Kristín Bjarnadóttir.
Keila er heillandi form. Listamenn hafa glímt við að fanga keilulaga fjöll í málverkum og ljóðum. Eldfjöll, sem gjósa einu sinni þunnfljótandi hrauni sem streymir jafnt niður til allra hliða, geta orðið keilulaga. Eldfjöll með keilulagi nefnast dyngjur.
Mynd 1 sýnir fjallið Skjaldbreiði, nánast fullkomlega keilulaga. Talið er að Skjaldbreiður hafi orðið til við eldgos fyrir um 9000 árum síðan.
Mynd 1: Skjaldbreiður teygir sig upp í 1.066 m hæð yfir sjávarmál. Ljósmynd: Regína Fanný Guðmundsdóttir
Skáldið og náttúrufræðingurinn
Jónas Hallgrímsson orti
um Skjaldbreiði:
Fanna skautar faldi háum
fjallið, allra hæða val,
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Rétt keila
Mynd af réttri keilu kemur fram við að snúa rétthyrndum þríhyrningi heilan hring um aðra skammhliðina (sjá Mynd 2). Snúningsásinn er önnur skammhlið þríhyrningsins, og verður ás keilunnar. Hornrétt á ásinn markast hringlaga botn.
Mynd 2: Rétt keila
Keilusnið: Hringur, sporbaugur, fleygbogi og breiðbogi
Mynd 3: Frá vinstri: (1) fleygbogi, (2) hringur, (3) sporbaugur, (4) breiðbogi
Mynd 3 sýnir hvernig fagurlega myndaðir skurðferlar koma fram þegar keila er skorin lárétt, lóðrétt eða á ská. Sé skorið lárétt hornrétt á ás keilu verður skurðferillinn hringur (Mynd 3 (2)).
Sé ekki skorið hornrétt á ásinn koma fram aðrir ferlar. Ef halli skurðflatarins er minni en hliðarhalli keilunnar verður brún skurðflatarins eins konar teygður hringur, sporbaugur (Mynd 3 (3)).
Ef halli skurðflatarins er samsíða hlið keilunnar, verður brún skurðflatarins bogadreginn ferill sem lokast ekki, heldur víkkar eftir því sem lengra er skorið. Ferillinn nefnist fleygbogi (Mynd 3 (1)).
Sé keilan skorin þannig að skurðflöturinn verði samsíða ás keilunnar, verður skurðferillinn enn víðari en á fleygboga. Ferillinn nefnist breiðbogi (Mynd 3 (4)). Venjulega er fjallað um breiðboga sem tvo aðskilda ferla. Þá er keila framlengd með annarri keilu sem er speglun hennar í sléttu í gegnum oddpunkt keilanna, hornréttri á ása þeirra.
Heiti keilusniðanna
Ferlarnir sem hér hafa verið nefndir, hringur, sporbaugur, fleygbogi og breiðbogi, hafa verið viðföng stærðfræðinga frá fornöld, allt frá tímum Forn-Grikkja á fjórðu öld fyrir Krist. Stærðfræðingnum Menaechmus er eignaður heiðurinn af því að hafa uppgötvað keilusnið um 360-350 f.Kr. Heiti keilusniða á öðrum evrópskum tungumálum eru rakin til forngrísku:
Íslenska | Danska | Enska | Þýska | Franska |
---|---|---|---|---|
hringur | cirkel | circle | Ring | cercle |
sporbaugur | ellipse | ellipse | Ellipse | ellipse |
fleygbogi | parabel | parabola | Parabel | parabole |
breiðbogi | hyperbel | hyperbola | Hyperbel | hyperbole |
Heiti keilusniða eru mjög sértæk orð og koma sjaldan fyrir utan stærðfræði, eðlisfræði og stjörnufræði. Hvað varð til þess að ferlarnir hlutu ný óskyld heiti á íslensku?
Árið 1842 kom út íslensk þýðing á bókinni Astronomi eftir danska prófessorinn Georg Frederik Ursin (1830), undir heitinu Stjörnufræði, ljett og handa alþíðu. Þýðandinn var Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur. Þýðingar Jónasar á heitum keilusniðanna eru hljómfögur orð. Ein ástæða þess að hann valdi að þýða orðin gæti verið sú að áhersla er sjaldnast á fyrsta atkvæði í erlendu orðunum. Orðin ellipsa, parabóla og hyperbóla hafa þó oft verið notuð sem tökuorð í íslensku enda voru kennslubækur í stærðfræði í framhaldsskólum gjarnan á norðurlandamálum langt fram á tuttugustu öld. Þegar farið var að þýða og semja kennslubækur á íslensku um þessi efni, voru heiti Jónasar tekin upp í kennslubókunum.
