Elín Ósk Vilhjálmsdóttir.
Haustið 2018 tók ég í fyrsta skipti við umsjónarkennslu í 1. bekk, en áður hafði ég starfað sem umsjónarkennari í 6 ár á miðstigi í Sæmundarskóla. Ég fékk það verkefni í hendur að breyta kennsluháttum í stærðfræði á yngsta stigi; fækka verkefnum í bók og leggja meiri áherslu á hlutbundna vinnu. Við tók alls konar hugmyndavinna með það að markmiði að koma jákvæðum hugmyndum til nemenda um stærðfræði og jafnframt gera námið fjölbreytt og skemmtilegt.
Nemendur á þessum aldri hafa lítið úthald í sama verkefnið í lengri tíma, finnst gaman að vinna saman og ekki skemmir fyrir ef verkefnið er mikið unnið í höndunum, ekki bara reikna í bók.
Nemendur þjálfa hversu mikið felst í hverjum tölustaf. Draga fyrst tölu, eiga svo að finna mynd sem er með jafn mörgum hringjum og setja svo einn kubb ofan á hvern hring til að fá tilfinninguna fyrir fjöldanum sem talan táknar.
Nemendur að spila talnabingó þar sem lögð er áhersla á frádrátt. Í leiknum kastar einn nemandi í einu tveimur teningum og dregur svo aðra töluna frá hinni og kannar hvort hann geti fundið svarið á bingóspjaldinu sínu. Samlagning var einnig þjálfuð á sama hátt.
Spil með tölum frá 0-100. Nemendur þjálfa sig í að lesa og þekkja tölurnar frá 0-100. Spilunum er skipt jafnt á milli þeirra sem eru með og sá byrjar sem er með spilið “BYRJA”. Einn nemandi spyr: “Ég er með 20 – hver er með 55?” og þá athuga hinir hvort þeir séu með töluna 55. Næsti tekur við og spyr á sama hátt. Svona gengur spilið þar til allir hafa losað sig við sín spil. Nemendum fannst þetta spil mjög skemmtilegt.
Nemendur raða saman tölum þannig að það er einn tugur á milli talnanna.
Talnaskífur, eins og þær sem sjást á myndinni, er hægt að nýta í margvísleg verkefni sem tengjast talnafræði. Önnur útfærð verkefni voru til dæmis að flokka talnaskífurnar í oddatölur og sléttar tölur, og að finna allar tölur sem enda á 5 eða 0.
Ákveðið var að nota stöðvavinnu, en það hentaði mjög vel fyrir áherslurnar okkar og markmið. Settar voru upp fjórar stöðvar og voru nemendur á hverri stöð í 15-20 mínútur. Stöðvarnar voru á dagskrá einu sinni til tvisvar í viku. Við byrjuðum alltaf hvern stöðvartíma á að setjast saman á mottu fyrir framan töfluna og kennarinn fór yfir hvaða stöðvar væru í tímanum. Yfirleitt voru þrjár stöðvar með sjálfstýrandi verkefnum og ein stöð sem var kennarastýrð. Stöðvarnar voru bæði við borð nemenda en einnig sátu nemendur eða lágu á mottum á gólfinu. Verkefnin sem eru kynnt í þessari grein henta nemendum í 1. – 3. bekk grunnskóla.
Nemendur unnu oft á sérstakar tússtöflur. Hver nemandi er með einn rennilásarpoka, í honum er einn penni, einn svampur og ein tússtafla. Nemandinn gætti þess að allt þrennt væri í vasanum hjá sér þegar hann kom á stöðina og líka þegar hann fór frá stöðinni.
Nemendur drógu dæmi og áttu að æfa sig í uppsetningu. Á þessari stöð var unnið með samlagningu og frádrátt. Verkefnið gekk mjög vel, nemendum fannst auðveldara að skrifa á tússtöflur heldur en í reikningsbók og auðveldara að stroka út ef þeir gerðu mistök. Það er líka svolítið spennandi að fá að skrifa á tússtöflu eins og kennarinn.
Unnið með að bæta einum tug við töluna sem sem dregin er úr talnapottinum. Nemendur skrifa niður töluna sem þeir draga á tússtöfluna sína og æfa sig svo að bæta alltaf einum tug við og skrifa næstu fimm tölur í talnarununni. Þetta verkefni gekk alltaf mjög vel og þjálfaði nemendur í að telja á tug.
Nemendur læra að skilja að margföldun sé endurtekin samlagning. Nemendur kasta tveimur teningum, upp koma tölurnar 4 og 5, nemandinn ákveður þá hvort hann ætli að teikna fjóra teninga sem sýna báðir 5 doppur eða teikna fimm teninga sem sýna fjórar doppur hver. Nemendur skrifa svo tölurnar sem margföldunardæmi og finna svarið út frá myndinni sinni. Þetta verkefni gekk mjög vel og nemendum fannst það skemmtilegt. Nemendur skildu betur hvernig margföldun virkar sem endurtekin samlagning og að víxlregla gildi.
Nemendur draga dæmi úr bunka á miðju borðinu og æfa sig að reikna dæmin á tússtöflu. Þá læra nemendur að nota talnagrind til að aðstoða sig við reikninginn.
