Margrét Sigríður Björnsdóttir.
Nemendur í Vopnafjarðarskóla hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir þátttöku sína í keppninni First Lego League (FLL) en hún er alþjóðleg Legókeppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna í 110 löndum víða um heim.
Í tilefni af þessum góða árangri kynnti greinarhöfundur sér keppnina og tók einnig viðtal við þrjá af liðsmönnum Dodici- en liðið keppti síðast undir því nafni. Þetta voru þau Baldur Geir Hlynsson, Ásdís Fjóla Víglundsdóttir og Lilja Björk Höskuldsdóttir. Með þeim var Sólrún Dögg Baldursdóttir kennari þeirra. Aðrir liðsmenn eru Aron Daði Thorbergsson, Freyr Þorsteinsson, Berglind Vala Sigurðardóttir og Þórhildur Inga Hreiðarsdóttir.
Um hvað snýst þessi Legókeppni?
Á íslenskri heimasíðu keppninnar (firstlego.is/keppnin/) segir að árið 1998 hafi verið stofnað til samstarfs milli FIRST® og LEGO® Group þar sem börnum var boðið upp á gáskafullt en innihaldsríkt nám og hjálpað til að uppgötva þá skemmtun sem vísindi og tækni geta veitt.
First stendur fyrir For Inspiration and Recognition of Science and Technology og Lego þarf vart að kynna en það stendur fyrir „Leg godt“.
Tilgangur First Lego League (FLL) er að bjóða ungu fólki að taka þátt í spennandi verkefnum sem:
- skapa færni í vísindum, verkfræði og tækni
- örva nýsköpun
- byggja upp lífsleiknihæfileika eins og sjálfstraust, samvinnu- og samskiptahæfni
FLL keppninni er nú skipt í þrjár deildir; Challenge (10-16 ára), Explore (6-9 ára), Discover (4-6 ára) og hefur Háskóli Íslands haldið keppnina fyrir elsta aldurshópinn (Challenge) síðan 2005
Hvernig kom það til að Vopnafjarðarskóli fór að vinna með Legó?
Á sínum tíma var það áhugasamur kennari, Heiðbjört Antonsdóttir, sem fór af stað með söfnun fyrir Lego hjá fyrirtækjum á Vopnafirði. Þá var keyptur slatti af Legó og róbótar. En svo fékk skólinn gamlar brautir gefnar frá Háskóla Íslands sem krakkarnir gátu notað til að æfa sig á. Þá var fyrst boðið upp á Lego í vali en þremur árum seinna, eða 2015, tók skólinn þátt í keppninni.
Skemmst er frá því að segja að Drekarnir frá Vopnafjarðarskóla báru sigur úr bítum og fóru því í úrslitakeppnina sem haldin var á Tenerife. Það hafa aðeins tvö lið frá Íslandi náð inn í 8 liða úrslitin og er Dodici- annað þeirra. Upphaflega var unnið með Lego í Vopnafjarðarskóla í tengslum við náttúrufræði en síðan hefur hún oftar en ekki verið val.
Liðið ykkar heitir Dodici-, hvaðan er nafnið komið?
Hvert lið velur sér nafn og í fyrri keppni voru nemendurnir 12. Á þeim tíma leituðu þeir að nafni sem táknaði 12 og fundu Dodici sem þýðir 12 í ítölsku. Í síðustu keppni voru þeir færri en 12 og settu því mínus merki á eftir nafninu. Í gegnum tíðina hafa liðin frá skólanum oft valið sér nöfn út frá fjölda liðsmanna líkt og Seven Up, Six Pack og X.
Dodici vann keppnina árið 2021 og fór í úrslit í Ålesund en vegna Covid færðust úrslitin til upphafs ársins 2022. Dodici- vann síðan keppnina 2022 og fór í úrslit í Fornebu þannig að liðsmenn Dodici- fóru tvisvar í úrslit til Noregs sama árið.
Á myndinni má sjá Dodici- liðið ásamt liðsstjórum við kynningarbásinn í Noregi
Um hvað snýst keppnin?
Á heimasíðu keppninnar segir að verkefnin, sem hvert keppnisliðið þurfi að vinna að fyrir keppnina, séu þríþætt og snúi að fleiru en forritun. Hvert lið á að:
- hanna og forrita Legoþjark (vélmenni) sem leysir þrautir ársins í vélmennakapphlaupi
- taka þátt í nýsköpunarverkefni með því að kanna og leysa raunveruleg vandamál sem tengjast þema hvers árs og heimabyggð hópsins
- byggja upp góðan liðs- og keppnisanda
Í boði eru nokkur verðlaun. Þau eru veitt fyrir róbótakappleik þ.e. hönnun og forritun róbótans, nýsköpunarverkefni, liðsheild og svo eru aðalverðlaunin First Lego League meistarar. Dodici fékk verðlaun fyrir liðsheild 2021 og Dodici- vann verðlaun fyrir róbótakappleikinn 2022 en bæði liðin lönduðu aðalverðlaununum og urðu því First League meistarar á Íslandi.