Keilusnið og himinhnettirnir
Hvaða erindi eiga þessir ferlar í bók um stjörnufræði? Allt frá fornöld glímdu menn við að átta sig á gangi himintunglanna. Lengi var talið að allir himinhnettir, s.s. sól, tungl, reikistjörnurnar Venus, Mars og Júpíter ásamt fastastjörnunum, snerust um jörðina. Það nefndist jarðmiðjukenning. Samkvæmt henni virtust brautir hnattanna afar flóknar, en þekking á þeim nýttist þó til að segja fyrir um gang hnattanna og hvar og hvenær þeirra væri von. Á sextándu öld hlaut sólmiðjukenningin um að sólin væri miðja sólkerfisins vaxandi fylgi fyrir verk þeirra Kóperníkusar (1473–1543), Keplers (1571–1630) og Galileos Galilei (1564–1642), og brautir hnattanna einfölduðust til muna.
Fyrst var talið að jörðin gengi í hring í kringum um sólu, en síðar var sýnt fram á að braut jarðarinnar væri sporbaugur og sólin væri í öðrum brennipunkti hans. Sama máli gegnir um aðrar reikistjörnur. Brautir reikistjarnanna eins og jarðarinnar verða til fyrir aðdráttaraflið. Milli jarðar og sólar er gagnkvæmt aðdráttarafl sem heldur litlum massa jarðarinnar og hinna reikistjarnanna á ferð eftir sporbaugum umhverfis stóran massa sólarinnar.
Hnitakerfið
Kartesískt hnitakerfi hefur reynst heppilegur rammi til að setja keilusniðsferlana skilmerkilega fram. Orðið „kartesískt“ vísar til heimspekingsins og stærðfræðingsins René Descartes (1596–1650) sem talinn er upphafsmaður tvívíðs rétthyrnds hnitakerfis. Sérhver punktur í sléttunni er settur fram með tveimur tölum, hnitum. Tölurnar tákna annars vegar fjarlægð frá lóðréttri talnalínu, en hins vegar frá láréttri talnalínu. Með því að færa rúmfræði inn í hnitakerfi varð unnt að tengja saman algebru og rúmfræði og setja rúmfræðileg fyrirbrigði fram með algebru.
Hringur
Jafna hrings með miðju í upphafspunkti hnitakerfisins, (0, 0), er x2 + y2 = r2, þar sem r er radíi eða geisli hringsins, sjá Mynd 4. Jöfnu hrings má líka rita:
Mynd 4: Hringur
Sporbaugur
Sporbaugur er eins konar teygður hringur og jafna sporbaugs er náskyld jöfnu hrings. Í sporbaug eru tveir hálfásar, a og b, í stað geislans r. Langás hefur lengdina 2a, en skammás lengdina 2b, sjá Mynd 5. Jafna sporbaugs með miðju í (0, 0) er:
Mynd 5: Sporbaugur
Breiðbogi
Þótt ferlarnir sporbaugur og breiðbogi séu ólíkir að sjá eru jöfnur þeirra svipaðar. Jöfnur breiðboga með miðju í (0, 0) eru:
þar sem a er lárétt fjarlægð oddpunkta breiðbogans A frá upphafspunkti og b er lóðrétt fjarlægð oddpunkta systurferilsins B frá upphafspunkti, sjá Mynd 6.
Mynd 6: Breiðbogi
Eiginleiki breiðboga er að nálgast beinar línur, sem nefnast aðfellur (e. asymtotes), æ meir eftir því sem fjær dregur oddpunktum breiðbogans. Jöfnur aðfellanna eru
Fleygbogi
Jafna fleygboga er y = ax2, ef oddpunktur hans er í upphafspunktinum (0, 0). Sjá Mynd 7.
Mynd 7: Fleygbogi
Algebra keilusniða
Þegar grannt er skoðað eru líkindi með jöfnum allra keilusniðanna. Önnur hvor breytan x eða y eða báðar koma alltaf fyrir í öðru veldi. Almennt gildir jafnan:
ax2 + bxy + cy2 + dx + ey + f = 0
fyrir öll keilusniðin ef stuðlarnir a, b, og c eru ekki allir núll samtímis.
Brennipunktur, stýrilína og hringvik
Keilusniðin sporbaugur, fleygbogi og breiðbogi hafa brennipunkt (e. focus), einn eða tvo, og stýrilínu (e. directrix). Hringvik, (e. excentricity) er hlutfall fjarlægðar punkts á keilusniði frá brennipunkti keilusniðsins og fjarlægðar hans frá stýrilínunni.
