllun um hvernig börn byggja upp þekkingu sína.
Í bókinni Children´s mathematics: Cognitively Guided Instruction (Carpenter, Fennema, Franke, Levi og Empson, 2015) er að finna greinargóða umfjöllun um þessa kennsluhætti, hugmyndafræðina, þrautagerðir og lausnaleiðir barna.
Auður Lilja Harðardóttir
Væntanlegt er á vef Opnu Menntafléttunnar námskeið sem heitir Talna- og aðgerðaskilningur á yngsta stigi. Þar verður að finna lesefni á íslensku og myndefni með íslenskum börnum sem unnið var í tengslum við rannsókn á leiðum íslenskra barna við að leysa þrautir. Sýnishorn af myndefni úr rannsókninni má finna í þessari grein.
Auður Lilja hefur kynnt sér vel nálgun Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna og þróað vinnubrögðin með nemendum sínum frá 5 ára aldri. Nemendur hennar eru núna í 3. bekk og hafa lært að nýta sér þessa nálgun við nám sitt. Auður Lilja lýsir uppbyggingu dæmigerðrar kennslustundar þar sem unnið er út frá hugmyndafræði SKSB.
Auður Lilja segir einnig frá hvers vegna hún velji að vinna samkvæmt Stærðfræðikennslu byggðri á skilningi barna og hverja hún telji helstu kosti þessara vinnubragða.
Ugla Sif 5 ára og fleiri gulrætur
Mikilvægt er að huga að þróun vinnu barnanna. Þrautirnar eru lagðar fyrir munnlega. Börnin hafa aðgang að einfestukubbum, blöðum og tússlitum til að nýta við lausn. Allir fá sömu þraut í byrjun en síðan má aðlaga eða bæta við eftir því sem vinnunni vindur fram. Nemendur Auðar Lilju hafa unnið samkvæmt Stærðfræðikennslu byggðri á skilningi barna frá upphafi skólagöngu sinnar. Hún lýsir hvernig börnin vinna, læra af og hjálpa hvert öðru.
Börn þurfa að kynnast ólíkum gerðum dæma og læra að greina hvaða upplýsingar eru gefnar og að hverju er verið að leita.
Í Stærðfræðikennslu byggðri á skilningi barna er stuðst við töflu yfir dæmagerðir. Meðfylgjandi tafla sýnir dæmagerðir í samlagningu og frádrætti.
Áhersla er lögð á að skoða aðgerðirnar út frá dæmagerðunum: sameining, aðskilnaður, hluti-hluti-heild og samanburður. En einnig þurfa nemendur að fái dæmi þar sem leitað er að upphafi, breytingu og niðurstöðu. Kennarar hafa þetta í huga við val á þrautum og Auður Lilja ræðir hér um viðbrögð nemenda.
Stella 5 ára: afmælisblöðrur – hluti óþekktur
Binni 5 ára: niðurstaða og breyting óþekkt
Viðhorf nemenda til náms skipta miklu máli varðandi hvaða nám getur átt sér stað. Auður Lilja dregur fram að öll tjáning munnleg, hlutbundin og skrifleg styðji við eflingu stærðfræðilegrar hugsunar og hver gerð styður við hinar. Það reynist börnum mun auðveldara að tala út frá kubbum eða teikningum um lausnaleiðir sínar. Nemendur hennar þekkja ramma vinnunnar og ganga sjálfstæðir til verks við að leita lausna. Allir vilja síðan tjá sig um leiðir sínar og hvernig þeirra leið tengist leið einhvers annars nemanda.
Auður Lilja hefur notað kennsluhætti Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna í nokkur ár og hefur því öðlast nokkra reynslu. Hún tók þátt í námskeiði á vegum Menntafléttunnar með Ísaksskóla og kenndi veturinn 2023-2024 á námskeiðinu Talna- og aðgerðaskilningur á yngsta stigi. Hún hefur því kafað í hugmyndafræðina, rætt kennsluhættina við kennara og prófað sjálf í eigin bekk.
Það var áhugavert að spjalla við Auði Lilju um vinnu hennar með Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna þar sem áhersla er á eflingu talna- og aðgerðaskilnings.
Viðtalið tóku Guðbjörg Pálsdóttir, fyrrv. dósent við Menntavísindasvið HÍ og Laufey Einarsdóttir, stærðfræðikennari í Sæmundarskóla.
Heimildir
Carpenter, T. P., Fennema, E., Franke, M. L., Levi, L. og Empson, S. B. (2015). Children’s mathematics: Cognitively Guided Instruction, 2nd edition. Heinemann.
Ólöf Björg Steinþórsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir. (2021, 21. apríl). „Ég leysi stundum vandamálið með svona hringjum“ Hugsun barna um margföldun. Skólaþræðir. https://skolathraedir.is/2021/04/21/eg-leysi-stundum-vandamalid-med-svona-hringjum-hugsun-barna-um-margfoldun/