Hvað eruð þið svo að gera í Legó valinu?
Á haustin er markmiðið að fara í keppnina en svo er stundum boðið upp á forritunarval eftir keppni. Til þess að fara í keppnina þá þarftu að vera með nýsköpunarverkefni og brautina sjálfa þannig að það er eiginlega það sem við erum að gera, að reyna að finna eitthvert nýsköpunarverkefni. Vinna út frá því að reyna að afla okkur upplýsinga frá rafvirkjum og það er bara svo misjafnt eftir þemum. Síðast sneri þemað að orkunotkun og orkunýtingu. Stór partur af þessu verkefni er að finna lausn á einhverju vandamáli. Oft er gott að tengja það við heimabyggð en það var samt ferkar erfitt þegar þemað var geimferðir.
Þemað 2022 var ofurkraftar (Super Powered) þar sem liðin kanna hvaðan orka kemur og hvernig henni er dreift, hvernig hún er geymd og notuð – þá leggja þau til sína ofurkrafta og beita aðferðum rannsókna og nýsköpunar við að koma með hugmyndir að betri framtíð í orkumálum. Hugmyndirnar sem Dodici- setti fram tengdar orkunotkun og orkunýtingu voru:
- Hjól undir borð nemenda þannig að þeir geti myndað rafmagn með því að hjóla alveg hljóðlaust. Markmiðið var að fá rafmagn sem dugar fyrir eina kennslustofu.
- Mottur sem framleiða rafmagn þegar gengið er á þeim – Þær væri fínt að setja í fjölfarinn stiga inni í skólanum.
- Vélrænt loftræstikerfi sem stjórnar loftflæði innanhúss og sparar þannig hitunarkostnað.
Hvers vegna heitir róbótinn ykkar Garðar Sigurvin?
Róbótinn sem notaður var í fyrri sigrinum hét Harpa eftir karakter úr teiknimyndum sem margir kannast við um Svamp Sveinsson. Það var ákveðið að halda sig við sama þema og nú var komið að Garðari sem einnig er karakter úr sömu teiknimyndum. Liðið fékk Garðar í verðlaun í fyrri keppni svo það þótti tilvalið að kalla hann Garðar Sigurvin þar sem vísað er í sigur á íslensku og win á ensku.
Hver er ávinningurinn af svona vinnu?
Við náttúrulega vitum miklu meira um allskonar eins og þegar þemað var um að spara raforku því við þurftum að afla okkur svo mikilla upplýsinga til að gera þetta verkefni. Við lærðum mikið um hvað raforka kostar, við vorum í sjokki sko.
Sólrún bætir við að nemendur hafi verið farnir að passa það að opna ekki glugga allt of mikið að óþörfu eða fikta í ofnastillingum, að vera að hækka og lækka stanslaust, þetta hafi verið orðið svona jafnara. Krakkarnir setja sig í samband við ýmsa fagaðila í samfélaginu til að afla sér upplýsinga, kynna síðan fyrir sama fólki niðurstöður sínar og fá viðbrögð við þeim. Í þessu ferli ásamt þátttökunni í keppninni sjálfri felst mikill lærdómur þar sem þau kynna eigin verkefni og fá kynningu á verkefnum annarra liða.
Hvað finnst ykkur skemmtilegast við að taka þátt í keppninni?
Að tala við fræðingana í tengslum við rannsóknarverkefnið til að fá upplýsingar. Svo er það ferðalagið og að fara til útlanda. Samveran er líka mjög skemmtileg.
Vélmennakapphlaupið er stór þáttur í keppninni. Þegar róbótinn er byggður og forritaður þarf að hafa það í huga hvaða þrautir er best að leysa til að fá sem flest stig sem er bæði krefjandi og skemmtilegt.
Hvernig birtist stærðfræðin í verkefninu?
Svona almennir hlutir sem við erum að gera í stærðfræði, hugsa rökrétt og rökhugsun og allt það. Svo róbótinn, raða kubbunum saman, reikna stærðir. Við þurftum að reikna sólarsellurnar, hversu mikið var á einn fermetra á skipinu þegar það var og líka núna rafmagnið. Hvað kostar fyrir hvern rúmmetra og bara alveg ótrúlega mikil stærðfræði í þessu.
Sólrún bætir við að það komi bein stærðfræði inn þegar verið er að forrita róbótann. Þá er unnið með gráður í dekkjasnúningum, beygjum og svo örmum þegar róbótinn er að lyfta og svoleiðis. Þá er líka unnið með mælieiningar þar sem verið er að keyra kannski einhverja sentimetra. Svo eru það auðvitað stigin, liðið þarf að finna út hvaða þrautir það ætlar að leysa og í hvaða röð til að spara sem mestan tíma og fá sem flest stig. Síðan eru alltaf einhverjir útreikningar sem tengjast rannsóknarverkefninu. Það er bara misjafnt eftir þemanu hvaða reikning þau fara í þar. Það er náttúrulega lausnaleitin, rökhugsun og þrautseigja.
