Miðja máls og læsis hefur tekið saman allt efni stöðumats ÍSAT nemenda á Padlet vegg. Þar er hægt að finna stöðumatshefti í stærðfræði fyrir ÍSAT nemendur á mörgum mismunandi tungumálum. Heftin er hægt er að leggja fyrir í kennslustundum og flestir nemendur geta unnið nokkuð sjálfstætt í þeim. Stöðumatsheftunum er skipt í nokkra flokka:
– 1 – 3.bekkur
– talnaskilningur og reikniaðgerðir
– líkindi og tölfræði
– rúmfræði
– algebra
Hér er svo að finna allar upplýsingar um stöðumat nýkominna barna
Á síðunni er að finna veggspjöld, myndbönd og stóran verkefnabanka með opnum, myndrænum og skapandi verkefnum sem byggja á hugmyndum um hugarfar vaxtar (growth mindset). Þar má einnig finna ýmsar fræðigreinar og rannsóknir á stærðfræðimenntun. Jo Boaler er einn af stofnendum síðunnar sem er ætlað að gefa kennurum, foreldrum og nemendum hugmyndir og úrræði til að iðka stærðfræði á hvetjandi og spennandi hátt.
Mathematics Assessment Project (Mathshell)
Hér er að finna mikið magn af verkefnum og ítarlegum kennsluáætlunum, sem innihalda m.a. kennsluleiðbeiningar, verkefnalýsingar, matsverkefni og greinargóða matslista. Verkefnin eru flokkuð eftir aldri og efnisþáttum og er þeim ætlað að dýpka skilning nemenda á stærðfræðihugtökum og þróa hæfni þeirra og rökhugsun til að leysa raunveruleg viðfangsefni. Þar sem síðan inniheldur gríðarlegt magn af upplýsingum og verkefnum er mælt með að kynna sér fyrst leiðarvísinn fyrir kennara.
Á Math Medic er hægt að finna tilbúnar kennslustundir þar sem lögð er áhersla á samvinnu nemenda í litlum hópum í gegnum röð vandlega útfærða spurninga sem smám saman verða flóknari. Í kjölfar þessara verkefna er síðan farið yfir það hvernig kennari getur ýtt undir umræðu sem tengir hugmyndir nemenda við fræðilegan orðaforða og glósur.
Þetta er það sem þeir kalla Experience First, Formalize Later. Þessar kennslustundir henta mjög vel með kennslunálguninni hugsandi skólastofu en kennslustundirnar henta þó betur nemendum sem eru á elstu stigum grunnskóla og framhaldsskóla.
Síða með skemmtilegum kennslumyndböndum um stærðfræði. Myndböndin eru flokkuð eftir efnisþáttum og eru ókeypis.
Skemmtilegt myndband sem sýnir víðfeðmt svið stærðfræðinnar og tengslin á milli hreinnar stærðfræði og hagnýttrar stærðfræði í einni mynd.
TED myndbönd og fleira um stærðfræði
Safn af TED fyrirlestrum, greinum og gátum sem tengjast stærðfræði. Þarna má finna urmull af áhugaverðu efni.
TED Ed myndbönd um stærðfræði í raunveruleikanum
Safn af skemmtilegum myndböndum sem fjalla um stærðfræði í raunveruleikanum.
Á síðunni eru góðir verkefnabankar fyrir öll aldurstig.
Hér hefur Mick Minas tekið saman leiki um tölur og reikniaðgerðum fyrir leik- og grunnskólabörn.
Bloggsíða sem inniheldur stóran verkefna – og gagnabanka fyrir stærðfræðikennara á unglinga- og framhaldskólastigi.
KhanAcademy býður upp á ókeypis æfingarverkefni og kennslumyndbönd sem hjálpa nemendum að dýpka skilning sinn á ákveðnum efnisatriðum í stærðfræði. Vefurinn nýtist stærðfræðinemendum mjög vel en ásamt því er hægt að finna verkefni og myndbönd tengt náttúrufræði, forritun, sögu, listasögu, hagfræði og fleira.