Fleygbogi
Ef oddpunktur fleygboga er í (0,0) og brennipunkturinn hefur hnitin (0, p) er jafna stýrilínu y = – p, og jafna fleygbogans:
Um sérhvern punkt M(x, y) á fleygboganum gildir að fjarlægðin MB stendur í hlutfalli við fjarlægðina MD þar sem D(x, – p) er punktur á stýrilínunni. Á mynd 8 er MB = MD og hringvikið MB/MD=1
Mynd 8: Fleygbogi, brennipunktur og stýrilína
Sporbaugur
Sporbaugur hefur tvo brennipunkta. Ef miðja sporbaugsins er í (0, 0) eru brennipunktarnir í (c, 0) og (-c, 0).
Ef a > b gildir um c jafnan: c2 = a2 – b2.
Jöfnur stýrilína lárétts sporbaugs eru:
Mynd 9: Sporbaugur, brennipunktar og stýrilínur
Summa fjarlægða punkts á sporbaug frá brennipunktunum tveimur er fasti:
PF1 + PF2 = 2a
þar sem a er hálf lengd langáss sporbaugsins.
Líta má á hring sem sértilvik af sporbaug. Brennipunktur hrings fellur saman við miðju hans.
Mynd 10: Sporbaugur, fjarlægð punkts frá brennipunktum
Breiðbogi
Topppunktar breiðboga með miðju í (0, 0) er í (a, 0) og (-a,0) þar sem a er hálf lengd langáss breiðbogans, sjá Mynd 11.
Breiðbogi hefur líka lóðréttan ás, b, sjá Mynd 6.
Brennipunktar breiðboga með láréttan ás eru F1 = (c, 0) og F2 = (-c, 0), þar sem a2 + b2 = c2.
Jöfnur stýrilína lárétts breiðboga eru þá:
Mynd 11: Breiðbogi, brennipunktar og stýrilínur
Mismunur fjarlægða punkts á breiðboga frá brennipunktunum tveimur er fasti:
││PF2 │– │PF1 ││= 2a
Mynd 12: Breiðbogi, mismunur fjarlægða punkts frá brennipunktunum
Hringvik
Hringvik, e, er eins og áður sagði hlutfallið milli fjarlægðar punkts frá brennipunkti ferils og stýrilínu ferilsins, sjá Mynd 13.
Hringvik sporbaugs er minna en 1. Hringvik fleygboga er 1 eða stærra.
Þannig má líta á að hringvik beinnar línu sé óendanlegt.
Mynd 13: Hringvik
Ýmsir eiginleikar keilusniða
Brautir margra himinhnatta eru sporbaugar utan um aðra þyngri hnetti sem eru í öðrum brennipunkti sporbaugsins.
Ferlar sumra halastjarna eru breiðbogar.
Kastferlar hluta í þyngdarsviði eru fleygbogar ef horft er framhjá loftmótstöðu.
Fleygbogi hefur þann eiginleika að sé geislum varpað að honum samsíða ás hans endurvarpast þeir í brennipunktinn.
Sé ljós kveikt í brennipunkti spegils með fleygbogalagað þversnið, sjá Mynd 14, varpast ljósgeislarnir út samsíða ás fleygbogans. Þessi eiginleiki er nýttur við gerð ljóskastara.
Eiginleikinn er líka notaður í stækkunarglerjum (safnglerjum). Þá er samsíða geislum ljósgjafa, til dæmis sólar, safnað í brennipunkt. Sé ljósgjafinn sólin má hæglega nota safngler til íkveikju.
Mynd 14: Samsíða geislarnir Q1P1, Q2P2, Q3P3… endurvarpast í fleygbogalöguðum ferli og safnast saman í brennipunktinum F. Einnig gætu geislar frá brennipunktinum F endurvarpast sem samsíða geislar.
Flatarmál flata innan keilusniða
Hringur
Flatarmál hrings er F = πr2
Sporaskja
Flöturinn innan sporbaugs nefnist sporaskja. Flatarmál sporöskju er F = πab.
Aðrir ferlar eru opnir. Hægt er að reikna flatarmál svæða sem afmarkast af fleygboga og beinni línu eða breiðboga og annars ferils.
Æfing
Festið spotta með teiknibólum í báða enda á spjald þannig að slaki sé á spottanum. Takið blýant og spennið spottann og rennið síðan blýantinum eins langt og komist verður báðum megin við tengilínu teiknibólanna. Samkvæmt Mynd 10 ætti að koma fram sporbaugur.
Kristín Bjarnadóttir, prófessor emerita við Háskóla Íslands
Bjarnheiður Kristinsdóttir, lektor við Háskóla Íslands vann myndir í GeoGebra