Skapandi stærðfræðiverkefni – almenn brot
Arna Björk Hafberg Gunnarsdóttir.
Á dögunum unnu nemendur í 6. bekk, skemmtilegt verkefni sem við kölluðum Pizzastaðinn. Teymið mitt (höfundur og samstarfskennari) var á höttunum eftir skapandi verkefni sem hægt væri að vinna með nemendum. Höfundur leitaði á náðir veraldarvefsins og sá að margt var í boði. Kennarar um allan heim bjóða margir hverjir nemendum sínum upp á spennandi verkefni. Margir þeirra eru einnig duglegir að deila hugmyndum sínum á veraldarvefnum og fann höfundur nokkur spennandi pizzaverkefni í leit sinni að skapandi verkefni fyrir nemendur. Ákvað höfundur þá að búa til verkefni út frá þessum hugmyndum sem hentaði nemendum 6. bekkjar.
Kröfurnar sem verkefnið átti að uppfylla voru þær að nemendur myndu fá tækifæri til að sýna þekkingu sína á almennum brotum, það er að þau kunni að lengja og stytta, leggja saman og jafnvel margfalda og deila með almennum brotum. Önnur krafa var að nemendur ættu að búa til orðadæmi og koma þannig þekkingu sinni á almennum brotum í orð. Þriðja krafan var að verkefnið ætti að vera sjónrænt og skapandi og fjórða krafan að verkefnið ætti að tengjast einhverju sem þau raunverulega þekkja og tengist þeirra daglega lífi.
Teymið ákvað þau hæfniviðmið sem hæfðu verkefninu og síðan hófst vinnan við að búa til verkefnið og glærukynningu. Nemendur fengu aðgang að fyrirmælum í gegnum classroom og með QR kóða sem hékk á áberandi stað í skólastofunni. Á glærunum voru öll fyrirmæli og þessar glærur voru kynntar fyrir nemendum í upphafi verkefnisins og einnig á meðan á verkefnavinnu stóð.
Vinna nemenda: Nemendur höfðu áður unnið kaflann um almenn brot í Stiku 2b. Kennarar höfðu valið þau dæmi sem helst þóttu styrkja þá þekkingu sem nauðsynleg var til að vinna verkefnið. Nemendur prófuðu að lengja og stytta brot, finna jafn stór brot, leggja þau saman og margfalda og deila. Þegar þeirri vinnu var lokið fengu nemendur í hendurnar pizzukassa og verkefnabækling, sem er verklag sem þau hafa áður kynnst og er þeim ekki framandi. Í bæklingnum kom fram nákvæmlega það sem á að gera í verkefninu. Í þessu tilfelli var það vinna við að búa til pizzu, raða á hana áleggi, vinna með almenn brot og búa til tvö orðadæmi sem tengdust pizzunni á einhvern hátt. Þau skráðu lausnir sínar í bæklinginn og bjuggu til sína eigin pizzu samhliða. Í upphafi kynnti kennarateymið verkefnið fyrir nemendum og svo hófst vinnan við að búa til pizzurnar og leysa verkefnin í bæklingnum. Nemendur fengu bæði munnleg og sjónræn fyrirmæli í gegnum allt ferlið.
Orðadæmi 1
Jón og Pétur eru góðir vinir. Þeir ákveða að panta pizzu. Þeim finnst báðum pepperóní gott á pizzu svo þeir setja pepperóni á alla pizzuna. Jóni finnst banani góður á pizzu en Pétri finnst það ekki. Þeir setja því banana á aðeins 1/4 af pizzunni. Pétur er með aðra skoðun en Jón, honum finnst ananas góður á pizzu en Jóni finnst það ekki. Þess vegna setja þeir ananas á annan fjórðung af pizzunni. Restin af pizzunni er bara með pepperóní. Hve stór hluti af pizzunni er bara með pepperóní?
Á forsíðu bæklingsins áttu nemendur að útskýra hugtök kaflans (að lengja og stytta brot, hluti af safni eða heild, samnefnari, teljari og nefnari). Flestum gekk vel með það og mörg notuðu sín eigin orð við að útskýra hugtökin. Við ráðleggjum þó nemendum að vinna þessa síðu þegar verkefninu er lokið því í gegnum vinnuna hafa nemendur þurft að nota hugtökin í samræðum við kennara og aðra nemendur og þannig öðlast betri skilning á hugtökunum. Mjög góð æfing fyrir nemendur er að þurfa líka að útskýra hugtökin skriflega. Á veggjum skólastofunnar hanga spjöld með hugtökum kaflans.
Afrakstur: Pizzur í pizzukössum, tvö orðadæmi og útreikningar nemenda.
Námsmat: Nemandi mat vinnu sína og merkti aftan á bæklinginn hvort hann hefði náð þeim markmiðum sem lagt var upp með. Nemandi og kennari ræddu saman á meðan á vinnu stóð og kennari gaf leiðbeiningar og benti á hvar nemandi gæti aflað upplýsinga ef hann var strand í verkefninu. Kennari benti nemendum til dæmis á að kíkja aftur í Stiku 2B eða sýndi nemanda á annan hátt hvernig vinna má með almenn brot. Í þessari vinnu fer fram mikilvægt samtal milli kennara og nemanda. Nemendur leita frekar til kennarans ef þau eru strand í þessari vinnu heldur en þegar þau eru strand í Stiku. Kennslubókin er fín en í svona verkefnavinnu er hægt að meta hvort nemandi er að ná hugtökum kaflans og mun auðveldara er að spjalla um stærðfræði þegar nemandi er með gögn sem hann hefur sjálfur búið til og er að vinna með. Námsmat kennara stemmdi oftast við það námsmat sem nemandinn hafði gefið sjálfum sér.
Afrakstur: Pizzur í pizzukössum, tvö orðadæmi og útreikningar nemenda.
Samantekt: Nemendur voru áhugasamir og þeim fannst þetta skemmtilegt verkefni. Markmið verkefnisins var að tengja almenn brot við daglegt líf nemendanna. Okkur þótti það takast vel hjá nemendum okkar. Öll höfðu einhvern tímann borðað pizzu og settu fram ýmsar útgáfur af pizzum. Orðadæmin voru einnig frumleg. Okkur fannst nemendur okkar ná góðum skilningi á almennum brotum og áhugavert var að sjá þegar þau uppgötvuðu að það sem þau voru að læra í Stiku nýttist þeim við vinnu verkefnisins. En okkur í teyminu hefur oft fundist að nemendur nái ekki að yfirfæra þá þekkingu yfir í daglegt líf. Þetta verkefni gefur nemendum og kennurum tækifæri til að ræða saman um stærðfræði og hugtök stærðfræðinnar án þess að það verði yfirþyrmandi eða erfitt fyrir nemandann.
Arna Björk Hafberg Gunnarsdóttir, miðstigskennari við Vesturbæjarskóla.