Nanna Möller.
Undanfarin ár hef ég lagt fyrir nemendur í 8. bekk tölfræðiverkefni um Eurovision sem gengið hefur vel og vakið áhuga nemenda. Þeir byrja á að vinna verkefni um gengi Íslands í Eurovision frá upphafi og síðan hlustum við á lögin í annarri undankeppninni og nemendur gefa lögunum stig. Við tökum svo stigin saman í töflureikni og rýnum í niðurstöðurnar.
Ég sé fyrir mér að þetta verkefni gæti einnig hentað vel fyrir yngri nemendur og mun ég prófa að leggja það fyrir nemendur í 6. og 7. bekk á þessu skólaári.
Ísland í Eurovision
er fyrra verkefnið. Þá notum við töluleg gögn um gengi Íslands í keppninni og greinum þau. Sjá mynd 1. Í greiningarvinnunni verða nemendur oft forvitnir og vilja heyra lögin sem fengu mörg stig eða fá. Það skapast oft líflegar og skemmtilegar umræður og finnst mér mikilvægt að leyfa þeim að hlusta á lögin og spjalla til að kveikja enn frekar áhuga þeirra á verkefninu.
Nemendur fá einnig afhent verkefni sem sjá má á mynd 2. Þar er búið að taka saman í hvaða sætum Ísland hefur lent í þátttöku sinni í keppninni og eiga nemendur að nota upplýsingarnar til að finna tíðasta gildið, hæsta gildið, lægsta gildið, miðgildið og meðaltalið. Í kjölfarið eru sætin flokkuð og fundið hversu oft Ísland hefur lent í 1. – 5. sæti, 6. – 10. sæti o.s.frv. Niðurstöðurnar eru þá settar upp í súlurit. Nemendur eiga svo að gera það sama fyrir stigafjöldann sem Ísland hefur fengið. Hér má nálgast verkefnablöðin á pdf formi.
Keppnin í ár
Annar hluti verkefnisins er að hlusta á lögin í forkeppninni sem Ísland tekur þátt í. Nemendur fá stigablað, eins og það sem er á mynd 3. Þar eiga þeir að gefa uppáhaldslögunum sínum stig. Stigatöfluna hef ég útbúið sjálf og hef því uppfært hana fyrir hvert skipti. Það má þó finna ýmsar gerðir af stigatöflum á netinu sem hægt er að nota.
Ég tek við blöðunum þeirra og tek stigin saman fyrir allan hópinn í töflureikni og deili því skjali svo með hverjum og einum nemanda í hópnum. Nemendur nota svo innbyggðar formúlur í töflureikni til að taka saman stigafjöldann sem hvert land fékk sem og til að finna miðsæknina. Í kjölfarið höfum við skoðað fleiri tölfræðilegar upplýsingar um Eurovision, eins og hvaða land hafi unnið oftast og hvernig stigagjöfinni er háttað í keppninni o.s.frv.
Nú hef ég lagt þetta verkefni fyrir a.m.k. 5 sinnum í einhverri mynd og alltaf hefur það tekist vel og verið skemmtilegt. Jafnvel þótt ég hafi verið með hópa sem hafa ekki haft sérlega mikinn áhuga á söngvakeppninni hafa þeir alveg dottið inn í umræður um lögin og tekið þátt af heilum hug. Að lokum vona ég að verkefnið muni bæði skemmta og nýtast öðrum í tölfræðukennslu í maí n.k.
Nanna Möller, kennari við Borgarhólsskóla á Húsavík.