Mikið var lagt upp úr því að nemendur kæmu að stöðvunum snyrtilegum og að námsgögnin væru tilbúin á réttum stöðum. Þegar tíminn á hverri stöð var búinn, áttu nemendur að ganga frá stöðinni sinni þannig að hún leit eins út og þegar þau komu að henni. Til að byrja með fór mikill tími í að kenna nemendum þetta en þegar leið á veturinn tók frágangurinn einungis nokkrar mínútur og þá var umgengnin alltaf góð og virðing borin fyrir námsgögnum.
Unnið með tölur frá 0-100. Hver nemandi fékk eitt band og talnakubba. Verkefnið fól í sér að finna allar tölur í hverjum tug fyrir sig, t.d. 1-10, 11-20, 21-30 o.s.frv.
Nemendur byggja eftir fyrirmynd með lituðum sentíkubbum. Hver og einn nemandi byggir sína mynd.
Þegar búið er að byggja myndina á spjaldinu þá þarf að passa að taka alla kubbana í sundur, skila þeim aftur í kassann og draga svo nýja mynd.
Nemendum fannst þetta verkefni mjög skemmtilegt og báðu oft um að fara í það í frjálsum tíma.
Nemendur sitja saman á mottu og spila spil sem finna má í námsefninu Sproti.
Á þessari stöð var unnið með mánuðina. Nemendur áttu að raða mánuðunum í rétta röð samkvæmt dagatali en einnig var unnið sambærilegt verkefni með vikudagana.
Á einni stöð var unnið með spegilás. Nemendur byrjuðu á því að gera spegilásinn með svörtum perlum og perluðu svo mynd öðru hvoru megin við spegilásinn sem þau spegluðu síðan yfir spegilásinn. Á myndinni má sjá afrakstur þeirrar vinnu.
Verkefnin sem nemendur unnu á stöðvunum voru fjölbreytt. Mörg verkefnanna voru fengin af heimasíðunni Út fyrir bókina og Teaching Packs og flest hlutbundnu gögnin fengum við hjá ABC skólavörum. Einnig notuðum við Ipada en yfirleitt var alltaf ein stöð með Ipad. Þá unnum við í ýmsum forritum eins og Osmo og nýttum okkur mikið norsku heimasíðuna Multi sem tengist námsefninu Sprota (við völdum verkefni og útskýrðum fyrir nemendum hvað ætti að gera, því fyrirmælin eru á norsku).
Nemendur vinna tveir og tveir saman í IPAD í forritinu OSMO numbers. Hérna er verið að þjálfa samlagningu talna. OSMO numbers er frábært forrit til að þjálfa talnaskilning, samlagningu og margföldun.
OSMO er með mikið úrval forrita sem nýtast við stærðfræðikennslu í skólum. Þau forrit sem við nýtum mest eru OSMO numbers, OSMO tangram, OSMO pizza, OSMO detective og OSMO coding Awbie.
Nemendur vinna saman tveir og tveir í Ipad með forritið OSMO coding Awbie.
Nemendur þjálfast í rökhugsun og að leysa þrautir og gefa skipanir. Nemendum fannst þetta skemmtilegt verkefni, oft á tíðum krefjandi en skemmtilegt.
Einstaklingsvinna í Ipad. Forritið Tynker notað til að þjálfa rökhugsun.
Það sem stóð upp úr þegar nemendur unnu saman á stöðvum var að þau hjálpuðu hvort öðru meira og samtalið sem átti sér stað á milli nemenda um námið var meira heldur en þegar þau vinna í bókum. Nemendum fannst auðveldara að reikna á tússtöflur heldur en að skrifa í bók og þegar nemendur aðstoðuðu hver annan þá gátu þau svo auðveldlega útskýrt á sinni töflu eða skrifað á töfluna hjá þeim sem þau voru að aðstoða.
Nemendur draga þraut með orðadæmi og eiga að leysa þrautina. Hver nemandi er með sitt svarblað en fær talnaspjald með tölum upp í 100 til að aðstoða sig. Þegar nemandi hefur leyst þrautina skrifar hann svarið á sitt svarblað, notar svo Ipadinn til að taka mynd af QR kóðanum á þrautarspjaldinu og fær þá upp rétt svar sem hann ber saman við sitt.
Nemendum fannst oft erfitt að vinna með orðadæmi en skemmtilegt því það var gaman að sjá strax með QR kóðanum hvort þrautin hafi verið rétt leyst.
Hérna má sjá þegar nemandi tekur mynd af QR kóðanum og fær svarið í IPADINN sem hann getur svo borið saman við eigin lausn.
Hér eru nemendur líka að leysa orðadæmi en eru nú með einingakubba til að aðstoða sig við lausnarleitina. Allir eru með sitt eigið svarblað og sannreyna svo svarið með QR kóðanum
Nemendur voru alltaf mjög spenntir og jákvæðir þegar þeir vissu að morgni að það yrði stöðvavinna í stærðfræði þann daginn og spurðu oft í lok dags hvort það yrði líka stöðvavinna daginn eftir. Viðhorf nemenda var almennt jákvætt og áhugi þeirra á stærðfræði jókst. Það má því segja að vel hafi tekist að ná þeim markmiðum sem við lögðum upp með; að gera stærðfræðinámið fjölbreytt og skemmtilegt með áherslu á hlutbundna vinnu og um leið efla jákvætt viðhorf nemenda til stærðfræði.
Elín Ósk Vilhjálmsdóttir, stærðfræðikennari við Sæmundarskóla.