LÆRT 2025 verður haldið dagana 13.-15. nóvember 2025 í Menntaskóla Borgarfjarðar.

LÆRT dregur nafn sitt af lærdómssamfélagi raunvísinda- og tæknigreinakennara og er markmið þess að bjóða kennurum sem koma að STEM greinum upp á vettvang til að mynda tengsl, miðla reynslu og þróa sig í starfi.

Nánari upplýsingar ásamt dagskrá má finna á heimasíðu LÆRT: https://laert.is

Snemmskráningu lýkur 22. júní og skráning fer fram hér: tinyurl.com/laert-2025


Þrjú ný námskeið eru nú aðgengileg á vef Opnu Menntafléttunnar og eru þau um Stærðfræðinám og upplýsingatækni fyrir öll aldursstig grunnskólans.

Þann 6. júní síðastliðinn voru samþykktar breytingar á lögum um grunnskóla sem snúa að námsmati. Í þeim felst innleiðing á samræmdum matsferli og gerð fjölbreyttra matstækja. Þann 7. júní birtist í Flatarmálum greinin Að meta framfarir í þágu náms: Matsferill í stærðfræði eftir Jóhann Örn Sigurjónsson.

Í greininni fjallar hann um tilurð og tilgang Matsferils í stærðfræði, inntak og gefur dæmi um hugsanleg prófatriði og framsetningu þeirra. Hér gefst kennurum og öðrum gott tækifæri til að kynna sér hvað felst í samræmdum matsferli og hvernig staðið hefur verið að þróun hans. Góð lesning við skólalok þegar námsmat hefur verið stór hluti af starfi kennara á lokavikum skólaársins.

Í nýjustu grein Flatarmála svarar Dóróþea Reimarsdóttir spurningum Margrétar S. Björnsdóttur um skimunarverkefnið MIO sem er ætlar til að skima stærðfræðiskilning leikskólabarna við daglegar athafnir í leikskólanum. Búið er að þýða og staðfæra verkefnið á íslensku og er það aðgengilegt fyrir þá sem hafa áhuga á að nota það. Nánar er fjallað um MIO í grein Margrétar: MIO – skimunarefni í stærðfræði fyrir leikskóla.

Jo Boaler er mörgum stærðfræðikennurum á Íslandi kunn. Hún var aðalfyrirlesari á námstefnu Flatar árið 2007 og margir hafa lesið bókina hennar Mathematical Mindset í kennaranámi sínu. Nú er komin ný og áhugaverð bók Math-ish (2024) frá Jo Boaler. Birna Hugrún Bjarnardóttir hefur tekið saman greinargott yfirlit yfir efni bókarinnar, í Nokkur orð um bókina Math-ish eftir Jo Boaler, og dregur þar fram helstu umfjöllunarefnin. Í bókinni er hugtakið Math-ish kynnt og í gegnum það fjallað um stærðfræðilegan fjölbreytileika og nauðsyn þess að við öll kynnumst og nálgumst stærðfræðina frá mörgum hliðum. Sjá má í þessari grein að velt er upp mörgu sem gaman og gagnlegt er að ræða saman um og varpar Birna Hugrún fram hugmynd um að stofna leshring til að skapa til þess umræðuvettvang.

Hugsandi skólastofa í stærðfræði – Bók fyrir kennara á öllum skólastigum

Mikill fengur hefur borist stærðfræðikennurum með þýðingu Bjarnheiðar Kristinsdóttur á bók Peters Liljendahl um hugsandi skólastofu. Bókin kom út í júní 2025 og er gefin út af Háskólaútgáfunni.

Peter Liljendahl, prófessor við Simon Fraser Universty, Kanada, hélt námskeið á vegum Flatar og Menntavísindasviðs HÍ árið 2019 og var það vel sótt. Síðan þá hafa æ fleiri stærðfræðikennarar verið að vinna með hugsandi skólastofu og þróa leiðir til að nýta hugmyndina í eigin aðstæðum. Nokkrar greinar hafa birst í Flatarmálum um hugsandi skólastofu. Nú síðast grein Nönnu Dóru Ragnarsdóttur sem birtist í vor.

Grunnhugmynd Peters Liljedahl byggir á því að hugsun sé forsenda náms. Hann hefur rannsakað og  leitað leiða sem gætu ýtt undir hugsun og virkni nemenda í glímu sinni við verðug stærðfræðiverkefni. Hann setur fram 14 aðferðir sem stutt geta kennara í að skapa hugsandi skólastofu. Í bókinni er farið vel í hvernig byggja má upp andrúmsloft og menningu þar sem nemendur eru sjálfstæðir og skapandi og tilbúnir að deila hugmyndum sínum og leita lausnaleiða. Einnig eru færð rök fyrir og gefin dæmi um hvernig þessar aðferðir styrkja stærðfræðinám nemenda. Auk þess eru að finna fjölda verðugra verkefna sem nýta má í stærðfræðikennslu á öllum skólastigum.

Peter Liljedahl hefur auk þessarar bókar gefið út bækurnar Mathematics Tasks for the Thinking Classroom K-5 og Modifying Your Thinking Classroom for Different Settings: A Supplement to Building Thinking Classrooms in Mathematics. En auk þess má finna á vefsíðu BTC áhugavert efni, viðtöl, fyrirlestra og alls kyns efni fyrir kennara.

Bókin kom fyrst út í september 2020 á ensku og hefur Bjarnheiður unnið gott starf við þýðingu og útgáfu bókarinnar. Það eru ekki til margar þýddar bækur á íslensku um stærðfræðimenntun ef nokkur.  Bókin er góð aflestrar og vonandi á hún eftir að nýtast íslenskum stærðfræðikennurum vel og lengi.