Vitið þið af hverju þið eruð svona sigursæl?
Keppnin 2021 var rafræn hér heima vegna Covid. Liðin sendu inn upptökur svo Dodici gat fylgst með keppninni ásamt öðrum. Af því tilefni var haldið Pálínuboð í skólanum. Sigurinn kom mikið á óvart og brutust út mikil fagnaðarlæti. Síðan um haustið 2022 héldu þau í Dodici- að þau gætu ekki unnið aftur þannig að það kom mjög skemmtilega á óvart þegar það gerðist. Þau sáu alveg að þeim gekk vel í seinni keppninni en héldu að þau mættu ekki vinna aftur.
Frá verðlaunaafhendingunni 2022 í Háskólabíói ©Kristinn Ingvarsson.
Við þurftum að gera alveg sér verkefni í keppninni úti um liðsheild og þar sem við erum bara eitt lið frá Íslandi að þá þurftum við að kynna landið okkar líka.
Í keppninni úti var hinum liðunum sagt að klappa sérstaklega vel fyrir íslenska liðinu þar sem það væri búið að ferðast mest. Liðið leggur mikið á sig því þau eru eini hópurinn sem þarf að snúa öllu yfir á ensku. Hin liðin nota Norðurlandamálin. Tungumálið er krefjandi og hugmyndavinnan er það líka því þau þurfa að komast niður á verkefni sem þau telja vera gott og setja fram margar hugmyndir áður en ákveðið er hvað á að gera. Síðast höfðu þau rétt um viku til þess að koma efninu yfir á ensku og betrumbæta. Það kom sér vel að á tímabilinu voru þemadagar sem teknir voru undir þessa vinnu ásamt einni helgi. Þau eru því sammála um að það að vinna svona keppni er alls engin heppni heldur uppskera þeirrar vinnu sem búið er að leggja í hana. Það er því reynslan – áhugasamir krakkar og samvinnan sem skilar þessu.
Það er ekki sjálfsagt að geta tekið þátt í keppninni þar sem það er dýrt fyrir lið úti á landi og þá sérstaklega að taka þátt í úrslitum erlendis. Styrkir frá fyrirtækjum og stuðningur frá foreldrum og samfélaginu hefur gert þeim það kleift.
Haldið þið að vinnan með Legó hafi hjálpað ykkur í náminu?
Jú, þetta tengist náttúrulega alveg nokkrum allskonar fögum, ensku og íslensku og náttúrufræði og þetta var metið sem upplýsinga- og tæknimennt í námsmati. Þannig að jú, og læra forritun.
Sólrún nefnir líka samvinnu. Þetta er náttúrulega ótrúlega mikil æfing í samvinnu sko.
Finnst ykkur að krakkar í öðrum skólum ættu að taka þátt í þessari keppni?
Já, ég myndi mæla með henni, já. Þetta er mjög skemmtilegt, sérstaklega að vinna og fá að fara með hópnum í utanlandsferð. Gaman að fara suður. Það var líka gaman að taka þátt þegar keppnin var rafræn og við fórum ekki neitt sko en það er ennþá skemmtilegra að fara til Reykjavíkur. En þau segjast líka myndu vilja taka þátt þó svo að þau myndu ekki vinna.
Ætlið þið að taka þátt í næstu keppni?
Þau segjast ætla að taka þátt en finnst það samt stressandi þar sem þau gætu átt það á hættu að eyðileggja titilinn. Við erum búin að keppa tvisvar og vinna tvisvar. Ef við keppum næst og vinnum ekki þá erum við búin að eyðileggja titilinn. Reynslan getur komið sér vel því liðinu fannst mun betra að fara út í annað skiptið því þau höfðu lært mörg „trix“ í fyrri ferðinni sem þau gátu nýtt sér í þeirri næstu enda toppuðu þau sig frá árinu áður.
Næsta First Lego League keppni verður haldin laugardaginn 11. nóvember 2023 í Háskólabíó. Sjá nánar á íslenskri heimasíðu keppninnar en þar segir að Þema ársins 2023 sé MASTERPIECE℠ (MEISTARAVERK) og í lýsingu segir:
Notaðu ímyndunaraflið til að endurhugsa listheiminn!
Þema ársins 2023 er meistaraverk (Masterpiece). Þá munu FIRST LEGO League liðin kanna listheiminn; hvaðan list er sprottin og hvernig henni er miðlað – þá munu nemendur beita aðferðum rannsókna og nýsköpunar við að finna nýjar leiðir til að skapa og miðla list um heim allan.
Greinarhöfundur þakkar viðmælendum sínum ásamt kennara þeirra kærlega fyrir áhugavert samtal og óskar Dodici- góðs gengis í næstu keppni en liðið mun freista þess að verja titilinn undir sama nafni í nóvember 2023.
Margrét Sigríður Björnsdóttir, aðjúnkt á Menntvísindasviði Háskóla Íslands