Á Numberphile er að finna mörg fræðandi og skemmtileg myndbönd um tölur og stærðfræði.
Making math moments that matter
Hlaðvarp þar sem tveir stærðfræðikennarar segja frá sögum úr skólastofum, ræða kennsluaðferðir og “leyndarmál” til þess að byggja upp kennslustofu sem nemendur vilja vera í.
Greining á stöðu læsis á stærðfræði, fyrsti fundur af sjö, þar sem markmiðið var að kafa dýpra í niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2022, fór fram 15. janúar 2024 í Stakkahlíð, Bratta.
Á þessum fyrsta fundi var staða læsis á stærðfræði greind:
- Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, sérfræðingur við Menntamálastofnun, gaf yfirlit yfir niðurstöður PISA 2022 á stöðu stærðfræðilæsis.
- Freyja Hreinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, rýndi dýpra í niðurstöður.
- Berglind Gísladóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, stýrði fundinum og umræðum í lok fundar.
Um fjörutíu manns mættu á staðinn og tæplega 90 manns fylgdust með þessum fyrsta fundi í streymi á Zoom.
▶️ Upptaka af fundinum er aðgengileg hér.
Á Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun, má finna greinina: Að móta námsumhverfi í stærðfræði þar sem skapandi hugsun er í fyrirrúmi: Kristjana Skúladóttir stærðfræðikennari.
Höfundar eru Jónína Vala Kristinsdóttir og Ólöf Björg Steinþórsdóttir.
Greinin er hluti af sérritinu Þau skiptu máli: Sögur grunnskólakennara sem var birt 31. desember 2023.
Í ágripi greinarinnar segir eftirfarandi:
Áhersla á hugsun barna um stærðfræði og hvernig þau takast á við stærðfræðinám sitt hefur fengið aukið vægi í kennaramenntun og námskrá undanfarna áratugi. Tilgangurinn með þessari grein er að gefa innsýn í starf stærðfræðikennara sem hefur haft það að markmiði að gefa nemendum sínum tækifæri til að beita skapandi hugsun við stærðfræðinámið.
Kristjana Skúladóttir hefur kennt á yngsta stigi og miðstigi grunnskóla í rúma þrjá áratugi og lagt sig eftir að kynna sér rannsóknir á hugsun barna um stærðfræði og kennsluhætti sem styðja þau við að beita skapandi hugsun. Greint er frá rannsóknarverkefnum sem hún hefur kynnt sér og lýst hvernig hún hefur nýtt sér þekkingu sína á þeim í kennslu sinni og við að styðja aðra kennara til að þróa kennsluhætti sína í stærðfræði.
Við rannsóknina var beitt frásagnarrýni og stuðst við gögn frá ferli hennar sem kennara, viðtöl, vettvangsnótur og gögn frá nemendum. Niðurstöður rannsókna á kennsluháttum Kristjönu leiða í ljós að hún hefur átt í öflugu samstarfi við samkennara sína um að þróa kennsluhætti í stærðfræði þar sem skapandi hugsun, rökræður og áhersla á hlutdeild nemenda og ábyrgð á eigin námi er í fyrirrúmi.
Veggspjaldið varð til í Hollandsdeild samtakanna European Women in Mathematics – EWM-NL. Það var samið í samvinnu hóps kvenna frá Hollandi og Bretlandi, þeirra Silvy Henriks, Houry Melkonian og Maria Vlasiou sem átti hugmyndina að gerð þess. Veggspjaldið hefur verið þýtt á sautján tungumál og þýðingar á fjórtán önnur tungumál eru í undirbúningi. Kristín Bjarnadóttir hafði veg og vanda að því að veggspjaldið var þýtt á íslensku og kennarar á Menntavísindasviði HÍ aðstoða við dreifingu. Veggspjaldinu er ætlað að vekja athygli á þætti kvenna í þróun stærðfræðinnar því oft er eins og þær hafi ekki verið hluti af samfélagi stærðfræðinga.