Valdís Ingimarsdóttir og Unnur Henrysdóttir.
Helgina 3. og 4. mars sl. var haldin námstefna á vegum Flatar, samtaka stærðfræðikennara. Um leið var haldið upp á 30 ára afmæli samtakanna og var þetta í fyrsta skipti í nokkuð mörg ár sem leikskólakennarar taka þátt í námstefnunni. Við undirritaðar fengum þann heiður að vera fulltrúar leikskólans og buðum upp á vinnustofur þar sem við kynntum þau verkefni sem við höfum verið að bjóða upp á í leikskólunum okkar.
Nám í stærðfræði getur farið fram hvar og hvenær sem er og er mikilvægt að leikskólakennarar séu meðvitaðir um það. Í leikskóla skapast mörg tækifæri til náms, þar sem nám getur farið fram í margvíslegum aðstæðum, og er það hlutverk leikskólakennarans að grípa tækifærin til að stuðla að því. Fyrir börnum á leikskólaaldri er stærðfræði og annað nám leikur og auðvelt að fá þau til þess að taka þátt í stærðfræðilegum vangaveltum á öllum mögulegum stöðum. Talið er að í vinnu með börnum á leikskólaaldri eigi að leggja megináherslu á þrjá inntaksþætti stærðfræðinnar, þ.e.a.s. tölur, rúmfræði og mælingar (Valdís Ingimarsdóttir, 2019).
⇨ Vinna með tölur á fjölbreyttan hátt: spila tölubingó með flísum og teningi, raða saman tölum samsettum úr punktum og tölum, laufblöð með tölustöfum og klukka, tölustafir á gólfi þar sem þarf að bæta við þeim tölum sem vantar.
Vinnustofurnar okkar voru byggðar upp með það í huga að sýna fram á að stærðfræði ætti heima í öllu leikskólastarfi og að við sem vinnum í leikskólum erum sífellt að bjóða upp á vinnu með stærðfræði í leik og starfi. Okkar löngun með þessum vinnustofum var að opna augu starfsmanna leikskóla fyrir því hvernig hægt er að nýta þann efnivið sem við erum með alla daga fyrir framan okkur. Þannig vildum við draga frekar fram að stærðfræðinám með börnum getur farið fram án þess að þurfa að breyta dagskipulagi eða leggja í einhvern aukakostnað við kaup á efniviði.
Við vorum með tvær vinnustofur, önnur hét Hlutbundin stærðfræðivinna í leikskóla og hin hét Stærðfræði í umhverfinu. Í vinnustofunni Hlutbundin stærðfræðivinna var sjónum beint að því leikefni sem flest allir leikskólar eiga og hvernig hægt er að nýta þann efnivið við stærðfræðinám. Flestir leikskólar eiga alls kyns kubba líkt og Lego, Duplo, segulkubba, einingakubba, trékubba og plúskubba. Við vildum sýna hvernig hægt er að vinna að myndsköpun og fínhreyfingum með kubbum. Einnig vildum við beina sjónum að því hvernig nýta má málörvunarstundir til þess að ýta undir stærðfræðinám. Það má einnig vinna með spil og púsl ásamt því að nýta alls kyns verðlaust efni.
⇦ Plastdúkur og teiknuð form þar sem hægt er að fylla upp í með hverju því sem börnunum dettur í hug. Hægt að leika með tening og setja jafnmarga hluti á formið og teningurinn segir til um. Hver er fyrstur að klára formið sitt?
Í vinnustofunni, sem hét Stærðfræði í umhverfinu, lögðum við áherslu á það hvernig hægt er að vinna með stærðfræðina utandyra, þá ýmist úti í náttúrunni eða í nærumhverfi okkar, eins og t.d. í leikskólagarðinum. Stærðfræði er allt í kringum okkur eins og fyrr segir og sérstaklega finnst okkur gaman að gera börnum grein fyrir henni utan dyra. Hægt er að nota efnivið líkt og steina, greinar, sand, okkur sjálf og hvað annað sem börnunum dettur í hug við stærðfræðivinnu.
⇧ Efniviður sem hægt er að leika og vinna með á margvíslegan hátt í stærðfræði:
greinar, pappaspjöld, útprentuð form, kubbar, pappaglös og segulkubbar.
Í báðum vinnustofunum hvöttum við til umræðna og lögðum fram spurningar um það hvernig og hvaða þætti stærðfræðinnar væri hægt að vinna með. Miklar umræður sköpuðust og gaman var að heyra og sjá hvernig augu opnuðust fyrir einhverjum af hugmyndunum á meðan aðrar ýttu undir frekari áhuga á stærðfræðivinnu með börnum á leikskólaaldri. Við fögnum allri umræðu um stærðfræðinám með ungum börnum og vonumst til að þess að námstefnan og aukin umræða verði til þess að opna augu fleiri leikskólakennara fyrir stærðfræði í umhverfi barnanna.
⇧ Unnið með form, liti og tölur. Efniviður: pappakassi, límmiðar, málningarlímband.
Valdís Ingimarsdóttir, deildarstjóri í Ungbarnaleikskólanum Bríetartúni
Unnur Henrysdóttir, deildarstjóri í leikskólanum Marbakka
Heimild:
Valdís Ingimarsdóttir. (2019). Ég finn bara hálfan skó!: Hvaða stærðfræði eru börn á leikskólaaldri að fást við?. Skemman. https://skemman.is/handle/1946/32468